Kirkja í forystu – viðtal við Pétur Kr. Hafstein

Í dag var greint frá því að Pétur Kr. Hafstein, forseti kirkjuþings, ætlaði að láta af störfum sem forseti kirkjuþings og sem fulltrúi á kirkjuþings vegna heilsufarsbrests. Við höfum átt gott samstarf við Pétur á vettvangi kirkjunnar og sjáum nú á eftir kirkjuleiðtoga og góðum samstarfsmanni. Okkur langar í dag að rifja upp viðtal sem Árni tók við Pétur fyrir tveimur árum. Með því viljum við þakka fyrir samstarfið og lyfta fram hugmyndum Péturs um kirkjuþingið og þjóðkirkjuna.

* * *

Kirkja í forystu

„Ég held að öllum sé ljóst eftir þá atburði sem hafa orðið hér á undanförnum misserum að það er ekki aðeins viðskiptasiðferði heldur hvers konar siðferði í mannlegum samskiptum sem þarf að bæta og efla til þess að styrkja samfélagið okkar. Þar hefur þjóðkirkjan forystuhlutverki að gegna,“ segir Pétur Kr. Hafstein, forseti Kirkuþings, í viðtali við Víðförla.

„Það eru ekki aðeins hinir vígðu menn í guðsþjónustum kirkjunnar sem hafa það hlutverk heldur einnig kirkjuþingið í margvíslegum verkefnum. Vitaskuld hlýtur það alltaf að vera verkefni kirkjuþings að fjalla um stöðu þjóðkirkjunnar í samfélaginu. Kirkjuþinginu er ætlað að vera forystuafl í kirkjunni. Það kallar auðvitað á umfjöllun um stöðu þjóðkirkjunnar. Þjóðkirkjan hefur miklum skyldum að gegna og hún verður að vera ótvírætt forystuafl í trúarlífi Íslendinga og í því að bæta siðferði í þjóðfélaginu.“

Umræða um samfélagsmál

„Í nýjum þingsköpum kirkjuþings, sem voru samþykkt á síðasta þingi er ákvæði um að kirkjuþingið geti tekið til umræðu tiltekin brýn samfélagsmál, eftir tillögu frá einstökum þingfulltrúum, kirkjuráði eða forseta þingsins. Þetta hefur ekki áður verið í þingsköpum. Hér gefst nýr vettvangur til að efna til umræðu um brýn samfélagsmál þar sem þjóðkirkjan á að láta til sín taka og kirkjuþingið veita forystu um stefnumörkun í. Það verður fróðlegt að sjá hvernig þetta verður í framkvæmdinni.“

Sjálfstæðari kirkja

Frumvarp til nýrra þjóðkirkjulaga var lagt fram á kirkjuþingi 2008. Það var afgreitt á aukakirkjuþingi í nóvember 2008, en var ekki lagt fram á Alþingi. „Frumvarpið var samþykkt í nóvember 2008 og því beint til kirkjumálaráðherra að flytja það á Alþingi. Síðan urðu miklir atburðir í þjóðfélaginu og ríkisstjórnarskipti í byrjun febrúar 2009 en frumvarpið var ekki komið fram á Alþingi þegar til þess kom. Það var ákveðið að láta þetta bíða um sinn.

Mér finnst eðlilegt eins og nú er komið að frumvarpið verði tekið fyrir á nýkjörnu kirkjuþingi í haust og það fái umræðu þar að nýju og nýtt kirkjuþing geti þá tekið ákvörðun um þaðhvort það kýs að samþykkja það óbreytt eða vísa því í frekari vinnu. Ég lít svo á að þrátt fyrir þessa töf er það alls ekki þannig að menn hafi horfið frá megintilgangi frumvarpsins, sem var fyrst og fremst sá að færa aukið ákvörðunarvald til kirkjuþings.“

Sterkari þjóðkirkja og kirkjuþing

„Þjóðkirkjan nýtur mikils sjálfstæðis í störfum sínum og þetta frumvarp miðar að því að efla sjálfstæði kirkjunnar og kirkjuþingsins. Að gera kirkjuþingið að öflugri aðila innan kirkjunnar og að færa til þess ákvörðunarvald um margt af því sem nú er ákveðið í núgildandi þjóðkirkjulögum. Þannig að þjóðkirkjulögin verði miklu fremur rammalöggjöf sem kirkjuþinginu verði síðan falið að vinna úr. Þetta má segja að sé megintilgangur frumvarpsins og ég tel mikilvægt að stefna að því áfram að ná þessu fram. Ég tel að það muni styrkja þjóðkirkjuna og sérstaklega kirkjuþingið.“

In

One response

Skildu eftir svar við Árni Svanur Hætta við svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.