Fjörutíu góðir dagar með Guðjóni

Það kitlaði prestinn og guðfræðinginn í mér svolítið að taka þátt í fjörutíu daga átaki kettlebells.is. Jesús fastaði jú í fjörutíu daga og var freistað reglulega á þeim tíma. Fjörutíu dagarnir kallast líka á við visku fræðanna sem segja okkur að það taki þrjátíu daga að breyta vönum. Tíu til viðbótar nýtast svo til að festa nýja vana í sessi.

Lífsstílshnik

Fjörutíu daga átakið er samt engin fasta, en það gengur út lífsstílshnik. Þrjár reglur sem eru einfaldar, skýrar og krefjandi eru lagðar til grundvellar:

  1. Borðaðu þrjár máltíðir á dag, ekki minna og ekki meira. Í morgunmat eru mjólkurvörur og ávextir, í hádeginu sterkja og grænmeti, á kvöldin kjöt eða fiskur og grænmeti. Þú átt líka að borða hægt og þangað til þú verður saddur.
  2. Gakktu 10000 skref á dag. Það eru um það bil 8 kílómetrar.
  3. Gerðu liðleika- eða styrktaræfingar á hverjum degi, sem tekur 10-20 mínútur. Liðleikaæfingarnar miða að því að endurræsa líkamann. Styrktaræfingarnar eru uppbyggilegar ketilbjölluæfingar.

Svo var okkur uppálagt að halda matar- og hreyfingardagbók sem var skilað á hverjum degi til Gaua þjálfara. Hann hrósaði þegar vel var gert og benti á það sem betur mætti fara. Slík leiðsögn er mikilvæg og gagnleg og Gaui gerði þetta vel.

Það var líka í boði að vera með á æfingum hjá kettlebells.is. Ég tók þátt í morgunæfingum tvisvar í viku, inniæfingum með ketilbjöllur og eigin líkamsþyngd og útiæfingum þar sem gengum, hlupum, hoppuðum, skoppuðum og skriðum um ævintýralegt umhverfið í Mosfellsdalnum. Það var frábært.

Það var líka lærdómsríkt að taka þátt í þessum æfingum og varð mér innblástur. Útiæfingarnar hafa kennt mér að meta eigið umhverfi með öðrum hætti og sjá möguleika til fjölbreyttrar hreyfingar hvar sem ég er staddur.

Styrkjandi freistingar

Dagarnir fjörutíu eru freistingatími. Freistingar snúast alltaf um gildismat og lífssýn. Þegar við stöndum frammi fyrir freistingu getur tvennt gerst: Við stöndumst hana og styrkjumst í afstöðu okkar. Við föllum fyrir henni og afstaðan veikist, jafnvel svo mikið að við skiptum um skoðun. Ef vel tekst til byggja dagarnir fjörutíu þannig upp staðfestu og þrautseigju.

Á fertugasta og fyrsta degi er ég glaður og stoltur. Þetta tókst og það tókst vel. Þetta var líka skemmtilegt. Ég hef lært heilmikið um mig sjálfan og umhverfið. Hef lært á eigin matarvenjur, áttað mig á því hvað virkar og hvað ekki, hvar helstu freistingarnar eru að finna. Ég hef til dæmis uppgötvað hvað morgunhreyfing á vel við mig. Hún eykur orku og léttir lund. Mér finnst líka ágætt að borða sjaldnar og meira.

Sitthvað hefur breyst á dögunum fjörutíu. Ég sef betur en áður, er liðugri og styrkari og hef enn meiri ánægju af því að ganga á milli staða. Ég hef líka lést um nokkur kíló og kynnst nýjum og ónotuðum götum á beltinu mínu. Svo hef ég fengið innblástur inn í fjölskyldulífið og hugmyndir að góðum samverustundum með börnunum.

Fjörutíu dagarnir eru liðnir. Framundan eru aðrir fjörutíu og kannski munu þeir skera úr um hversu vel tókst til. Ég held áfram að ganga mín tíu þúsund skref, hreyfa mig á hverjum degi og borða skynsamlega.

Ég þakka fyrir mig og hlakka til komandi mánaða og næstu áskorana.

 

In

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.