Fiskimennirnir á skírdagskvöldi

Kræklingatínsla í Hvalfirði

Við heimsóttum gamlar slóðir með stórfjölskyldunni í gær. Keyrðum upp í Hvalfjörð, klædd stígvélum, með gúmmíhanska og nokkrar fötur. Þar gengum við út í fjöruna og tíndum við kræklinga í súpu. Svo tóku meistarakokkarnir í fjölskyldunni við, hreinsuðu og suðu og úr varð dásamleg kræklingasúpa sem var borin fram eftir að degi hallaði ásamt ýmiss konar fiskmeti.

Maginn fylltist af góðum mat og hugurinn af góðum hugmyndum eftir samtölin við fólkið sem skiptir okkur máli – fjölskylduna.

Hugurinn leitaði líka til skírdagskvöldsins fyrsta. Kvöldsins þegar Jesús sat með lærisveinum sínum, braut brauð og gaf þeim, blessaði vín og gaf þeim. Síðasta kvöldmáltíðin er orðið sem við notum um þessa athöfn. Síðasta kvöldmáltíðin sem varð líka sú fyrsta því við erum alltaf að endurupplifa hana í kirkjunni. Hún er síðfyrst.

Hvernig skyldi þeim annars hafa liðið þetta kvöld, fiskimönnunum sem Jesús hafði kallað til sín? Ætli þá hafi langað í fisk þegar þeir settust til máltíðar. Eða skipti það kannski ekki máli hvað var borðað af því að félagsskapurinn var góður? Er kvöldmáltíðin hans Jesú kannski líka brýning um að við megum aldrei gleyma því hversu mikils virði er að geta átt gott samfélag um þá mikilvægu iðju að neyta matar.

Myndin hér að ofan er tekin í fjörunni í Hvalfirði í gær. Ef rýnt er í hana má sjá iðna fjölskyldu að verki við kræklingatínslu.

In

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.