Gleðidagur 1: Hlæjandi börn

Glaðir leikfélagar á páskadegi í Háteigskirkju.
Glaðir leikfélagar á páskadegi í Háteigskirkju.

Við fórum í kirkju í morgun og nutum þess að heyra góða kórinn í Háteigskirkju syngja og organistann leika falleg tónverk og hlusta á Tómas, pabba Kristínar og afa barnanna, flytja sína síðustu páskaprédikun sem sóknarprestur í Háteigskirkju. Þetta var góð messa og hún miðlaði páskaboðskapnum vel.

Ekkert miðlar upprisugleðinni betur en barnshlátur og barnaleikur.

Það var samt ekki kórinn, organistinn eða presturinn sem miðlaði innilegustu páskagleðinni í kirkjunni í morgun. Það voru litlu börnin tvö sem gerðu það. Þau höfðu aldrei hist áður, en urðu vinir á örskotsstundu og gleymdu sér í leik og og skemmtu sér svo vel að það ískraði í þeim af hlátri.

Kórinn, organistinn og presturinn stóðu sig ágætlega. En ekkert miðlar upprisugleðinni betur en barnshlátur og barnaleikur. Þannig er það bara. Kannski var það þess vegna sem Jesús sagði okkur að vera eins og börnin til að komast inn í himnaríki. Því hann vissi að í smábörnunum höfum við fyrirmynd að samfélagi án aðgreiningar og tortryggni og efa, samfélag í leik og gleði.

Á fyrsta gleðidegi viljum við þakka fyrir hlátur barnanna í kirkjunni.

Myndin hér að ofan er af leikfélögunum sem skemmtu sér svo vel í kirkjunni í morgun. Við vitum ekki hvað ungi maðurinn heitir, en vonum að okkur fyrirgefist að birta af af þessum gleðigjafa.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.