Aðeins meira pollapönk

Aðeins meira pollapönk - útgáfutónleikar

Við vorum svo heppin að vinna miða á útgáfutónleika Aðeins meira pollapönks sem voru haldnir í Salnum í dag. Pollarnir eru í miklu uppáhaldi á heimilinu. Börnin kunna Meira pollapönk að mestu leyti utanað og syngja hástöfum með þegar 113 vælubíllinn og Pönkafinn eru spilaðir. Við vorum því spennt að heyra lögin af nýja disknum og sjá pollana á sviði.

Þeir stóðu fyllilega undir væntingum. Gleði og leikur skein af þeim – eins og myndin hér að ofan ber með sér. Nýju lögin eru grípandi og skemmtileg og bera með sér mikilvægan boðskap og fræðslu. T.d. inniheldur ferðalagalagið Ættarmót snilldar upptalningu á helstu viðkomustöðum landans í sumarfríinu og eins víst að það geri staðina áhugaverðari í eyrum ungra ferðalanga og auðveldi þeim líka að festa staðarheitin í minni.

Aðeins meira pollapönk snertir á þjóðfélagsmálum eins og þeim félögum er svo vel lagið. Á síðustu plötu tóku þeir fordóma í nefið og hér syngja þeir um útrásarvíkingana sem sjóræningja samtímans sem ræna öllu sem þeir komast yfir í laginu Pönk á Polló.  Hinni viðkvæmu stöðu sem kemur upp í fjölskyldunni þegar litla barnið er lasið og pabbi eða mamma verða að taka sér frí úr vinnunni eru líka gerð skil í laginu Heima með veikt barn.

Sérstakt hrós frá strákarnir fyrir að vera algjörlega slakir gagnvart staðalmyndum af strákum og stelpum í orði og æði. Þeir eru fyndnir, frumlegir og frjóir og þiggja sjálfsmynd sína sem pollar ekki af því að tala stelpur niður eða afgreiða þær á banal hátt. Þetta er hreinlega eins og ferskur blær á þessum tímum kyngervistogstreitu sem ríður húsum hvert sem litið er. Mestu töffararnir eru líka í bleikum íþróttagöllum … ;-)

Myndir frá tónleikunum.

In

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.