Þjóð, kirkja og hjúskapur

Árni og Kristín:

Um helgina tóku gildi ný hjúskaparlög á Íslandi. Fyrir það hafa Íslendingar hlotið hrós frá mannréttindafulltrúa Sameinuðu þjóðanna sem lítur á lögin sem skref í þá átt að samkynhneigðir njóti jafnra réttinda og virðingar.

Þingvallakirkja á júníkvöldi

Hér á landi hafa trúfélög umboð til að gefa fólk saman í hjónaband. Þess vegna hafa þau verið virkir þátttakendur í samtalinu um hjúskaparlögin. Eðli málsins samkvæmt snertir þetta mál þjóðkirkjuna með sérstökum hætti þar sem prestar hennar framkvæma langflestar hjónavígslur sem fram fara í landinu.

Innan þjóðkirkjunnar hafa málefni samkynhneigðra verið mikið til umfjöllunar. Kirkjan hefur, eins og samfélagið almennt, þurft að horfast í augu við að margt í hennar eigin sögu hefur stuðlað að útskúfun og jaðarsetningu samkynhneigðra. Viðhorfsbreyting gagnvart samkynhneigðum hefur átt sér stað í þjóðkirkjunni, eins og í samfélaginu almennt.

Þjóðkirkja hefur ríkari skyldur við þjóðina en önnur trúfélög. Kirkja og þjóð eiga að ganga saman þegar kemur að umbótum á mannréttindum og auknu jafnrétti. Annars missir kirkjan marks sem þjóðkirkja og gerir sig að sértrúarsöfnuði. Sértrúarsöfnuður lýtur öðrum lögmálum en þjóðkirkja og getur í nafni trúar og samviskufrelsis farið aðra leið en fólkið í landinu þegar kemur að umbótum á mannréttindum.

Frá því lög um staðfesta samvist tóku gildi 27. júní 1996 hafa samkynja pör getað fengið blessun og bæn yfir samband sitt í kirkju. Frá 27. júní 2008 hafa pör getað staðfest samvist sína í kirkju. Frá 27. júní 2010 geta bæði samkynja pör og gagnkynja pör gengið í hjónaband í kirkju. Þetta er eðlileg þróun. Kirkjan er samstiga þjóðinni í umbótum á mannréttindum og velferð. Þjóð og kirkja eiga samleið þegar ný hjúskaparlög taka gildi.

In

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.