Það sem gerir okkur reið

Árni og Kristín:

Margt gerir okkur reið á Íslandi í dag. Í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis eru nefndar fjölmargar ásetnings- og vanrækslusyndir sem hafa bitnað á okkur öllum. Sum okkar eiga í vök að verjast og berjast í bökkum, en lífið gengur sinn vanagang hjá öðrum. Öll verðum við fyrir áhrifum af því að trúverðugleiki og traust til stofnanna og valdafólks hefur hrunið.

Hruninn trúverðugleiki og svíðandi ranglæti hefur fætt af sér réttláta reiði. Reiðin er eðlilegt og heilbrigt viðbragð við óeðlilegu ástandi. Reiðin er frumtilfinning sem vekur okkur og þenur taugar og hjarta. Reiðin er ekki góður staður til að vera á, en stundum erum við sett á þannig stað.

Fyrir samfélag í kreppu er sinnuleysi og tilfinningadoði hættulegri en reiðin. Sinnuleysið er samfélagsógn. Það er ekki gott að búa í skeytingarlausu og köldu samfélagi þar sem heiðarleiki og velvild eru sniðgengin. Á meðan við erum reið er okkur ekki sama. Reiðin getur gefið kraft til að hefja ferli sem er nauðsynlegt til að breyta því sem er ranglátt og óheilbrigt.

Leiðin frá reiði til sáttar er löng. Það er ekki hægt að stytta sér leið. Við verðum að fá að nefna það sem lætur hjartað okkar slá örar í reiði og sorg. Við verðum að fá að vera reið og tjá það. Hlustum á hjartað sem berst í brjósti okkar.

Skýrslan er birt. Nú rennur upp tími aðgerða. Það dugar ekki að setja plástur á sár þjóðar sem blæðir vegna ábyrgðarlausrar framgöngu og brotins trausts. Góðverk koma aldrei í stað réttlætis. Við þurfum að styrkja lýðræðið, bæta samskiptin og efla samfélagsvitundina á landinu okkar.

In

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.