Séra Ruddi dópar og drekkur

Árni og Kristín:

Nýlegt atriði í þættinum Steindinn okkar sem sýndur er á Stöð2 sýnir samskipti prests við fermingarbörn og annað fólk. Þetta atriði vakti athygli okkar og hér koma viðbrögð við því.

Fermingin

Fermingin er  mikilvægur þáttur í íslenskri unglingamenningu. Hlutfall þeirra sem fermast í kirkjunni eða borgaralega í hverjum árgangi er hátt, með því hæsta sem þekkist nokkurs staðar.

Þetta er mikilvægur tími, börnin standa á þröskuldi unglingsáranna og fá tækifæri til að glíma við stóru spurningarnar, spurningar um líf og tilvist og trú, siðferði og sjálfsmynd. Fermingardagurinn sjálfur er ekki síður mikilvægur. Fjölskyldur koma saman, boðið er til veislu til heiðurs unglingnum og fagnað. Þetta gildir jafnt um þau sem fermast í kirkju og hin sem fermast borgaralega. Við vitum að mörg fermingarbörn upplifa kirkjuna sína sem vettvang fyrir umræðu um stóru spurningarnar í lífinu og öruggan stað til að vera á.

Atriðið í Steindanum okkar gefur innsýn í fermingarathöfn þar sem allt fer úrskeiðis. Presturinn er sökudólgurinn. Hann er óáreiðanlegur, óábyrgur, ofbeldishneigður. Hann fer yfir öll mörk, hagar sér í öllu tilliti á annan hátt en við búumst við af almennilegri manneskju. Hvað þá presti. Kannski á brandarinn að búa einmitt þar. Father Thug – séra Ruddi – drekkur undir stýri, neytir fíkniefna, mætir of seint í kirkjuna, kemur fram á ofbeldisfullan hátt, sýnir kirkjugestum, fermingarbörnum, kirkjurýminu og sér sjálfum vanvirðingu.

Presturinn í atriðinu er reyndar ekki aðeins fulltrúi sinnar stéttar eða kristinnar trúar. Hann er líka fulltrúi hinna fullorðnu. Hér er dregin upp neikvæð mynd af fullorðnu fólki.

Prestarnir í menningunni

Við þekkjum dæmi um framsetningu af þessu tagi úr menningarsögunni, úr bókmenntum, leikritum og kvikmyndum. Svo nokkur dæmi séu tekin úr kvikmyndasögunni þá má nefna að presturinn í Brúðgumanum er fégráðugur, eldri presturinn í Ítölsku fyrir byrjendur er ofbeldismaður, prestur í Fanny og Alexander beitir fjölskyldu sína andlegu og líkamlegu ofbeldi. Við höfum líka séð dæmi um þetta í nýlegum sjónvarpsþáttum. Bad Vicar úr þáttum Mitchell og Webb kemur upp í hugann.

Við þekkjum líka dæmi um hið gagnstæða úr menningarsögunni, yngri presturinn í Ítölsku fyrir byrjendur er  mesta gæðablóð, Jón Prímus í Kristnihaldi undir jökli gengur í takt við þjóðina, og presturinn Ivan í Eplum Adams er góðhjartaður en kannski svolítið skrítinn. Í þáttunum um Klerkinn í Dibley sjáum við prest sem er samfélagsstólpi og mætir fólki og viðfangsefnum með húmor og jákvæðni.

Atriðið í Steindanum okkar er á formi tónlistarmyndbands. Myndbandið er við þekkt lag Ameno með hljómsveitinni ERA. Það mætti hugsa sér að skoða það út frá hliðstæðum við önnur tónlistarmyndbönd, stemningin minnir á rappmyndbönd, en við erum ekki nægilega fróð um það svið til að geta fullyrt um það. Kannski getur einhver lesandi bloggsins frætt okkur um þetta.

Ímynd og væntingar

Brandarinn í atriðinu gengur út á að spila á ímynd presta og væntingar til prests og fermingar. Þess vegna er svona áhrifaríkt að draga upp mynd sem er gagnstæð því við eigum að venjast. Það vekur sterk viðbrögð.

Við höfum horft á nokkur atriði úr þessum þáttum. Þau eru misfyndin, eins og gengur með svona efni. Fermingaratriðið vekur blendnar tilfinningar. Það gerir okkur líka hugsi um ímynd presta og um skilaboðin sem við fullorðna fólkið gefum unglingunum okkar um það sem lífið gengur út á. Virðing fyrir okkur sjálfum og fyrir öðrum er mikilvægt veganesti fyrir unglingana okkar, kannski það mikilvægasta sem þau fá út í lífið. Ef tilgangur Steindans okkar var að minna okkur á það, hefur hann náðst.

In

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.