Biskupsefni kynna sig – bloggað í beinni

Nú er að hefjast kynningarfundur í Háteigskirkju sem markar upphaf formlegrar kynningar í biskupskjöri. Átta biskupsefni eru komin til að svara spurningum um sýn sína á kirkjuna, erindi hennar og skipulag. Ævar Kjartansson, guðfræðingar og útvarpsmaður, er fundarstjóri. Spyrjendur eru Bjarni Kr. Grímsson, sóknarnefndarformaður og kirkjuþingsmaður, Gunnar Kristjánsson, prófastur, og Magnea Sverrisdóttir, djákni.

Fundurinn er tekinn upp á myndband og verður svo settur á netið. Við ætlum að reyna að blogga í beinni.

Kynning

Örn Bárður Jónsson

Hann gleðst yfir því að vera hér. Hér er farið í gegnum spurningar sem varða kirkjuna og umræðan er holl fyrir samfélag kirkjunnar. Fagnar skrefi í átt til aukins lýðræðis. Hann hefur verið virkur í kirkjustarfi í 40 ár. Ætlaði að verða endurskoðandi, en fann sig kallaðan í trú, til kirkjustarfs. Kristin trú og menning og kirkjan burðarásar lífsins. Hefur helgað sig kirkju og kristni frá 1976, sem leikmaður, djákni, aðstoðarprestur, sóknarprestur, fræðslustjóri og fleira. Ævintýri lífsins.

Agnes M. Sigurðardóttir

Hún þakkar fyrir að vera hér og þakkar fundarmönnum. Sóknarprestur í Bolungarvík og prófastur á Vestfjörðum. Ólst upp á prestsheimili, í sveitakirkjunni þar sem heimilið var líka kirkja. Ákvað 17 ára gömul að verða prestur. Hefur brennandi áhuga á líðan fólks, prestsfjölskyldna, prestsbarna. Býður sig fram vegna reynslu af kirkjustarfi sem sérþjónustuprestur, sóknarprestur, prófastur. Dýrmæt reynsla sem kemur kirkjunni að gagni. Býður sig líka fram vegna þess að hún er kona og vill að kona taki við sem biskup Íslands og býður sig fram til að kirkjan eigi meiri möguleika á því að kona verði biskup Íslands.

Þórir Jökull Þorsteinsson

Glaður að vera hér, sem hluti af þessum myndarlega hópi. Kristin kirkja og trú hefur lengi verið nær sjálfsagður þáttur í þjóðfélagsvefnaði landsins. Við þann þátt eru sett mörg og stór spurningamerki sem bregðast þarf við. Hann ólst upp á kirkjustað. Álítur að hann hafi alltaf verið trúhneigður, en trúin vaxið og þroskast á uppvaxtarárum. Vonast til að þetta kjör verði kirkjunni til blómgunar og að við getum öll glaðst að því afstöðnu og sameinast um þann sem valinn verður.

Sigríður Guðmarsdóttir

Hún er 47 ára, alin upp á Seltjarnarnesi. Hefur tekið þátt í kirkjustarfi frá unga aldri, sunnudagaskóla, kfuk, í námi og lífsstarfi sem prestur. Hefur verið sóknarprestur á Íslandi í rúmlega 20 ár og einnig starfað í Bandaríkjunum. Hefur tekið þátt í að byggja upp kirkjustarf frá grunni í nýju hverfi. Er hrifin af frumkvöðlastarfi. Lauk doktorsprófi frá Drew university, skrifaði um hina dulrænu vídd. Það höfðar til hennar og hún lifir persónulegu bænalífi. Býður sig fram til sex ára.

Gunnar Sigurjónsson

Hefur verið prestur í sveit og bæ, er nú sóknarprestur í Digraneskirkju. Hefur brennandi áhuga á að kirkjan sé sterk og um allt land, hefur mikinn áhuga á kirkjulegu starfi, er áhugamaður um helgihald og messuna. Góð messusókn hjá honum. Hefur þýtt texta U2 og úr varð U2 messa. Vill að fólk fái að njóta sín og vill vel menntaða presta og sóknarnefndarfólk. Við tökum okkur öll til og séum frjálst kristið fólk. Baráttumál sín eru þau sömu og hann hefur tileinkað sér í safnaðarstarfi: Vill auka hjálparstarf kirkjunnar því þjóðkirkjan þarf að standa sína pligt og þjóna réttlætinu.

Sigurður Árni Þórðarson

Hvernig tjáir maður sögu sína með skilvirkum hætti? Saga Jesú er grunnsaga okkar allra. Hún endar ekki bara með krossi og dauða heldur er líf að baki og upprisa, von og gleði. 19 ára gamall var hann í Noregi við sumarstörf og fékk æxli og lenti á spítala, var skorinn. Í 3 vikur beið hann eftir niðurstöðu um líf eða dauða. Þá glímdi hann við stóru spurningarnar um Guð og tilgang og líf. Fékk lífsdóm. Naut glímunnar. Lífið er sterkara en dauðinn og sneri við blaði, lærði líffræði himins en ekki jarðar. Vatn lífsins. Hefur tekið þessa reynslu af von og gleði og vill bera hana inn í líf kirkjunnar.

Þórhallur Heimisson

Langþráð stund að vera hér. Sóknarprestur í Hafnarfirði. Fæddur og uppalinn í kirkjunni. 14 ára gamall vann hann við að sópa Skálholtsdómkirkju. Hefur komið víða við í kirkjulegu starfi. Útskrifaðist 1988 og vígðist til Langholtskirkju 1989. Starfað í Svíþjóð og verið í framhaldsnámi þar. Kennt trúarbragðafræði. Hefur haldið hjónanámskeið sem hafa notið mikilla vinsælda. Býður sig fram til að efla kirkjuna og endurreisa hana, efla traust, snúa vörn í sókn, vill vera með í að lyfta kirkju og endurreisa.

Kristján Valur Ingólfsson

Hefur verið í prestsþjónustu í 37 ár, byrjaði á Raufarhöfn. Verið sóknarprestur, háskólakennari, verkefnisstjóri á Biskupsstofu. Lærði af Sigurði Guðmundssyni sem hvatti hann til að vera prestur. Vill enn verða til gagns í kirkjunni og þess vegna er hann hér.

Ævar þakkar fyrir. Þau standa sig eins og veðhlaupahestar segir hann.

Tæknin stríddi mér fram að fundarhléi og því eru engar glósur fyrir fyrstu þrjár spurningarnar, en hér koma glósurnar fyrir síðari þrjár spurningarnar og lokaorð frambjóðendanna átta.

* * *

Bjarni K. Grímsson spyr fjórðu spurningarinnar. Mikið hefur verið fjallað um þjóðkirkjufyrirkomulagið og spurningin um það er borin fram nú.

Þórir Jökull:

Fagnaðarerindið er óháð þjóðerni, litarhætti. Halda mætti því fram að hugtakið þjóð væri útópískt. Við höfum tekið ákveðna kirkju í arf frá danska ríkinu. Ekekrt segir að ríkjandi skipulag tryggi það að fagnaðarerindið sé rétt eða eðlilega boðað eða nái þeirri útbreiðslu eða sáningu sem sæmir meðal landsmanna þessa lands. Það eru margar hliðar á þessu hugtakið, þjóðkirkja. Hann leggur til að við höldum okkur við þann grundvöll þjóðkirkjunnar sem hin eina heilaga kirkja sem ekki er verk mannanna.

Örn Bárður:

Við þurfum að spyrja okkur hvað er þjóðkirkja. Er hún meirihlutakirkja? Hin vinsæla kirkja? Hvenær hættir kirkjan okkar að vera þjóðkirkja? Ef áfram fækkar í kirkjunni, hættir hún þá að vera þjóðkirkja? Sigurjón Árni fjallar um þjóðkirkjuhugtakið í bókinni Ríki og kirkja. Kirkjan í A-Þýskalandi skilgreindi sig sem þjóðkirkju þótt ríkisvaldið væri fjandsamlegt henni. Tvær þjóðkirkjur í Finnlandi. Hann styður frjálsa kirkju sem þjónar öllum, kirkju sem er sterk af sjálfri sér. Opin og víð og skilningsrík, með breiðan faðm og stórt hjarta.

Sigríður:

Þessi spurning um þjóðkirkjufyrirkomulagið á sér ekki stað í sögulegu tómarúmi. Er brennandi núna vegna þjóðaratkvæðagreiðslu í júní. Finnst spurningin því svolítið villandi. Henni finnst mikilvægt að fólk fái að kjósa um kirkjuna í stjórnarskránni. Þjóðkirkjan er á leið til frekara sjálfstæðis og samtalið er mikilvægt. Við verðum að íhuga möguleikann að það verði ekki lengur stjórnarskrárbundið að kirkjuskipan ríkisins sé lúthersk. Halda spurningunni opinni og nálgast umræðuna óttalaust.

Gunnar:

Þjóðkirkjan lifir og hrærist í trúfrelsi. Kjósi samfélagið að halda fast í núverandi skipan mála er þjóðkirkjan til staðar. Kostir þjóðkirkjufyrirkomulags eru að þjóðkirkjunni er falið að varðveita siðinn sem er til grundvallar. Kristin gildi er samþætt þessum sið. Þar í felast borgaraleg réttindi s.s. jafnrétti og fleira. Þjóðkirkjunni er umfram önnur trúfélög ætlað að þjóna landsmönnum öllum. Henni er falið að annast um velferð landsmanna, veitir gjaldfrjálsa sálusorgun, stuðning og ráðgjöf í prestaköllum landsins. Starfrækir Hjálparstarf kirkjunnar, þar er ekki spurt um trúfélagsaðild. Gallar eru m.a. að skil milli ríkiskirkju og þjóðkirkju eru óljós. Og ríkisvaldið getur haft afgerandi áhrif á fjármál kirkjunnar.

Agnes:

Kirkjan er til vegna trúarinnar á Jesú Krist og ekki öfugt. Las bók sr. Sigurjóns Árna um Ríki og kirkju og tekur undir margt í þeirri bók og hvetur til lesturs á henni. Finnst skipta miklu máli að þjóðkirkjan starfar um allt land. Minnir á að söfnuðirnir eru mjög ólíkir. Byggir á grunni sveitakirkjunnar. Margt byrjar í Reykjavík og fer svo út um landið.

Þórhallur:

Við erum á merkilegum tímamótum í dag. Deilur og breytingar að undanförnu. Horft til framtíðar. Rætt um stjórnarskrárbreytingar. Spurningin er þá hvað okkur finnst um það. VIð höfum ekki tekið umræðuna í kirkjunni. Erum að hrökkva upp við það á elleftu stundu að við erum að fara að kjósa um þjóðkirkjuna. Höfum ekki verið nógu dugleg að ræða þetta. Við eigum að vera ófeimin og óhrædd við að taka umræðuna. Þjóðkirkjuskipulagið sem slíkt telur hann vera það besta sem við eigum kost á. Nær til allrar þjóðarinnar. Umburðarlynd þjóðkirkja er mikilvæg þegar eru átök í samfélaginu.

Kristján Valur:

Þjóðkirkjufyrirkomulagið er gott og hann vill ekki breyta því. En við þurfum að taka afstöðu til þess sem þjóðkirkja hvort við viljum ekki halda í það fyrirkomulag óháð því hvað er með sambandið við ríkið. Samfylgd þjóðar og kirkju hefur gengið vel og hann vill ekki glata henni. Finnst stundum svolítil yfirvigt í hugtakinu kirkja eða þjóðkirkja. Við ættum að setja meiri kraft í að tala um söfnuðina. Þjóðkirkjan er eins og safnaðarsamlag – fyrirkomulagið gefur söfnuðum mikið svigrúm til starfsins á hverjum stað. Innan rammans eigum við marga möguleika sem við eigum að nýta betur.

Sigurður Árni:

Í 62. grein stjórnarskrárinnar eru þættirnir sem varða ríki, þjóð og kirkju. Þar segir að ev. lúth, kirkja skuli vera þjóðkirkja á Íslandi, njóta stuðnings og verndar. Aðilarnir eru þrír: kirkja, þjóð og ríki sem styður og verndar. Honum þykir vænt um þessa grein og það er djúp í henni fólgið og í henni er ákveðið hugtak sem má kalla sáttmálshugtak. Greinin er sáttmáli og það er okkuð sem kemur út úr ævafornri hefð BIblíunnar. Kirkjan lifir í krafti Jesú Krists og miðlar elsku Guðs til mannanna. Þjóðin er samstarfsaðili og aðili að sáttmála og hér á ríkið að tryggja sinn hluta af sáttmálanum með réttlæti og ábyrgð og kirkjan sinnir sínu með því að miðla elsku og vera öflug kirkja í almannarými í þjónustu, kærleika og fræðslu. Við eiugm að virða sáttmálann, vernda greinina og vera öflug þjóðkirkja.

* * *

Magnea Sverrisdóttir djákni spyr næst um stöðu leikmanna í kirkjunni. Spurningin er: Hversu áhrifaríkir telur þú að leikmenn eigi að vera í stjórnskipun og almennu safnaðarstarfi.

Örn Bárður:

Kveikir á eigin tímamæli. Það er mikið þakkarefni hvað margir leikmenn starfa í kirkjunni. Við eigum að þakka þessu fólki. Vill ekki tefla saman leikum og lærðum. Lúther sagði að við værum öll skírð til að þjóna. Allir skírðir menn eru prestar, kardinálar og páfar. Allir þjóna Guði með starfi sínu. Barnið þjónar Guði með því að leika sér. Hann vill ekki klerkavaldskirkju og ekki heldur kirkju sem er alveg stýrt af leikmönnum. Frelsi boðunar þarf að vera grundvallandi. Frjálsa og öfluga kirkju.

Sigríður:

Vill bæta við Lúther: Finnst líka gaman að leika sér. Almennur prestsdómur er sérstakt einkenni á lútherskri kirkju. Það er okkar sjálfsmynd. Svo er vígð þjónusta. Hún er sett til að hjálpa öðrum að uppgötva sinn almenna prestsdóm. Þátttaka leikmanna er forsenda sjálfboðins starfs í kirkjunni og á að vera forsenda starfsmannastefnu kirkjunnar. Það vantar reyndar sjálfboðaliða alveg í þá stefnu. Við þurfum að endurskoða þá stefnu og auka valddreifingu og valdeflingu. Biskupskjörið dæmi um það. Takk leikmenn.

Gunnar:

Hann telur samband presta og sóknarnefnda eigi að vera eins og í góðu hjónabandi þar sem ríkir samstaða og jafnvægi. Geta komið upp ágreiningsmál, en stefnan er sú sama og þetta skiptir máli. Þjóðkirkjan mun í ríkari mæli þurfa á því að halda að efla sjálfboðið starf innan kirkjunnar. Við þurfum að fræða, uppörva og hvetja sóknarnefndirnar. Stjórnun Meira samráð er mikilvægt sem hefur opnari stjórnsýslu að markmiði.

Agnes:

Það er ljóst að ekkert starf getur farið fram í kirkjunni ef engir leikmenn eru. Við þurfum bæði vígða og óvígða í kirkjunni. Þúsundir syngja í kirkjukórum um allt land. Ef þeirra nyti ekki við væri umbúnaður messunnar fátæklegri. Fólk sem gefur kost á sér í störf meðhjálpara og sóknarnefnda er mikilvægt. Varðandi leikmenn á kirkjuþingi hefur hún áhyggjur. Þetta fólk gefur af tíma sínum, við þurfum að finna útfærslu sem gerir þeim kleyft að vinna sitt verk.

Þórhallur:

Ákvað að gefa kost á sér í biskupskjöri af því að hann vildi lyfta fram grasrótarkirkju. Þar bera leikmenn uppi starfið. Hann hefur farið um landið og heimsótt grasrótina, kjörmenn um allt land. Ótrúlegt hvað fólk leggur mikið á sig. Lítur svo á að þessar kosningar núna opinberi fyrir okkur hvað leikmenn geta gert. Óútreiknanlegar núna sem er lýðræðislegra. Draumurinn hans að í framtíðinni verði kirkjan enn lýðræðislegri. Fleiri þurfa að geta kosið til kirkjuþings.

Kristján Valur:

Þetta eru góðar spurningar. Nokkuð lengi hefur leikmönnum þótt klerkastéttin óþarflega fyrirferðarmikil og það er talað um prestakirkju sem andstæðu leikmannakirkju. En kirkjan er fyrst og fremst leikmannahreyfing. Hann hefur bara áhyggjur af einu: Hvernig eflum við leikmannahreyfinguna á staðnum þannig að leikmennirnir þar séu virkari, t.d. gagnvart setu í sóknarnefnd eða þátttöku á aðalsafnaðarfundum. Vill efla kirkjuna þar.

Sigurður Árni:

Hverjir eru leikmenn? Það eru hin skírðu. Hann hefur síðustu ár heillast af hugmyndinni um hinn almenna prestsdóm, um aukin áhrif og ábyrgð hinna skírðu. Fagnar mjög þessari spurningu og áherslunum sem hér hafa verið tjáðar um mikilvægi leikmannastarfsins. Við höfum séð mikilvæga þróun í löggjöf og starfsreglum sem varðar styrkingu á stöðu leikmanna. Það er hin lútherska kenning um hin skírðu. Sem biskup mun hann einbeita sér að því að styrkja leikmenn til þátttöku og virkni í kirkjunni. Í þátttökukirkju. Sóknirnar hafa verið að eflast, kirkjuþing að styrkjast, valddreifing er markmið og lækkaður stjórnunarpýramídi. Við eigum að njóta Biskupsstofu sem er þjónustumiðstöð sóknanna. Landsfundur sóknarnefnda. Kirkjan þarfnast visku fjöldans.

Þórir Jökull:

Hann minnir á að orðið leikmaður er oft ofnotað og er misvísandi. Í safnaðarlífi er maður sóknarbarn, hlustar á orðið og uppbyggist af því. Leitast við að vera hjálplegur. Hvað varðar stjórnsýslu er ekki óeðlilegt að s.ik. leikmenn hafi ítök þar. Af því að allir mæra leikmenn og sóknarbörn vill hann segja að þrátt fyrir að flestir Íslendingar séu skírðir erum við Íslendingar upp til hópa illa að okkur um kristna trú.

* * *

Gunnar Kristjánsson ber fram lokaspurninguna sem er um framtíðarsýn til ársins 2017.

Sigríður:

Hún vill sjá kirkju sem er í fararbroddi um mannréttindi og jafnrétti, sinnir samtali, sinnir hjálparstarfi, leggur mikla áherslu á samstarf og sérþjónustu. Hún vill sjá kirkju sem hefur á að skipa afburða starfsfólki í launaðri og ólaunaðri vinnu. Eining í margbreytileika. Styrkleiki hennar sé í sambandi við þjóðina frekar en formleg tengsl. Niðurstaða hennar er: kirkjan þarfnast alltaf siðbótar og getur alltaf gert betur. Gefur kost á sér að leiða kirkjuna framyfir siðbótarafmælið og nýta þá styrkleika til að takast á við áskoranir dagsins í dag.

Gunnar:

Hann vonar að hann verði lífs og enn þjónandi sem biskup Íslands. Við erum lúthersk kirkja, orð Guðs er okkar grunnur. Við þurfum að æfa okkur að efla Biblíulestur til 2017. Við ættum að lesa CA 28 við tækifæri. Hver og einn sem vill taka þátt fái til þess tækifæri. Duglegir æskulýðsleiðtogar fái traust okkar hinna. Kirkjan þarf að þora að gagnrýna ríkisvaldið og veita Alþingi stuðning til réttlátrar löggjafar. Símenntun sé forgangsmál. Fagmenntun presta og djákna sé virt.

Agnes:

Hún vill sjá kirkju sem man eftir því fyrst og fremst að boða trú á Jesú Krist í orði og verki. Traustið til hennar hafi aukist og þau sem hafa yfirgefið kirkjuna séu komi aftur eða hafi alvarlega íhugað það. Áhugasamt starfsfólk, kirkja sem nýtur stuðnings og hvatningar og fræðslu. Kirkju sem hefur miðlað upplýsingar um starfsemi sína á öllum þeim vettvangi sem er til í nútímanum þannig að fólk fái jákvæða mynd af kirkjunni. Kirkju sem gætir jafnræðis, fer eftir lögum og reglum. Kirkju sem hefur tekið á og til í stjórnsýslu. Kirkju sem fer eftir sínum stefnusamþykktum og ályktunum.

Þórhallur:

Vill varpa spurningunni til kjörmanna. Það er í höndum þeirra hver framtíð kirkjunnar verður. Þótt biskupinn sé enginn einveldisherra þá skiptir máli hver leiðir kirkjuna. Hvert viljum við stefna? Hvaða ákvörðun viljum við taka? Erum á tímamótum, höfum tapað trausti og fólki. Viljum við að það haldi áfram? Við svörum líklega öll „nei“. Við viljum sjá kirkju þar sem traustsrofið hefur gróið, þar sem hægt er að tala til þjóðar sem hefur líka átt í erfiðleikum. Kirkju sem getur komið til þjóðarinnar í sátt og umburðarlyndi og mætt öllum í kærleika, kirkju sem kemur inn í samfélagið og byggir upp traust samband við samfélagið með sterkan boðskap. Það skapar enginn biskup þetta einn heldur er þetta í höndum kjörmanna.

Kristján Valur:

Hann vonar að eftir fimm ár verði enn til öflug þjóðkirkja sem er samfélag lifandi kristindóms. Við eigum að nota tímann fram til 2017 til að fara yfir grundvallaratriði, svo við vitum betur en nú hvað það er að vera lúthersk kirkja, efla umræðu og guðfræði og sálmasöng og sýna betur hvað það er að tilheyra lútherskri kirkju. Ef við stöndum okkur vel í þessu þurfum við ekki að hafa áhyggjur af 2017. Gott tækifæri til endurmats.

Sigurður Árni:

Það er stórkostlegt að hafa siðbótarafmælið framundan. Tækifæri til að huga að því sem er grundvallandi. Ýmsar áskoranir sem blasa við og við þurfum að huga að því hvað það merkir að vera kirkja Jesú Krists í þessu stóra samhengi. Hans áherslur eru: Undanfarin ár hafa verið starfsfólki og kirkjufólki þungbær og erfið. Hann vill stunda græðarastarf á næstu misserum. Er teymismaður sem vill virkja krafta og visku fólks. Umhverfismál eru stórmál á næstu árum. Hann vill vera boðberi grænnar víddar. Finnst mikilvægt að karlar og konur vinnir saman og hæfleikar fólks séu samverkandi. Kirkjan þarf að koma með ábyrgum hætti í umræðu um samskipti trúarbragða. Starfs í þágu barna að forgangsatriði.

Þórir Jökull:

Vill sjá kirkju sem enn vinnur að því að finna sess sinn meðal þeirra sem þetta land byggja. Vill gjarnan sjá kirkju sem hefur breytt hugarfari sínu, kirkjan fái breitt betur út það sem hún stendur fyrir. Er umgengin á þeim nótum að hún fái að vera kirkja. Stundar ekki marhnútaveiðar sem hann kallar það að vera alltaf að ávinna sér prik hjá fólki sem ætlar sér ekkert að sækja kirkjuna. Vill matfiskkirkju en ekki marhnútakirkju.

Örn Bárður:

Vill sjá kirkjuna sem siðbætta siðbótarkirkju. Við erum að undirbúa þessi tímamót og vekja fólk til vitundar um það sem er eigind siðbótarinnar. Sér fyrir sér kirkju sem skýtur nýjum rótum, vill hugsa núna út frá því að safnaðarheimilin okkar nýtist til að opna leikskóla á kirkjulegum grunni, opna grunnskóla, fá námskeið um trúarheimspeki inn í framhaldsskóla. Mörg verkefni og við eigum líka að reisa elliheimili. Þjóna öllum aldurshópum. Fleiri rætur kirkjunnar.

* * *

Ævar dregur þetta saman í lokin. Hér hefur verið farið yfir efni sem voru fyrirfram ákveðin. Samkoman endar með einum hálfhringi í viðbót og leyfa áttmenningunum að flytja lokaorð.

Gunnar:

Hlutverk þjóðkirkjunnar er að greiða Jesú Kristi veg á meðal fólks. Það á að vera kirkjunni leiðarljós og öll störf hennar miði að því. Þar birtist hin eiginlega kirkja. Þjóðkirkjan er líka stofnun. Heilbrigð stjórnsýsla skiptir máli. Hann býður sig ekki fram vegna þess að hann telji sig betri en aðra heldur vegna þess trausts sem hann ber til fólksins sem hefur hvatt hann áfram í starfi sínu. Vill gera veg Krists sem mestan á meðal fólks.

Agnes:

Hún hefur verið spurð um skoðun á ýmsum málum, vill miðla einni skoðun í upphafi. Er prófastur og vill ræða prófastsdæmin. Hún vill ekki stækka og fækka prófastsdæmum. Vill hafa þau litlar og góðar starfseiningar. Kirkjan hefur orðið viðskila við almenning, en hlutverk hennar er fyrst og fremst að boða orðið. Fólk á að fá tilfinningu fyrir að Guðs orð virki í lífi okkar. Slæmt að kirkjan sé orðin viðskila við almenning og komin út í jaðar. Hún vill kirkjuna á miðjunni, mitt á meðal fólksins. Mynda sátt og fóstbræðralag og hefja okkur yfir deilumál og takast á við þau í sameiningu, horfa minna aftur og meira fram. Jesús Kristur er aðalatriðið í þessu öllu. Trúin blómstri og kirkjan og þar með samfélagið.

Þórhallur:

Erfiðir tímar að baki, uppgjör. Hraðar samfélagsbreytingar og breytt staða þjóðkirkjunnar. Erfiðir tímar í íslensku samfélagi. Fjárhagslegt, félagslegt, andlegt hrun. Kirkjuleiðtogar þurfa að tala til þjóðar og blása henni kraft í brjóst. Það fyrsta sem hann mun gera sem biskup er að prédika, um gleðina, kjarkinn og kærleikann. Um þann Guð sem hefur verið okkur Íslendingum athvarf.

Kristján Valur:

Maður er ekki oft glaður yfir því að hafa rangt fyrir sér. Finnst fyrirkomulagið á fundinum gott og vel heppnað. Finnst merkilegast að sitja í þessum góða félagsskap hér og heyra hvað þessi hópur er samstíga. Í öllum meginatriðum eru samskonar megináherslur fyrir kirkjuna. Gott að hafa svona marga frambjóðendur og þau átta eins og teymi hérna. Er þakklátur fyrir þessa umræðu sem mun skila kirkjunni miklu. Heldur að þetta sem við höfum heyrt núna styðji þá skoðun sína að það séum við öll sem

eigum að vera biskup.

Sigurður Árni:

Þessi hópur er svona samstíga og tökum kannski eitt ár hvert. Biskupagleðin fer rúntinn eins og Sumargleðin. Þetta er dásamlegt símenntunarnámskeið. Skrifaði bók sem er úttekt á síðustu öldum í trúarhugsun Íslendinga og það kemur í ljós að Íslendingar hafa verið að vinna með mörk og mæri og kreppur. Tveir kostir í öllum kreppum: Flýja eða glíma. Trúarhefð okkar segir: Glímið við kreppu og áföll og Hrun. Það eigum við að gera í samtíðinni, læra visku af formæðrum og forfeðrum og draga inn í samtíðina. Djúp mennskunnar og hins guðlega. Leyfa boðskap Jesú Krists að móta okkur. Er þakklátur fyrir þjóðkirkjuna og okkur öll. Vinnum vel að gleði og vexti þjóðkirkjunnar.

Þórir Jökull:

Biskupsembættið er í forgrunni í þessu samtali hér. Vill samt minna alla á að ev. lúth. kirkja er ekki biskupamiðuð. Sóknarprestar og prestar eru sem biskupar væru í söfnuðum sínum. En lúta þó tilsjón biskupsins. MIkilvægt að við séum með höndina á verkefnunum stöðugt. Landið er stórt og því þarf þrjú biskupsdæmi. Þórir minnir á grein í óútkomnu Kirkjuriti eftir sig og bækling sem liggur frammi um framboð hans.

Örn Bárður:

Fór með kristniboðsskipunina úr Matt 28. Það var lítill hópur sem hélt af stað með hvatningu Jesú en í dag er þetta stærsti trúhópur veraldar. Evrópa þarf að standa á sínum kristindómi því þar fjarar hann út hraðast. Við þurfum að standa okkur og sigra Ísland og getum það vel, fyrst litli hópurinn í Matteusarguðspjalli gat það.

SIgríður Guðmarsdóttir:

Vill deila tveimur myndum. Önnur er af Guðmundi góða sem vígði bjargið í Drangey en skildi eftir pláss fyrir hinn vonda. Fyrsti fjölhyggjubiskupinn. Önnur mynd af Helga Hjörvar eldri. Kona sem ferjaði hann yfir fljót. Ætlar ekki að keppa við frú Sólveigu en býður sig fram til að ferja kirkjuna yfir fljótið og er sannfærð um að við komumst öll yfir Heljardalsheiði.

* * *

Þau hafa staðið sig vel segir Ævar.

Gunnar Kristjánsson þakkar fyrir fundinn. Kandídatar hafa leitt okkur inn í sínar hugmyndir og hugsjónir og gefið sín svör, á heildina litið eru svörin góð og samþjöppuð. Vonandi verður það okkur til gagns því það er mikið í húfi. Lúther var fyrsti trúarleiðtoginn í sögunni sem lagði niður biskupsembættið. En hann stofnaði það líka að nýju og vígði biskup rétt áður en hann lést. Ströng dagskrá hjá kandídötum framundan. Eiga eftir að fara eins og Sumargleðin vítt og breitt um landið. Vonar til að fundirnir og kynningin verði til að efla umræðu um kirkjustarfið. Þá verður þetta kirkjunni til góðs, hver sem niðurstaðan verður.

 

 

In

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.