Mörkin hennar Míu

princess

Síðustu daga höfum við enn á ný verið áþreifanlega minnt á ömurlegan veruleika barnaníðs og kynferðislegs ofbeldis sem þrífst m.a. fyrir sljóleika og sinnuleysi umhverfisins. Umfjöllun síðustu daga hefur varpað ljósi á hve samfélagið upplifðir sig ráðalaust og vanmáttugt þegar kynferðisofbeldi gegn börnum á sér stað, og bregst því ekki við sem skyldi. Ráðaleysið og skömmin býr til feluhjúp sem illvirkjar athafna sig á bak við.

Vitneskjan um barnaníð og útbreiðslu þess er orðin almennari og öruggari á ýmsan hátt. Sem betur fer hefur andrúmsloftið orðið þolendum ofbeldis skilningsríkara og allsgáðara, aukinn skilningur og eðlilegar varnir leiða vonandi til þess að hægt sé að fyrirbyggja barnaníð í sem flestum tilfellum.

Hluti af úrvinnslu samfélagsins og almennri vitundarvakningu um kynferðisbrotamál fer fram í listsköpun, svo sem bókmenntum og kvikmyndum. Óhætt er að segja að norræna senan hefur verið töluvert upptekin af þessum málaflokki síðustu ár. Ófáir skandinavískir krimmahöfundar hafa gert honum skil og margar gæðakvikmyndir, ekki síst frá Danmörku hafa varpað nístandi ljósi á veruleika barna sem níðst er á. Kvikmyndir eins og Veislan, Listin að gráta í kór, og Princess koma í hugann.

Við horfðum á dönsku kvikmyndinni Princess í gærkvöldi. Hún er frá árinu 2006 og er óvenjuleg að því leyti að hún er að stærstum hluta teiknuð. En þessi teiknimynd er ekki fyrir börn. Hún fjallar um Miu, sem er fimm ára og hefur þurft að þola markaleysi og ofbeldi af hálfu fullorðinna alla sína stuttu ævi. Móðir hennar er klámstjarnan The Princess, sem hefur malað gull fyrir gaurana sem hafa skapað heilan bransa í kringum líkama hennar.

Í upphafi myndarinnar fylgjumst við með bróður Prinsessunnar, sem er prestur, snúa heim frá framandi löndum, til að taka Míu að sér eftir að móðir hennar deyr. Bróðirinn, sem heitir August, ákveður síðan að hreinsa nafn systur sinnar með því að eyða öllu efni sem framleitt var með The Princess. Það gerist með tilheyrandi átökum og blóðsúthellingum.

Myndin er ljót og sorgleg. Hún er líka beitt áminning um hvað markaleysi og ofbeldi gerir börnum. Á ýktan hátt lætur myndin okkur íhuga hvað við myndum sjálf gera – eða hvort við myndum yfirleitt gera eitthvað?

Princess dregur athygli okkar að undirheimalífi klámsins og þeirri staðreynd að á bak við fígúrur eins og the Princess eru manneskjur eins og mamman Christine og dóttirin Mia. Misnotkun og valdbeiting eru ekki aðeins fylgifiskar klámiðnaðarins heldur grundvöllur hans.

Hvorutveggja ætti að uppræta – þótt við mælum ekki með aðferðum prestsins Augusts.

Mörkin hennar Míu eru mörk allra barna. Þau ber að virða.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.