Menu

árni + kristín

hjón, foreldrar, prestar

Gleðidagur 1: Veislan

Páskadagur er fyrsti gleðidagurinn. Páskadagur er líka fyrsti veisludagurinn. Um allt land er boðið til kirkjuveislu. Við sólarupprás safnaðist fólk á Þingvöllum og þegar sólin gægðist yfir Kálfstindana í austri var sungið: „Kristur er upprisinn“. Svo var gengið til messu og að henni lokinni var boðið til morgunkaffis.

Morgunkaffið á Þingvöllum er samvinnuverkefni allra kirkjugesta. Það minnir okkur á að kirkjan er samvinnuverkefni okkar þar sem allir meðlimirnir skipta máli og hafa mikið fram að færa.

Morgunveislan í kirkjunni var fyrsta veisla dagsins. Svo hélt veislusamfélagið áfram. Páskaeggin voru opnuð og fjölskyldurnar mættust. Páskalambið var sett í ofninn og fékk að malla fram eftir degi.

Við erum þakklát fyrir páskaveislurnar, í kirkjum og á heimilum, sem minna okkur á lífsveisluna þar sem margir koma saman til að gleðjast. Við erum líka þakklát fyrir kirkjukaffið á Þingvöllum sem minnir okkur á að samfélagið okkar er samstarfsverkefni þar sem við þiggjum ekki bara heldur gefum líka.

Kristur er upprisinn. Kristur er sannarlega upprisinn.

Nú er veisla.

Skildu eftir svar