Gleðidagur 19: Krúnudjásnið

Leifsgluggi í Southwark

Í sumar verður fagnað 60 ára setu Elísabetar drottningar sem þjóðhöfðingja breska heimsveldisins. Það verður mikið um dýrðir í tilfefni af þessu og við höfum heyrt að þúsund skipum verði siglt niður ána Thames. Í einu þeirra verður drottningin og þegar hún fer framhjá dómkirkjunum í borginni verður kirkjuklukkunum hringt.

Í Southwark dómkirkjunni (sem var sóknarkirkja William Shakespeare) verður af þessu tilefni settur upp nýr steindur gluggi sem Leifur Breiðfjörð gerði. Myndin hér að ofan er af þessum glugga. Glugginn heitir „From heaven to earth“ og sýnir á abstrakt hátt himneska birtu flæða yfir sköpunarverkið.

Við fengum að sjá gluggann á vinnustofu Leifs áður en hann var fluttur til London og þá sagði Leifur okkur að glugginn hefði gælunafnið Krúnudjásnið vegna þess að í honum eru svo margir fallegir glersteinar. Þeir sjást vel hér að ofan.

Á nítjánda gleðidegi fögnum við fallegu listaverkunum sem prýða kirkjur og helgidóma um veröld víða og listamönnunum sem hafa lagt líf og sál í að skapa þau.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.