Hvað er að frétta af Kirkjuritinu?

Nokkrir mánuðir eru liðnir frá því Kirkjuritið kom síðast út. Það er því von að lesendur ritsins velti fyrir sér hvenær næsta tölublað komi út. Af því að við hjónin eigum lausa stund í dag datt mér í hug að taka stutt viðtal við Kristínu sem er einmitt hinn ritstjóri Kirkjuritsins um blaðið sem nú er í vinnslu.

Árni: Komdu sæl Kristín, hvað er nú að frétta af Kirkjuritinu?

Kristín: Vorhefti ársins er á síðustu metrunum. Við erum að klára að setja upp þemaumfjöllunina sem er að þessu sinni helguð konunum í leiðtogastöðum í kirkjunni. Það hefur verið sérlega skemmtilegt að vinna þann hluta, ekki síst að setjast niður með þremur brautryðjendum og fá þeirra sýn á stöðuna eins og hún var og eins og hún er og von þeirra fyrir framtíð kirkju og kristni á landinu.

Árni: Hvað fleira fáum við að sjá í ritinu?

Kristín: Ritið kemur núna út á mörkum föstu og páska og ritið birtir fjórar prédikanir eftir snjalla presta sem voru til í að spreyta sig á því að örprédika í Kirkjuritinu. Það kemur mjög skemmtilega út. Svo eru í ritinu pistlar um Guð og kaffibollann, stjórnarskrána, aðdraganda fermingar og sitthvað fleira. Ljóðskáld þessa heftis Kirkjuritsins er Andri Snær Magnason.

Árni: Hvenær er von á ritinu í póstkassa áskrifenda?

Kristín: Það fer í prentun í næstu viku og kemur væntanlega út viku síðar.

:)

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.