Gleðidagur 44: Hvetja frekar en að skamma

Það er kúnst að hvetja aðra til að breyta hegðun sinni til betri vegar án þess að detta í það að skamma með fingur á lofti. Myndböndin #ruslíReykjavík þar sem borgarstjórinn okkar veltir vöngum yfir ruslinu í borginni eru gott dæmi um jákvæða hvatningu.

Hann er í hlutverki sögumanns sem er hugsi yfir draslinu á götunum. Í lok fyrsta myndbandsins má heyra hann hugsa með sér:

Ég veit ekki hvaða aðili er að henda drasli á götur Reykjavíkur en mig langar að komast að því og mig langar að fara til viðkomandi og segja við manneskjuna:

Ert þú að henda drasli?
Já.
Værirðu til í að hætta því?

Hér er höfðað til samvisku og myndugleika borgaranna og við hvött til að líta í eigin barm. Þannig getum við einmitt komið á breytingum sem eru til góðs.

Á fertugasta og fjórða gleðidegi viljum við þakka Jóni borgarstjóra fyrir árin hans fjögur í embætti borgarstjóra. Hann hefur verið ábyrgur, frumlegur og skapandi leiðtogi sem hvetur til góðra verka.

Gleðidagarnir eru fimmtíu og standa frá páskum til hvítasunnu. Einu sinni á dag deilum einhverju uppbyggilegu og þakkarverðu með lesendum bloggsins okkar.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.