Gleðidagur 9: Forsetaterturnar í afmælisboðinu

Hnallþórur á veisluborði

Við héldum upp á afmælið hans Árna í gær. Þar var boðið upp á forsetatertur sem voru nefndar eftir 5 forsetum lýðveldisins, uppáhaldsforsetaframbjóðandanum okkar og sjálfstæðishetjunni Jóni Sigurðssyni. Sjö bragðgóðar og fallegar tertur, sem gátu myndað hugrenningatengsl við einhver einkenni viðkomandi þjóðhöfðingja.

Allt til gamans gert og án allrar græsku!

Sveinn

Sveinn Björnsson sem fyrsti forseti lýðveldisins fékk að vera marens með jarðarberjarjóma. Nýstofnað lýðveldið, dísætt og ljúft, með fögur fyrirheit.

Ásgeir

Ásgeir Ásgeirsson er skreyttur ananas hringjum, á forsetatíð hans fóru samgöngur til landsins á flug, sem auðveldaði flutning á dásemdar nýlenduvörum eins og niðursoðnum ananasi.

Kristján

Kristján Eldjárn er fornleifafræðingurinn, þess vegna er tertan hans soldið þjóðleg og sveitó – þýft landslagið undir rjómanum minna á grónar rústir og súkkulaðikúlurnar geta verið lambaspörð í náttúrunni.

Vigdís

Vigdís Finnbogadóttir fær soldið elegant tertu, hefðbundna og íburðarmikla af því að hún er bara lekker og flottur forseti.

Ólafur

Ólafur Ragnar Grímsson er líka vel skreyttur og má finna gullkúlur á tertunni hans sem minna á glys og glaum útrásaráranna.

Þóra

Þóra Arnórsdóttir bauð sig fram til forseta fyrr í mánuðinum og klæddist afskaplega fínni dragt í bláum lit. Tertan hennar fær því að skarta bláu skrauti.

Jón forseti

Jón Sigurðsson fékk þjóðleg blóm og íslenskan fána á sína tertu.

Á níunda gleðidegi gleðjumst við yfir forsetunum okkar og lýðveldinu Íslandi.

Bakararnir voru þrír, Kristín, Unnur Anna móðir hennar og Elín Sigrún vinkona okkar. Árni tók myndirnar.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.