Gleðidagur 24: Vorboðinn ljúfi

Rhubarb

Rabarbari er vorboði. Hann er planta af súruætt og er stundum kallaður tröllasúra. Hann vex í mörgum garðinum og beðinu og bíður eftir að vera nýttur í góða og girnilega rétti.

Það er rauðleitur leggurinn sem er nýttur af plöntunni, t.d. í grauta og sultur, saft og vín og svo í bakstur. Hollustugildið er töluvert og er rabarbarinn talinn hafa góð áhrif á meltinguna og einnig vera góður gegn bólgum. Súra bragðið er oxalsýra sem vinnur gegn nýtingu kalks þegar í líkamann er komin. Því er ekki bara gott á bragðið heldur skynsamlegt að nota rjóma, mjólk og osta með rabarbaranum til að vega upp á móti sýrunni.

Við eigum eftirlætisrétt úr rabarbara sem er tilbrigði við hina frægu Pavlovu köku. Marensinn er til staðar, líka þeytti rjóminn, en í stað fersku ávaxtanna er sett rabarbara kompott. Hér er ágætis uppskrift af því:

Skerið 500 g af rabarbara í litla bita og sjóðið saman með 1 dl sykri og 2 msk vatni í 10 mínútur, eða þangað til rabarbarinn hefur mýkst. Hrærið saman í kompott og bragðbætið með smá vanillu. Kælið og skellið á herlegheitin!

Myndin er af rabarbara. Við fundum hana á flickr. Myndasmiðurinn heitir Whitney.

In

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.