Lúther á Sólon, Lúther í Bíó Paradís

Kjalarnessprófastsdæmi og Hið íslenska Lúthersfélag standa fyrir sýningu á kvikmyndinni Luther á mánudegi í dymbilviku. Myndin fylgir sögu siðbótarmannsins frá fyrrihluta 16. aldar þegar hann byrjar sem ungur munkur að hvetja til breytinga innan kirkjunnar, sem hann telur þrúgaða af efnishyggju og hræsni. Barátta hans átti eftir að hafa gríðarleg áhrif á mörgum sviðum menningar, trúar og stjórnmála.

Myndin færist mikið í fang þar sem hún gerir tilraun til að fylgja hraðri og átakamikill atburðarrás yfir langan tíma. Fjölmargir skrautlegir karakterar sem komu við sögu í hræringum siðbótartímans eru mættir til leiks, bæði af veraldlegum og geistlegum toga. Myndin er þó ekki síst þroskasaga Marteins Lúthers og sýnir innri og ytri baráttu fyrir sannfæringu sinni og persónulegri trú.

Áður en sýning hefst flytur sr. Kristín Þórunn Tómasdóttir héraðsprestur í Kjalarnessprófastsdæmi stutta innlýsingu um myndina og áhugaverð sjónarhorn á hana. Að sýningu lokinni leiðir dr. Gunnar Kristjánsson, prófastur, umræður um efni myndarinnar.

Myndin er sýnd í Bíó Paradís mánudaginn 18. apríl og hefst sýningin kl. 20.

Í tengslum við sýningu myndarinnar heldur Hið íslenska Lúthersfélag fund á Kaffi Sólon kl. 18. Þar mun formaður félagsins, dr. Sigurjón Árni Eyjólfsson, fara yfir starfsemi félagsins í stuttu máli og ritari félagsins, sr. Árni Svanur Daníelsson, ræða stöðu lúthersrannsókna á Íslandi við upphaf 21. aldar.

Að lokum verða umræður um framtíðarstarf Lúthersfélagsins og ræddar hugmyndir að undirbúningi fyrir siðbótarhátíðina miklu eftir 6 ár, en árið 2017 eru liðin 500 ár frá upphafi siðbótarinnar sem er miðað við er Marteinn Lúther negldi greinarnar 95 á dyr Hallarkirkjunnar í Wittenberg.

Allt áhugafólk um Martein Lúther og siðbótina er velkomið á meðan húsrúm leyfir.

In

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.