Nói vekur spurningar

Nói í örkinni

Nói er mættur í bíó. Það er verðlaunaleikstjórinn Darren Aronofsky sem færir okkur kvikmyndina Nóa í samstarfi við hasarhetjuna Russel Crowe og fleira gott fólk að ógleymdu ævintýralandinu Íslandi. Nú er sagan sem við höfum heyrt um það bil eittþúsundsinnum í sunnudagaskólanum orðin að stórmynd á hvíta tjaldinu. Þetta er Biblíumynd. Hún er umdeild eins margar slíkar. Við höfum nefnilega skoðanir á biblíusögunum því þær skipta okkur máli.

Nærvera og fjarvera Guðs

Nói Aronofskys leiðir okkur inn í heim sem er í senn fullur af nærveru og fjarveru Guðs. Skaparinn er nærri í sögum, t.d. af Adam og Evu, í sýnum Nóa, í blessuninni sem streymir frá Metúsala afa Nóa, í anda sínum sem hreyfir laufin og í flóðinu sem dæmir. Vilji skaparans er líka viðfangsefni persónanna. Þau takast á um hvernig beri að skilja hann. Kvikmyndin um Nóa er í senn vitnisburður um trú og efa. Um trú þess sem reiðir sig á að hann sé að feta rétta leið þótt hann skilji ekki fyllilega hvað er í gangi. Hann áttar sig jafnvel ekki á samhenginu fyrr en eftir á. Um efa þess sem heyrir ekki rödd Guðs og undrast þögnina.

Ráðsmennska eða drottnun

Sköpunarsagan er fyrirferðarmikil í kvikmyndinni um Nóa. Hún er sögð, endursögð og túlkuð. Versin sem fjalla um það að manneskjan sé sköpuð í Guðs mynd og þó einkum um hlutverk manneskjunnar gagnvart sköpuninni (1M 1.26-28) gegna lykilhlutverki í myndinni. Þar segir meðal annars:

Þá sagði Guð: „Vér viljum gera manninn eftir vorri mynd, líkan oss. Hann skal drottna yfir fiskum sjávarins, fuglum loftsins, búfénu, villidýrunum og allri jörðinni og öllum skriðdýrum sem skríða á jörðinni.“

Ein átakalínan í myndinni snýst um skilninginn á þessu. Annars vegar að manneskjan sé kóróna sköpunarverksins sem megi nota það að vild, hins vegar að manneskjan eigi að þjóna sköpunarverkinu og varðveita það. Afkomendur Kains, frumburðar Adams og Evu, aðhyllast fyrri afstöðuna og vilja drottna. Afkomendur Sets, þriðja sonar Adams og Evu, aðhyllast þá síðari.

Í myndinni birtist þetta stef í því hvernig mannfólkið kemur fram við sköpunina, dýrin og hvert annað. Undirliggjandi er virðingin fyrir umhverfi og sköpun. Það hefur auðvitað beina skírskotun til samtímans og þeirrar umhverfisógnar sem við stöndum frammi fyrir.

Nói eða náttúrufræði

Nói er ekki raunsæiskvikmynd. Hún fjallar ekki um náttúrufræði frekar en Biblían. Það er réttara að líta á hana sem ævintýri. Sem slík stendur hún kannski og fellur með því hvort hún hrífur áhorfandann og kveikir áhuga hans. Hún vakti með mér fjölda spurninga og áhuga á að rifja upp sögurnar í upphafi Biblíunnar.

Hún minnir okkur líka á að við erum alltaf að túlka textana og vinna með ólíka sýn á þá.

Framvindan er nokkuð þétt og búningurinn áhugaverður. Russel Crowe er hasarhetjan og miðlar Nóa ágætlega. Hann er brotinn maður í brotnum heimi, en hann á sér von og það er von fyrir mannkyn og heim. Ætli það sé ekki mikilvægasti boðskapurinn og niðurstaða myndarinnar.

Þetta er enginn sunnudagaskólaNói. En það stóð líklega aldrei til.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.