Lectio Divina fyrir prédikarann

Við höfum verið að glugga í verk David Adam sem er viskubrunnur um kristna íhugunar- og bænahefð eins og hún hefur þróast í írskri og keltneskri trúarmenningu. Hann hefur meðal annars skrifað mikið fyrir presta og guðfræðinga um prédikunarvinnu í þessu ljósi.

Útgangspunkturinn í nálgun hans er að prédikunin á að koma frá hjartanu og í gegnum íhugun á Guðs orði. Ein leið til að nálgast lestur Biblíunnar er Lectio Divina sem er aðferðarfræði úr fornkirkjunni og byggir á því að orð Guðs fái að móta og snerta manneskjuna alla.

Samkvæmt þessari leið er markmið lestursins ekki bara að læra eitthvað um Guð heldur að læra að þekkja Guð. Það er forsendan fyrir því að við getum sem prédikarar talað um Guð við aðra.

Leiðin er þessi:

  1. Lestur (Lectio)
    Lestu textann upphátt og taktu þér tíma til þess. Lestu textann aftur í hljóði og leitaðu að því sem snertir þig á einhvern hátt. Leyfðu orðunum sem þú lest að snerta strengina í brjósti þínu. Þetta má endurtaka og hér má leita til skýringarrita og útlegginga annarra höfunda.
  2. Hugleiðing (Meditatio)
    Leyfðu orðunum að sökkva sér til botns í veru þinni. Leyfðu þeim að snerta hjarta þitt og huga. Vertu opin fyrir því sem Guð vill segja þér í gegnum textann, einstök orð og myndir. Hafðu í huga að þetta er Guðs orð og Guð snertir þig í gegnum þau. Hér notum við öll skynfærin til að taka á móti Guðs orði því við upplifum Guð í gegnum alla okkar heildrænu veru.
  3. Bæn (Oratio)
    Talaðu við Guð um textann og leyfðu Guði að tala við þig. Þegar þú getur, skaltu láta samtalið verða að bæn. Prédikun þín dýpkar og eflist í gegnum sambandið við Guð.
  4. Íhugun (Contemplatio)
    Lærðu að hvíla í nálægð Guðs. Notaðu textann og orðin í honum til að beina huganum þínum til Guðs og nálægðar ástar Guðs. Þegar hugurinn reikar, gríptu til orða sem hjálpa þér að stilla hugann á ný frammi fyrir Guði. Ef þú ert of upptekinn til að eiga tíma frammi fyrir Guði, ertu of upptekinn. Mundu að þú prédikar út frá Guðs orði, ekki þínum prívat skoðunum.

Þetta er ein leið til að nálgast prédikunina – og frábærar leiðbeiningar fyrir trúarlíf prestanna.

Gangi þér vel!

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.