Stafróf páskanna

Páskaskraut

A — Altarið er afskrýtt í sérstakri athöfn á skírdagskvöld eftir kvöldmáltíðina. Ljósin eru slökkt og gengið út í kyrrð.

Á — Áfengi er það sem hefð er fyrir að nota í altarisgöngunni þegar síðustu kvöldmáltíðarinnar er minnst. Venjulegast er að nota rauðvín eða styrkt vín eins og púrtvín.

B — Barabbas var dæmdur maður sem fólkið valdi í staðinn fyrir Jesú þegar Pílatus reyndi að fá Jesú lausan.

D — Dymbilvika er nafnið á vikunni sem hefst með Pálmasunnudegi. Hún er einnig kölluð kyrravika.

Ungi á íslensku páskaeggi.
Ungi á íslensku páskaeggi.

E — Egg tengjast páskahaldi órjúfanlegum böndum. Eggin tákna lífið sem kviknar á vorin og enginn vill láta páskaeggin fram hjá sér fara.

É — Él eru ekki óalgeng í íslenskum páskahretum.

F — Föstudagurinn langi er dagurinn sem Jesús var krossfestur.

G — Golgata var staðurinn sem kross Jesú var reistur og hann dó.

H — Hallgrímur Pétursson skrifaði Passíusálmana sem eru lesnir á hverjum degi föstunnar og fjalla um píslarsögu Krists.

I — Innreiðin í Jerúsalem átti sér stað á Pálmasunnudegi.

Í — Íkonar eru helgimyndir sem eru mikið notaðir tilbeiðslu í kristinni trúarhefð.

J — Jesús var hylltur á pálmasunnudegi, handtekinn í Getsemane á skírdagskvöldi, krossfestur, dó og var grafinn á föstudaginn langa.

Krossfesting Jesú. Málverk frá 16. öld eftir Peter Gertner.
Krossfesting Jesú. Málverk frá 16. öld eftir Peter Gertner.

K — Krossfesting var almenn aftökuaðferð í Rómaríki. Jesús var krossfestur ásamt tveimur öðrum dæmdum mönnum á föstudaginn langa.

L — Langafasta eru síðustu sjö vikurnar fyrir páska. Á sunnudögum föstunnar er ekki sunginn dýrðarsöngur og helgiklæði prestanna eru fjólublá.

M — Malkus hét þjónn æðsta prestsins sem Símon Pétur hjó eyrað af í Getsemane garðinum.

N — Náð þýðir að miskunn Guðs stendur manneskjunni til boða án endurgjalds. Dauði og upprisa Jesú ryður því úr vegi sem hindrar að miskunn Guðs nái til manneskjunnar.

O — Obláta er það sem er notað í altarisgöngunni og minnir á ósýrðu brauðin sem var neytt á páskahátíð Gyðinga.

Ó — Ó, þá náð að eiga Jesú eftir Matthías Jochumsson er einn ástsælasti sálmur Íslendinga.

Pálmagreinar.
Pálmagreinar.

P — Pálmasunnudagur er fyrsti dagur í dymbilviku. Páskahátíðin er upprisuhátíð kristinnar kirkju.

R — Rómverska heimsveldið náði m.a. yfir landið helga á tímum Jesú. Þess vegna ríktu þar rómversk lög sem var hrint í framkvæmd af rómverskum hermönnum.

S — Skírdagur er fimmtudagur í kyrruviku. Á skírdagskvöld hélt Jesú páskamáltíðina með vinum sínum, svo hélt hann út í Getsemanegarðinn þar sem hann var handtekinn og færður í fjötra.

T — Tómas hét lærisveinninn sem trúði ekki að Jesús hefði risið upp, fyrr en hann fengi að sjá sárin á höndu Jesú og snerta hann sjálfur.

U — Upprisu Jesú er minnst á páskunum. Upprisan táknar sigur lífsins yfir dauðanum.

Ú — Útivera og útivist er vaxandi þáttur í páskahaldi Íslendinga. T.d. með helgigöngum á milli kirkjustaða.

V — Vinir Jesú áttu með honum síðustu kvöldmáltíðina á skírdagskvöld.

X — X-laga krossar þekktust líka í Rómarríki. Postulinn Andrés á að hafa verið líflátinn á þannig krossi.

Y — Ytri forgarður musterisins var sá staður þangað sem venjulegt fólk mátti koma. Fortjaldið sem afmarkaði hið allra heilagasta rifnaði við dauða Jesú, samkvæmt guðspjöllunum.

Z — Zzzz … mörgum finnst gott að blunda í messu, undir langri prédikun prestsins. Lærisveinarnir gátu heldur ekki barist við svefninn og beðið með Jesú í Getsemane.

Þ — Þvottur er nátengdur við skírdag því þá þvoði Jesús fætur lærisveina sinna.

Æ — Æðstu prestarnir Annas og Kaífas yfirheyrðu Jesú um kenningar hans og starf áður en þeir sendu hann til Pílatusar.

Ö — Öskudagur er fyrsti dagur lönguföstu.

In