„Smátt og smátt lærist mér …“

Í dag er allra heilagra messa. Á þessum degi minnast margir látinna ástvina og íhuga sorgina og lífið. Við horfum yfir farinn veg. Mörg okkar halda líka í kirkjugarða til að vitja um leiði, kveikja kannski á kerti og gera stutta bæn. Mig langar í dag að deila með ykkur sem heimsækja þetta blogg stuttu ljóði eftir ástralska ljóðskáldið Marjorie Pizer:

Ég taldi að dauði þinn
væri eyðing og eyðilegging,
sársaukafull sorg sem ég fékk vart afborið.
Smátt og smátt lærist mér
að líf þitt var gjöf og vöxtur
og kærleikur sem lifir með mér.
Örvænting dauðans
réðist að kærleikanum.
En þótt dauðinn sé staðreynd
fær hann ekki eytt því sem þegar hefur verið gefið.
Með tímanum læri ég að líta aftur til lífs þíns
í stað dauða þíns og brottfarar.

„Smátt og smátt lærist mér,” skrifar hún. Með tímanum lærist okkur að horfa á lífið, vera þakklát fyrir það sem þegið var meðan okkur auðnaðist að ganga saman en ekki bitur yfir því sem aldrei fékk að verða. Kannski er það stærsti lærdómur þess sem fetar sig eftir stíg sorgarinnar.

Kannski er það líka áskorun okkar sem þjóðar, nú á þessum tímum, þegar við glímum við úrvinnslu kreppusorgarinnar.

In

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.