Aukakirkjuþing um biskupskjör – bloggað í beinni

Ég er staddur á aukakirkjuþingi í Grensáskirkju. Til þess er boðað af því að kjörstjórn við biskupskjör telur að breyta þurfi nýjum starfsreglum um biskupskjör vegna þess að ekki sé hægt að tryggja öryggi og fullkomna framkvæmd ef kosningar eru rafrænar.

Þingið stendur yfir í dag og tvö mál liggja fyrir því. Nú verður reynt að blogga þingið í beinni. Lesandinn athugi það við lesturinn.

Pétur Kr. Hafstein, forseti kirkjuþings, setur þingið. Í setningarræðu sinni segir hann frá að tvívegis hafi verið kosið til kirkjuþings rafrænt. „Í hvorugt skiptið voru bornar brigður á framkvæmd þeirra kosninga. Það segir hins vegar ekki alla söguna um öryggi og áreiðanleika rafrænna kosninga. Þrátt fyrir tækniframfarir og tölvubyltingar hafa rafrænar kosningar ekki verið teknar upp við kjör sveitastjórna, þjóðþinga eða þjóðhöfðingja.“

IMG_4989

Pétur segir að eðlilegt sé að um rafrænar kosningar gildi almenn löggjöf í landinu. Slíku er ekki til að dreifa hér á landi. Af því að enn er tími til stefnu er hægt að breyta þessum reglum og það er semsagt gert í dag.

Fyrir þinginu liggur einnig annað mál sem lýtur að því að kjósa nefnd til að endurskoða starfsreglur um biskupskjör. Þótt þær séu nýjar þarf að gefa ýmsum álitaefnum gaum, t.d. um tilhögun framboða og framkvæmd kosninga og hverjir eigi að hafa kosningarétt.

Pétur hefur áður sett fram þá skoðun sína að allt þjóðkirkjufólk eigi að hafa kosningarétt við kirkjuþings- og biskupskjör eða í það minnsta allir sem með einhverjum hætti koma að kirkjulegu starfi. Þjóðkirkjan er stærsta fjöldahreyfing í landinu og það skiptir marga miklu máli hverja bera ábyrgð og hafa áhrif – mun fleiri en nú eru á kjörskrá. Þetta reifaði Pétur á kirkjuþingum 2010 og 2011 og hefur m.a. sagt að ef þjóðkirkjan vilji vera þjóðkirkja verði hún að kalla miklu fleira fólk til ábyrgðar og ákvarðanatöku í kirkjunni, meðal annars með gerbreytingu á fyrirkomulagi kosninga til kirkjuþings og embættis biskupa.

Honum þykir ekki sem þessi málflutningur hafi hlotið mikla athygli á kirkjulegum vettvangi. Þó hefur aðeins örlað á þessum sjónarmiðum í aðdraganda biskupskjörs nú.

Pétur segir líka að nú séu átakatímar í þjóðkirkjunni. Fyrir standi margvíslegar breytingar á skipulagi kirkjunnar, m.a. með nýjum þjóðkirkjulögum. Þar kallar þjóðkirkjan eftir meiri ábyrgð.

Traust kirkjunnar hefur borið hnekki. Það er brýnasta verkefni hennar að endurheimta traust og trúnað og ná til þeirra sem hafa af einhverjum ástæðum ekki talið sig eiga samleið með henni. Það gerist ekki í einni hendingu eða með því einu að kjósa nýja biskupa. Hér verður allt kirkjunnar fólk að leggjast á eitt, ekki síst kirkjuþing, og leita allra leiða til að styrkja stöðu kirkjunnar og auka trúverðugleika hennar og heilindi.

Á þeim umbrotatímum sem eru framundan verða allir að leggja sitt af mörkumt til að auka samheldni og efla samstöðu. Pétur segir að skortur á samstöðu innan kirkjunnar eigi drjúgan þátt í því að traust hefur farið þverrandi. Sundurlyndi í kirkju sundrar henni.

Pétur ræðir líka um frumvarp til nýrra þjóðkirkjulaga, m.a. þá tillögu að prestar verði ekki lengur embættismenn ríkisins heldur embættismenn þjóðkirkjunnar. Hann lýsir fullri ábyrgð á þeirri tillögu á sínar hendur. Pétur segist sannfærður um að þetta muni framtíðin bera í skauti sínu eftir því sem hinni sjálfstæðu íslensku þjóðkirkju vex fiskur um hrygg. Hann telur þó að deilur um þetta verði að víkja fyrir því verkefni að ná samstöðu í kirkjunni sem hefur það að markmiði að endurheimta traust og trúnað. Nú er þörf á slíku þegar stöðu kirkjunnar sem þjóðkirkju í stjórnarskránni er teflt í tvísýnu. Hann lagði því í gær fyrir milliþinganefndina að horfið verði frá þessu ráði við tillögugerð um ný þjóðkirkjulög. Þess í stað verði allt kapp lagt á að ná sem allra víðtækastri samstöðu um frumvarpið og leggja það fyrir kirkjuþing í haust til samþykktar og afgreiðslu á Alþingi á komandi vetri.

Pétur biður þess að farsæld og friður fylgi störfum og ákvörðunum þessa aukakirkjuþings.

*

Nokkrir nýir þingmenn taka sæti á þinginu. Nú er þinghlé meðan kjörbréfanefnd skoðar kjörbréf þeirra. Svo verður mælt fyrir þingmálunum.

*

Margrét Björnsdóttir er 1. varaforseti kirkjuþings. Hún tekur við fundarstjórn þar sem Pétur mælir fyrir fyrsta málinu sem liggur fyrir þinginu sem er tillaga að starfsreglum um breytingu á starfsreglum um kosningu biskups Íslands og vígslubiskupa.

Hann segir þingið vera í sérstakri stöðu. Dreift hefur verið ályktun kjörstjórnar um þær biskupskosningar sem nú fara í hönd. Kjörstjórnin setti fram veigamiklar efasemdir um rafrænar kosningar, nánar tiltekið að hægt væri að framkvæma þær þannig að ekki yrði gagnrýnt eftir á. Þetta skjal liggur ekki fyrir á vefnum, en ég set vísun á það þegar svo er.

Meginmálið virðist vera þetta: Ekki hefur fundist örugg útfærsla á rafrænum kosningum, ekki liggur fyrir löggjöf um þetta og ekki bein fordæmi um hvernig á að leysa úr álitamálum. Þótt kirkjuþing hafi tvívegis verið kosið rafrænt þá komu engin kæruefni upp í þeim kosningum og því er ekki hægt að horfa til þess.

Frá því kirkjuþing var kosið 2010 hefur Hæstiréttur ógilt kosningu til stjórnlagaþings. Þar skerpir Hæstiréttur á þeirri áherslu sem er lögð á rétta framkvæmd leynilegra kosninga og undirstrikar að slík framkvæmd sé forsenda fyrir lýðræðislegu þjóðskipulagi. Áhersla lögð á að kosning sé leynileg og að kjörseðill sé með engu móti rekjanlegur til kjósandans.

Pétur segir heillavænlegt að gera eins strangar kröfur til framkvæmda kosninga og kostur er á hverjum tíma. Hann hefur fundað með formanni kjörstjórnar og verkefnisstjóra UT á Biskupsstofu og það var niðurstaðan að ekki væri rétt að taka þá áhættu sem kann að vera samfara framkvæmd rafrænnar kosningar. Því var boðað til þessa aukakirkjuþings og lögð fyrir þingið tillaga um að breyta þessum starfsreglum.

Tillagan gengur út að breyta einni grein í starfsreglunum, 9. greininni, sem lýtur að rafrænum kosningum.

*

Þá hefst umræða um fyrsta málið. Dr. Sigurður Árni Þórðarson tekur fyrstur til máls. Þakkar Pétri Kr. hans hugsjónaræðu og hugsjónagetu. Hann lyftir fram mikilvægum hugmyndum í sínum ræðum – slíkir leiðtogar eru mikilvægir. Þakkar líka forsætisnefndinni fyrir þá djörfung og hugrekki að kalla okkur til þessa þings í dag. Engin álitaefni mega vera um þessar kosningar. Sigurður Árni vill ræðir orðalag í tillögunni sem þarf að vera skýrt svo að allir kjósi rétt.

Baldur Kristjánsson tekur næstur til máls. Þakkar Pétri fyrir góða og föðurlega ræðu hér í upphafi. Það er mikilvægt að við stöndum vel saman í kirkjunni. Hann hefði frekar viljað að við værum hér til að semja reglur um rafrænar kosningar og þykir þessi ótti ástæðulaus. Við eigum ekki að hoppa í fortíðina. Kosningarnar sem hafa verið dæmdar ógildar hafa einmitt ekki verið rafrænar. Þetta sparar peninga, umstang. Baldur gerði líka athugasemdir við orðalag.

Steindór M. Haraldsson tekur því næst til máls. Hann er sammála tillögunni.

Bjarni Grímsson tekur því næst til máls. Hann þakkar þeim sem hafa lagt í vinnu við tillöguna. Tekur undir með Baldri að hann væri frekar til í að vera hér að ræða reglur um rafrænar kosningar. Í vikunni lauk rafrænum kosningum til Stúdentaráðs. Þar voru engin vandræði. Spyr sig hvort kosning til kirkjuþings var lögleg fyrst þar var kosið rafrænt. Það bara hefur enginn kært þær. Þetta hefði mátt tryggja með tæknilegum útfærslum, innan ramma þeirra reglna sem eru nú í gildi. Bjarni telur þetta vera afturför því hér er farið aftur í pappírinn. Hann nefnir einnig atkvæðavægi. Það er ástæða til að ræða það, en hann ætlar ekki að gera það í dag.

Óskar Ingi Ingason er næstur. Biskupskjörið er þegar hafið. Hér eru tveir frambjóðendur á fundi sem fjallar um hvernig eigi að standa að kjörinu. Hann heldur að það hljóti að vera svo að ekki sé hægt að breyta reglum eftir að ferlið fer af stað. Frambjóðendur eru komnir fram og kjörskrá lögð fram. Því hlýtur að þurfa að byrja ferlið upp á nýtt.

Fleiri kvöddu sér ekki hljóðs. Pétur Kr. Hafstein tók þá til máls. Hann þakkaði fyrir umræðuna og þær athugasemdir sem komu fram. Tók undir með dr. Sigurði Árna varðandi orðalag 9. greinar að hafa mætti skýrara orðalag í 2 málsgrein. Hann svaraði Baldri og Bjarna og sagði þetta kirkjuþing fyrst og fremst kallað saman til að bregðast við ákveðnum vanda. Ekki er þar með sagt að þingið geti ekki sett starfsreglur um rafrænar kosningar. Sú nefnd sem lagt er til í 2. máli að endurskoði starfsreglur getur lagt slíkt til.

Pétur segir að þetta snúist því ekki um hvort hægt sé að hafa kosningar rafrænar eða ekki heldur um það hvernig þetta er útfært svo öruggt sé. Af máli hans má ráða að hann telji æskilegt að lög verði sett um rafrænar kosningar almennt í landinu. Pétur segir líka að ekkert sé ólögmætt við rafrænar kosningar sem slíkar og því er ekki hægt að vísa til þess að rafrænar kosningar til kirkjuþings 2006 og 2010 séu ólögmætar.

Hann svaraði Óskari Inga og benti á að það eina sem hefur gerst er að kjörskrá hefur verið lögð fram og frestir skv. starfsreglum eru þar með teknir að líða. Tekur undir að óeðlilegt er að gera breytingar á framkvæmd kosninga eftir að hún fer af stað. Hann gæti því ekki fallist á að breytingar væru gerðar á reglum um kosningarétt á þessu kirkjuþingi. Sjálf kosningin er ekki hafin. Hún hefst að loknum lögmætum undirbúningi og hann stendur nú yfir. Markmið þessa kirkjuþings er að tryggja að framkvæmdin á kosningunum sé eins örugg og hægt er.

Málið er samþykkt samhljóða og vísað til síðari umræðu og löggjafarnefndar.

*

Vinnan heldur áfram. Næst á dagskrá er fyrri umræða um 2. mál þingsins, nefndarvinna og síðari umræða um bæði málin.

Kirkjuþing er haldið í Grensáskirkju í dag og það er öllum opið. Fréttir af þinginu verða fluttar á vefnum, á kirkjuthing.is. Þar verður líka hægt að hlusta á upptöku frá þinginu sem gefur innsýn í samtalið.

Ég læt þessari tilraun lokið að sinni.

Þess má geta að hér er bloggað með minimalískum tækjabúnaði, iPad og þráðlausu lyklaborði. Þetta er því tvenns konar tilraun: Annars vegar að blogga í beinni frá kirkjuþingi, hins vegar að blogga með smátækjum.

Viðbrögð og ábendingar eru vel þegin.

Væri þetta til dæmis áhugavert og gagnlegt á kirkjuþingi almennt?

8 responses

  1. Solveig Lára Avatar
    Solveig Lára

    Kærar þakkir fyrir þetta, Árni…þetta er mjög gagnlegt fyrir okkur sem ekki gátum setið þingið….

  2. Alveg sjálfsagt. Ég gat því miður ekki setið þingið allt, en vona að þetta komi að gagni.

  3. Carlos Avatar
    Carlos

    Áhugavert. Gott að fá innsýn í umræðuna. Gott að fá aths. Óskar Inga upp á borðið. skil ekki alveg af hverju þeir kirkjuþingsfulltrúar sem þegar hafa stigið fram, koma nú að afgreiðslu kosningalaga.

  4. Ég geri ráð fyrir að þeir þingfulltrúar sem um ræðir, Sigurður Árni og Ingileif eiginkona Þórhalls, hafi verið í sambandi við Pétur kirkjuþingsforseta fyrir þingið til að kanna hvort þau væru vanhæf eða ekki. Mér er ekki kunnugt um það hvort þau sátu hjá við afgreiðslu málsins. Kristján Valur, sem líka hefur gefið kost á sér, hefur ekki atkvæðisrétt á kirkjuþingi.

  5. Carlos Avatar
    Carlos

    Ertu nokkuð til í að spyrja þau? Eins og málið stendur, er þetta ekki alveg kósher.

  6. Ég skal spyrja þau sem ég hitti, en held við megum líka halda því til haga að forseti kirkjuþings hefði væntanlega gert athugasemd við þetta á laugardaginn var ef það væri ekki kósher.

    Annars kom mér á óvart að þrír frambjóðendur skyldu ekki vera á staðnum á laugardaginn var. Svona til að hitta kirkjuþingsfólkið sem kemur frá öllu landinu.

  7. Ég bætti við í færsluna vísun á ræðu forseta sem er birt á Trú.is. http://tru.is/pistlar/2012/2/nu-er-thorf-fyrir-einingu-og-samhug

  8. Sigurður Árni Þórðarson Avatar
    Sigurður Árni Þórðarson

    Carlos Ferrer spyr um setu mína og reyndar fleiri. Takk Carlos. Mér var og er í mun að mál séu í réttum farvegi. Ég sendi forseta kirkjuþings strax fyrirspurn um setu mína og hann svaraði að þingið fjallaði um form kosninga og úrskurðaði að engin fyrirstaða væri með setu mína á þinginu eða málfrelsi. Því tók ég glaður þátt í aukakirkjuþingi. kv sá

Skildu eftir svar við Solveig Lára Hætta við svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.