Haltu kjafti
!

Ungur piltur og ryðguð keðja

Ég var ellefu ára. Staddur heima hjá bekkjarbróður og við vorum að fara út að leika. Áður en við fórum af stað þurfti hann að tala við foreldra sína. Og þeim sinnaðist eitthvað og það skipti engum togum að hann gargaði á mömmu sína: „Haltu kjafti!“

Svo rauk hann út. Og ég á eftir. Það kom á mig. Ég var alinn upp við það að svona talaði maður ekki við foreldra sína.

Ég veit ekki hvað varð um strákinn eða fjölskyldu hans. Ég þekki ekki söguna á bak við þetta. En ég hugsaði um þetta kvöld í vikunni þegar ég sá móður hans á gangi niðri í bæ. Hún er svolítið kreppt í útliti. Gengur um lotin. Beygð. Eins og kona sem hefur þurft að bera þunga byrði á ævi sinni.

Ég hef séð hana nokkrum sinnum í gegnum árin – og reyndar tvisvar í þessari viku! Og alltaf leitar hugurinn aftur til þessa kvölds.

Þetta hefur líka fengið mig til að hugsa um það hvernig við komum fram hvert við annað, hvað fólk þarf að bera, hverju það þarf að taka á móti.

Hvers konar heimilisaðstæður ala af sér svona samskipti? Hvað þarf að gerast í sambandi foreldra og barna til að þau gargi á hvert annað: „Haltu kjafti!“ Hvað við getum gert, sem samfélag, til að styðja. Hvernig getum við mætt hvert öðru betur?

Hér er ein tillaga:

Við skulum reyna, á hverjum degi, að mæta fólki þannig að það gangi frá samfundum okkar með örlítið beinna bak. Minna kreppt. Með betri tilfinningu fyrir því hvers virði þau eru, reistari sem manneskjur. Þá geta þau mætt öllum hinum betur. Og gefið þeim meira af sér.

Smátt og smátt verður þá samfélagið okkar aðeins reistara, minna kreppt. Opnara og hlýrra. Og aðeins fallegra.

In

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.