Gleðidagur 11: Mið-Ísland í Þjóðleikhúsinu

Dóri DNA

Það fæst alveg sérstakt sjónarhorn á þjóðarsálina við að hlusta á uppistandskrakkana í Mið-Íslandi. Í kvöld sátum við í fullum sal þar sem Mið-Ísland steig á stóra svið Þjóðleikhússins og veltumst eiginlega um af hlátri.

Anna Svava, Bergur Ebbi, Halldór, Ari og Björn Bragi hafa hvert sinn stíl og nálgun á viðfangsefnið en ákveðin þemu gerðu vart við sig hjá þeim flestum. Ekki síst vangaveltur og speglun á það hvernig sé að vera Íslendingur og hvers vegna við erum eins og við erum.

Veðurfarið, stjórnmálin, tungumálið, barnagælur og trú komu við sögu. Eins og uppistöndurum er einum lagið, rýndu þau á alveg nýjan hátt í það sem er líklegast svo hversdagslegt í lífinu að við hugsum ekki nánar út í það. Í meðförum þeirra verður það óborganlega fyndið.

Það var sérlega skemmtilegt að halda upp á síðasta vetrardag og ellefta gleðidaginn með því að njóta hæfileika grínistanna í Mið-Íslandi.

Takk fyrir okkur.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.