Biblíublogg 2: Með hvaða gleraugum lesum við Biblíuna?

Biblían geymir sögu sem kristnir menn taka til sín með sérstökum hætti. Í henni heyrir kristið fólk Guð ávarpa sig. Það leitast því við að vera opið fyrir því sem Guð vill segja við lestur eða hlustun.

Sögunni sem Biblían geymir er miðlað á fjölbreyttan hátt því hún er hvorki einsleit í stíl né uppbyggingu. Ólíkt flestum öðrum bókum er Biblían ekki texti sem er lesinn frá upphafi til enda. Hún samanstendur af textum sem koma úr ólíkum áttum og urðu til á löngum tíma. Hver og einn kafli, hvert og eitt rit, er sjálfstætt verk þannig séð en aðferðafræði kristins fólks er að nálgast texta Biblíunnar í gegnum aðra texta hennar. Þannig er Biblían sjálf gleraugun sem við lesum hana með.

Þetta þýðir að við tökum Biblíuna ekki upp í leit að því sem Guð vill segja okkur og látum svo staðnæmast við það fyrsta sem við sjáum sem svar við knýjandi málum líðandi stundar. Þannig virkar það ekki. Ástæðan er sú að tengsl hins trúaða og Biblíunnar eru allt önnur, miklu dýpri og flóknari.