Lífið getur verið erfitt

Morgunbæn á Rás 1, laugardaginn 24. janúar:

Góðan dag kæri hlustandi.

Ég vona að þú hafir hvílst vel í nótt og að svefninn hafi verið endurnærandi og góður.

Jesús er iðulega á göngu í guðspjöllunum. Hann er á leiðinni. Fer frá einum stað til annars. Hvað segir það okkur um líf hinna kristnu? Kannski að lífið sé ferðalag þar sem við erum stöðugt að reyna eitthvað. Jesús lifði heldur ekki auðveldu lífi. Um það vitna guðspjöllin. Til dæmis segir í Lúkasarguðspjalli:

„Þegar þeir voru á ferð á veginum, sagði maður nokkur við hann: Ég vil fylgja þér, hvert sem þú ferð.

Jesús sagði við hann: Refar eiga greni og fuglar himins hreiður, en Mannssonurinn á hvergi höfði sínu að að halla. Við annan sagði hann: Fylg þú mér!“
Þetta minnir okkur á að trúin er ekki plástur sem lætur okkur líða betur í allskonar aðstæðum. Hún deyfir okkur ekki eða lokar augum. Hún frekar eins og sár sem opnar augun og knýr okkur áfram í leit og þrá.
Eftir hverju?
Eftir Guði.

Mig langar að lesa fyrir þig úr einum af sálmum Davíðs. Hann geymir gott veganesti í langferð lífsins.

Drottinn er minn hirðir,
mig mun ekkert bresta.
Á grænum grundum lætur hann mig hvílast,
leiðir mig að vötnum þar sem ég má næðis njóta.
Hann hressir sál mína,
leiðir mig um rétta vegu
fyrir sakir nafns síns.
Þótt ég fari um dimman dal
óttast ég ekkert illt
því að þú ert hjá mér,
sproti þinn og stafur hugga mig.

Biðjum saman:

Elsku góði Guð, þennan morgun biðjum við um kraft til þeirra þreyttu, og mátt til þróttlausra. Hjálpaðu okkur að muna að vegur okkar er þér aldrei hulinn og að auglit umhyggju þinnar fylgir okkur hvert sem við förum. Leyfðu okkar að vona á þig og fá nýjan kraft svo við þreytumst ekki eða lýjumst.

Við skulum fara saman með bænina sem Jesús kenndi okkur:

Faðir vor, þú sem ert á himnum.
Helgist þitt nafn, til komi þitt ríki,
verði þinn vilji, svo á jörðu sem á himni.
Gef oss í dag vort daglegt brauð.
Fyrirgef oss vorar skuldir,
svo sem vér og fyrirgefum
vorum skuldunautum.
Og eigi leið þú oss í freistni,
heldur frelsa oss frá illu.
Því að þitt er ríkið, mátturinn og dýrðin
að eilífu.
Amen.

Nú höldum við út í daginn, megi æðruleysi, kjarkur og vit, leiðbeina þér í önnum og áskorunum.