Gleðidagur 22: Endurræsum kroppinn og kollinn

Ingimar Karl Helgason er ritstjóri vikublaðsins Reykjavík. Hann hafði samband við Árna um daginn og bauð honum að skrifa pistil í blað vikunnar. Það kom út í gær og við viljum gjarnan deila pistlinum með ykkur.

Endurræsing á gleðidögum

Heiðbjört Anna hjálpar okkur að endurræsa
Heiðbjört Anna hjálpar okkur að endurræsa.

Á dögunum las ég bók sem fjallaði um hreyfingu og líkamsrækt. Þar var sagt frá því að það er ekki bara nauðsynlegt að endurræsa tölvur, það þarf líka að endurræsa líkamann. Höfundar bókarinnar sögðu að með því að gera fjórar æfingar daglega mætti ná þessu markmiði. Við þurfum að:

  1. Rúlla okkur eins og ungabörn,
  2. Skríða eins og börn,
  3. Rugga okkur á fjórum fótum og
  4. krossa hné í olnboga.

Sé þetta gert daglega skilar það árangri, líkaminn endurnærist og endurræsist og rifjar aftur upp hvernig það var að hreyfa sig þegar við vorum pínuponsulítil.

Við þurfum að verða eins og börnin sögðu höfundar líkamsræktarbókarinnar. Eitthvað svipað er haft eftir Jesú Matteusarguðspjalli: „Nema þér snúið við og verðið eins og börn, komist þér aldrei í himnaríki.“ Kannski átti hann við að við þyrftum að hreyfa okkur eins og börn. Kannski var hann að tala um að endurræsa hjartað og hugannn. Slíkar æfingar gætu t.d. byggt á því hvernig börn nálgast annað fólk og umhverfið:

  1. Þau sýna traust,
  2. þau gefa af sér skilyrðislausa ást,
  3. þau hafa vonarríka afstöðu til lífsins,
  4. þau gefa mikið af því sem er ókeypis en getur breytt heiminum: Brosum.

Nú eru gleðidagar í kirkjunni. Það eru dagarnir fimmtíu frá páskum til hvítasunnu. Páskadagarnir fimmtíu einkennast af gleði, umhyggju og bjartsýni. Má ekki hugsa sér að nota þennan tíma til að endurræsa líkamann með því að hreyfa sig eins og barn og endurræsa hugann og hjartað með því að nálgast annað fólk og umhverfi okkar eins og börnin gera? Með því að brosa og mæta öðrum í umhyggju og hlýju, með því að sýna ást í verki, að treysta því að allt fari vel.

Ertu til í að endurræsa?

Gleðidagarnir eru fimmtíu og standa frá páskum til hvítasunnu. Einu sinni á dag deilum einhverju uppbyggilegu og þakkarverðu með lesendum bloggsins okkar.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.