Hvað er til ráða þegar barnið horfir of mikið á sjónvarp?

Handritshöfundurinn Mark Valenti bloggaði um sjónvarpsáhorf barna fyrr í þessari viku. Í bloggfærslunni sinni kynnti hann aðferð sem má beita til að draga úr sjónvarpsglápi barna. Útgangspunkturinn er sá að foreldri segir barni sínu að það megi horfa eins mikið á sjónvarp og það vill. Sá böggull fylgir þó skammrifi að fyrir hvern þátt eða bíómynd þarf að leysa nokkur verkefni:

  1. Nefna persónurnar sem komu fyrir í sögunni.
  2. Segja frá því um hvað sagan fjallar.
  3. Nefna eftirminnileg lög sem voru í þætti eða mynd og jafnvel syngja hluta af þeim.
  4. Segja frá því hvernig sagan endaði.
  5. Segja frá því hvort það væri eitthvað sem barnið hefði gert öðruvísi ef það væri ein af aðalpersónunum?

Þessu má svara skriflega er barnið er nógu gamalt, annars í samtali foreldris og barns. Smátt og smátt venjast börnin á að horfa ekki gagnrýnislaust heldur rýna í það sem þau horfa á og íhuga sjónvarpsefnið. Úr þessu getur líka orðið ágætis samvera foreldris og barns.

Þegar börnin þurfa að gera þetta eftir hvern einasta þátt fá þau um leið ástæðu til að velja áhugaverða þætti sem þau nenna að hugsa um, eins og Valenti skrifar: „Þau munu ekki lengur nenna að horfa á þætti sem grípa þau ekki því þau vilja ekki þurfa að svara spurningum um slíka þætti.“

Þá er líka stigið skref í átt að því markmiði að kenna krökkunum að sjónvarpið er ekki miðill sem við eigum að meðtaka gagnrýnislaust heldur miðill sem er mest spennandi þegar við nálgumst hann á virkan hátt og og rýnum í það sem við horfum á.

Þetta er snjöll nálgun sem við hlökkum til að prófa með krökkunum okkar.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.