Lögmál rómantíkurinnar

Kaffisett handa rómantísku pari.

Við prestarnir tölum stundum um lögmál og fagnaðarerindi. Lögmálið er hvaðeina sem bendir á ófullkomnleikann í lífinu. Það er eins og kastljós sem lýsir í skúmaskot, bendir á ryk í horninu og kámug fingraför á rúðu og brauðmylsnu á borði. Segir: „Þetta er nú ekki nógu gott, ha, er það?“ Fagnaðarerindið er andstæða þess, yfirlýsing um að við séum elskuð eins og við erum og að ryk, fingraför og brauðmylsna séu ekki það sem mestu máli skiptir í lífinu.

*

Í dag er Valentínusardagur. Hann er innflytjandi á Íslandi, rómantískur hælisleitandi, sem kemur frá landi frelsis og ástar. Tilgangur dagsins að vekja gleði og tendra rómantíkina í lífi þeirra sem elska hvort annað.

Dagar eins og Valentínusardagur, bóndadagur og konudagur skipta máli í lífi hjóna og para. Líka brúðkaupsdagur, trúlofunardagur eða dagurinn þegar parið tók saman. Dagurinn þegar þau hittust fyrst, fóru á fyrsta stefnumótið, kysstust fyrst.

Það er nefnilega hverju sambandi mikilvægt að taka frá tíma fyrir parið sem par, lyfta sér aðeins upp og gera eitthvað saman. Það er einn af þeim góðu vönum sem stuðla að því að gera gott samband betra.

*

Um leið skiptir máli að rómantíkin í sambandinu og þessir rómantísku dagar verði ekki lögmálsdagar. Þá missa þeir nefnilega marks og snúast upp í andhverfu sína. Ef bóndadagurinn eða Valentínusardagurinn eða konudagurinn gleymist þá er það ekkert mál, við gerum okkur bara dagamun síðar.

Rómantíkin er nefnilega afstaða til lífsins. Hún á við alla daga, þótt samfélagið okkar hafi valið nokkra til að minna sérstaklega á hana. Það er lögmál rómantíkurinnar, sem er reyndar fagnaðarerindi.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.