Gleðidagur 12: Fastað fyrir loftslagið

Grænt og vænt, blátt og smátt

Viltu fasta fyrir loftslagið í dag?

Loftslagsmál eru á dagskrá. Það rennur upp fyrir sífellt fleirum að við getum ekki skellt skollaeyrum við upplýsingum um afleiðingar hlýnunar loftslagsins. Við erum minnt á að manneskjurnar sem verða fyrir mestum áhrifum af þessu búa á svæðum sem eru nú þegar viðkvæm og undir miklu álagi. Við horfumst í augu við að hlýnun jarðar mun valda búsifjum á risamælikvarða.

Loftslagsmálin eru pólitísk því þau samfélag okkar sem byggja jörðina. Leiðtogar ríkja og þjóða bera þannig mikla ábyrgð á því að mótvægisaðgerðum sé hrint í framkvæmd. Til þess hafa þau aðgang að fjármagni, þekkingu og visku þjóðanna. Fyrsta skrefið hlýtur að felast í því að viðurkenna staðreyndir og axla ábyrgð á sameiginlegum vanda.

Það er líka þörf á almennri vitundarvakningu sem viðurkennir ábyrgð og hvetur til aðgerða. Kirkjur um allan heim hafa tekið þetta til sín og sett þessi málefni á dagskrá. Það er gert með sameiginlegum viðburði sem kallast „Fasta fyrir loftslagið“. Fasta sem á sér trúarlegar rætur miðar að því að bæta okkur sem einstaklinga og láta samfélagið njóta þess.

Fastan fyrir loftslagið fer þannig fram að fastað er á mat og drykk fyrsta daginn í hverjum mánuði, fram til desember á þessu ári. Þá kemur Loftslagsráðstefna Sameinuðu þjóðanna saman í Lima í Perú. Við getum fastað í samstöðu með fólki sem þjáist vegna loftslagsbreytinga. Við föstum í samstöðu með þeim fjölda fólks sem hefur misst heimili og afkomu vegna veðurhamfara tengdum hlýnun jarðar. Við föstum í minningu þeirra sem týna lífinu vegna hlýnunar jarðar.

„Fasta fyrir loftslagið“ er tækifæri til að setja málefni loftslagsbreytinga á dagskrá og láta gott af sér leiða. Við skulum leggja okkar af mörkum, pólitískt og persónulega á tólfta gleðidegi og svo áfram þann fyrsta hvers mánaðar fram í desember.

Gleðidagarnir eru fimmtíu og standa frá páskum til hvítasunnu. Einu sinni á dag deilum einhverju uppbyggilegu og þakkarverðu með lesendum bloggsins okkar.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.