Menu

árni + kristín

hjón, foreldrar, prestar

Einhverju kannski stolið, skömmum kirkjuna

Sigurvin Lárus Jónsson og Sunna Dóra Möller á Vísi:

Árni Björnsson þjóðháttafræðingur viðurkennir að „helsta röksemd fyrir heiðnu jólahaldi í desember er mánaðarnafnið” (1993:321), sem og sú staðreynd að fæðingarhátíð frelsarans tók á sig heitið jól á norðurlöndum.

Hvað vitum við annars um heiðin jól í desember? Sigurvin Lárus og Sunna Dóra bæta við:

Hverjar sem orðsifjar hugtaksins eru til forna er ljóst að heimildir okkar um forn-heiðna jólahátíð eru næsta engar. Við vitum ekki hvort slík hátíð var útbreidd, hvenær hún var haldin eða hvert inntak hennar var. Það sem við vitum er að orðsifjar hugtaksins jól tengjast fornu tímatali á norðurslóðum.

Það er semsagt ekki vitað hverju var stolið því hátíðin er ekki þekkt. En orðið er þekkt. Snýst þessi kristni-sem-stal-jólunum kannski bara um orðið „jól“ en ekki hátíðina sem slíka?

Er það ekki áhugavert í ljósi þess að kristnir menn á Íslandi hafa haldið jól á sama tíma og kristnir menn í útlöndum. Ekki nota útlendingarnir orðið jól um sína hátíð. Eru okkar jól þá stolin en þeirra ekki?

Sigurvin og Sunna komast að þessari niðurstöðu:

Fullyrðingar þess efnis að kristnir menn hafi stolið jólunum úr heiðnum sið eru áróður en ekki staðreyndir, eins og ítrekað er staðhæft í umræðunni.

Sammála.

Að lokum þetta: Ef einhverjum finnst úr lausu lofti gripið að segja að jólin séu kristin hátíð gildir það ekki síður um þá fullyrðingu að þau séu heiðin hátíð. Þegar upp er staðið eru jólin hátíð sem bera með sér þá merkingu sem við hvert og eitt leggjum í hana út frá lífi okkar og reynslu. Líf okkar, saga og reynsla er ólík, virðum það og eigum gleðileg jól.

Rammpólitísk kirkja I

Herdís Þorgeirsdóttir skoraði á kirkjuna í ræðu á aðventukvöldi í Áskirkju fyrr í mánuðinum. Hún sagði meðal annars:

Ég vona að kirkjan hiki ekki heldur stígi fram og umvefji það samfélag sem hún vill þjóna, sameini sína rödd þeirra sem enga hafa. Kærleikur og réttlæti eiga að ráða för en ekki bókstafur og blind lagahyggja.

Hún kallar eftir pólitískari kirkju sem tekur skýrari afstöðu í pólitískari málum. Í því samhengi horfir Herdís meðal annars til Frans páfa í Róm sem hefur talað með skýrri röddu þegar kemur að ýmsum réttlætismálum.

Þetta er ekki nýtt kall. Fyrir ári síðan fjallaði sr. Sigurvin Lárus Jónsson um pólitíska kirkju í prédikun. Þar sagði hann:

[Í] mínum huga er óhugsandi að vera ópólitískur prestur, þar sem boðskapur Jesú frá Nasaret er hápólitískur. Jesús krefur okkur um réttlátt samfélag og setur í öndvegi alla þá sem standa höllum fæti í samfélagi manna; sjúka, synduga, útlendinga, fátæka, hvern þann sem handhafar hins veraldlega valds telja utangarðs eða beita valdi.

Kannski má orða þetta þannig að kirkjan hljóti að vera pólítísk því hún fylgir Jesú sem lét sig varða um manneskjuna, aðstæður hennar og kjör. Það þýðir þó ekki að hún þurfi að vera flokkspólitísk.

Á næstu dögum ætlum við að rýna aðeins í þetta og skoða dæmi um mál sem kirkjunnar þjónar hafa rætt í prédikunum sínum.

Fylgist með.

Jólastjarna í glugga

Jólastjarnan í glugganum.

Jólastjarnan í glugganum boðar birtu og yl, rett eins og stjarnan í Betlehem forðum daga.

Hugvekja um börn í sögu og samtíð, flutt í þættinum Trú, menning og samfélag á Rás 1. Það er hægt að hlusta í Sarpinum.

Árni:

Við getum sagt þetta:

Jesús er sjálfa – hann er selfie Guðs.
Af því að Jesús – sem er Guð – birtir líka Guð.
Það er vegna Jesú sem við þekkjum Guð og getum séð Guð.

Hann er samt ekki snapp.
Sendur og birtist í stutta stund og hverfur svo
Hann er ekki instagrammmynd í lágskerpu.
Hann er ekki status á fésinu – þótt hann sé kallaður Orðið í Jóhannesarguðspjalli

Jólin fyrir byrjendur (og lengra komna), prédikun í hátíðarmessu á jóladegi í Laugarneskirkju, 25/12/2014.

Kristín:

Árið í ár var vont ár fyrir börn í heiminum, hörmulegar fréttir af fjöldamorðum í pakistönskum skóla í síðustu viku hnikkja bara á menningu þar sem börn eru ekki örugg. Börn og fjölskyldur þeirra hrekjast að heiman af mörgum ástæðum, einni þeirra kynnumst við í jólaguðspjallinu þar sem Jesúbarnið er á hrakningum í ókunnugri borg.

Vonin á flóttamannsveginum, prédikun við aftansöng í Laugarneskirkju, 24/12/2014.

Jólaprédikanirnar í ár

Um allt land hafa prestar stigið upp í stól og lagt út af jólaguðspjallinu. Margar af þessum prédikunum hafa líka birst á vefnum. Hér eur nokkrar.

Aðfangadagur jóla

Jóladagur

Annar jóladagur

Herra Jólaefi og fröken Fullkomnunarárátta

Okkur hjónunum var boðið að skrifa jólahugvekju á Bleikt.is. Úr varð saga af hr. Jólaefa og frk. Fullkomnunaráráttu sem líka fjallar um hin fyrstu jól:

Þetta voru jólin þegar jólagestirnir voru ekki prúðbúnir fjölskylduvinir og ættingar heldur dasaðir hirðar sem komu beint úr haganum eftir langan vinnudag og þrír sveittir vitringar sem höfðu ferðast langan veg á úlföldunum sínum.

Trúin á tjaldinu – jólahefti Kirkjuritsins 2014

Kirkjuritið, jól 2014

Trúin á tjaldinu er þema jólatölublaðs Kirkjuritsins.

Kirkjuritið er komið út. Að þessu sinni beinum við kastljósinu að trúnni á hvíta tjaldinu og fjöllum um verðlaunamyndir, Jesúmyndir og myndir sem hafa áhrif á áhorfandann. Við birtum einnig nokkrar greinar í ritinu, eina uppskrift, jólaljóð og sitthvað fleira. Margar hendur vinna létt verk og það eru alltaf margir sem koma að útgáfu hvers tölublaðs Kirkjuritsins.

Okkur langar að þakka öllum sem lögðu okkur lið við útgáfuna. Við þökkum Gunnari J. Gunnarssyni, Arnfríði Guðmundsdóttur, Ásgrími Sverrissyni, Sigríði Pétursdóttur, Sigurði Árna Þórðarsyni, Ragnhildi Bjarkadóttur, Svavari Alfreð Jónssyni, Sigríði Gunnarsdóttur, Sigfinni Þorleifssyni, Haraldi Hreinssyni, Sigurjóni Árna Eyjólfssyni, Kristjáni B. Jónassyni, Steinunni Jóhannesdóttur, Gunnari Kristjánssyni, Hildi Eir Bolladóttur og Sindra Geir Óskarssyni. Þau lögðu öll efni til ritsins.

Við þökkum Guðnýju Hallgrímsdóttur, Jóni Ásgeiri Sigurvinssyni og Sigurjóni Árna Eyjólfssyni sem sitja í ritnefnd Kirkjuritsins. Jón Ásgeir fær sérstakar þakkir fyrir snarpan og vandaðan prófarkarlestur. Edda Möller er framkvæmdastjóri Kirkjuritsins, hún heldur utan um budduna og sér um praktísk mál. Það erum við mjög þakklát fyrir. Síðastur en ekki sístur er svo Brynjólfur Ólason. Hann hannaði ritið og setti það upp. Við þökkum honum fyrir að skapa svona fallega umgjörð utan um ritið okkar.

Höfundum, aðstandendum og lesendum öllum þökkum við gott samstarf á árinu sem er að líða og sendum okkar bestu óskir um gleðileg jól.

Kristín:

Ég held að við séum svolítið að sveiflast til baka frá því – af því að það þarf að vera jafnvægi á öllu. Við finnum að það getur verið gott að hvíla í því sem við getum gert með kroppnum okkar, höndum, fótum, augum og heyrum. Við finnum að Guð getur mótað okkur og haft áhrif á okkur í gegnum áþreifanlega hluti, hið heilaga mætir okkur í öðru fólki, í byggingum, í myndlist og tónlist. Allt sem lyftir andanum kennir okkur um hið heilaga og gerir okkur að þátttakanda í því.

Prédikun í Laugarneskirkju á fjórða sunnudegi í aðventu, 21. desember 2014.

Brynja á Laugavegi

Á aðventunni er dásamlega jólalegt við verzlunina Brynju á Laugavegi.

Viltu vera með samfélaginu okkar yfir jólin. Viltu styðja okkur í því að gera Ísland að kærleiksríku heimili fyrir alla sem þar eiga heima.  Amen.

Á aðventukvöldinu í Laugarneskirkju voru fermingarbörnin í einu af aðalhlutverkunum. Þau gengu inn í kirkjuna með kertaljós, klædd í hvíta kyrtla, sungu. Nokkur þeirra stigu líka fram og báðu fyrir hönd safnaðarins. Þetta er ein af bænunum þeirra og við gerum hana að okkar bæn í dag.