Kyndilsmessa og múrmeldýr

Kyndilmessa

Annar febrúar er kyndilmessa sem er í almanakinu okkar tengdur veðri og veðurspá. Frá Evrópu barst til Bandaríkjanna siður sem tengist íkornategundinni groundhog – er það ekki múrmeldýr? – sem gengur úr á að fylgjast með hegðun dýrsins þennan dag og spá um tíðarfarið út frá því.

Ef dýrið, sem heldur sig í holum neðanjarðar, skýtur upp kollinum og sér skuggann sinn, vegna þess að sólin skín á það, er það til merkis um að veturinn verði langur og vari 6 vikur enn. Ef enginn skuggi sést, má vænta vorkomu upp úr þessu.

Eins og gildir um allan almennilegan sannleik, er þessi bundinn í vísu sem er m.a. til í þessu formi á enskri tungu:

If Candle-mas Day is bright and clear,
There’ll be two winters in the year.
If Candle mas be fair and bright,
Winter has another flight.
If Candlemas brings clouds and rain,
Winter will not come again.

Þótt múrmeldýrið lifi ekki á Íslandi er þessi ratar þessi pæling líka í vísu, sem er til í þessari útgáfu:

Ef í heiði sólin sést
á sjálfa kyndilmessu
snjóa vænta máttu mest,
maður, upp frá þessu.

Kyndilmessan, sem vísað er til markar í kristinni hefð tímann sem hefði átt að líða þar til María móðir Jesú gat sýnt sig í musterinu, þar sem fjörutíu dagar voru liðnir frá því hún átti sveinbarnið sitt. Dagurinn markar í kirkjuárinu skilin á milli jólatímans og föstunnar, kristið fólk beinir sjónum sínum frá undrinu í Betlehem og yfir til átakanna í Jerúsalem sem enda í krossfestingunni á föstudaginn langa.

Í dag ætlum við að sjálfsögðu að horfa á kvikmyndina Groundhog Day með Bill Murray og íhuga boðskap hennar um endurtekninguna (hæ Sören Kierkegaard!). Svo má hugsa um það að ef Jesús hefði verið stúlkubarn, hefði kyndilmessan ekki verið fyrr en 14. mars. Er það ekki eitthvað?