Gleðidagur 30: Óttalaus og í góðu formi

Ísafjörður

Á dögunum lásum við skemmtilega bloggfærslu um foreldra, börn og hreyfingu. Hún fjallar um að ala upp óttalaus börn í góðu formi. Höfundurinn er einn af ketilbjöllusnillingunum sem Árni hefur lært mikið af. Hann nefnir fernt sem má hafa til umhugsunar og er sérlega viðeigandi nú þegar sumarið er að ganga í garð með öllum sínum dásamlegu stundum útivið:

  1. Sýndu gott fordæmi. Krakkar fylgjast með foreldrum sínum og vilja gera eins. Ef þú hreyfir þig reglulega leiðir það til þess að krakkarnir vilja líka hreyfa sig. 
  2. Leikur er lærdómsleið. Það má gera ýmisskonar æfingar allan daginn, til dæmis armbeygjur eða hnébeygjur meðan hafragrauturinn sýður á morgnana eða þegar þú ferð út að ganga með hundinn.
  3. Leyfðu krökkunum að horfast í augu við eigin ótta um leið og þú horfist í augu við þinn. Við skulum passa okkur á að ofvernda börnin ekki – það er til dæmis allt í lagi að príla í trjám ;)
  4. Skemmtið ykkur saman. Við skulum leyfa börnunum að vera börn og freista þess að gleyma okkur í leiknum með þeim – verða aftur börn sjálf.

Þetta eru ágætar ábendingar sem minna okkur á að örlítið hnik getur haft mikil áhrif og aukið gleði og lífsgæði. Njótið þess að hreyfa ykkur í sumar! Á þrítugasta gleðidegi viljum við þakka fyrir sumarið og hlýjuna sem býður upp á svo mörg tækifæri til hreyfingar útivið.

Ps. Kíkið líka á bloggfærslunar hans Guðjóns hjá kettlebells.is um leik-fimi og það að vera fyrirmynd. Hann lumar á góðum ráðum.

Myndin með bloggfærslunni var tekin í sumarferðalag á Ísafirði fyrir nokkrum árum. Þá var heitt.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.