Biblíublogg 17: Kona tapar peningum

Í fimmtánda kafla Lúkasarguðspjalls eru fléttaðar saman þrjár dæmisögur Jesú. Ein um týndan sauð, ein um týndan son og sú þriðja um konu sem týnir peningum. Hún er svona:

Eða kona sem á tíu drökmur og týnir einni drökmu, kveikir hún þá ekki á lampa, sópar húsið og leitar vandlega uns hún finnur hana? Og er hún hefur fundið hana kallar hún saman vinkonur sínar og grannkonur og segir: Samgleðjist mér því að ég hef fundið drökmuna sem ég týndi. Þannig segi ég yður að englar Guðs munu gleðjast yfir einum syndara sem bætir ráð sitt.“ Lk 15.8-10

Jesús notaði dæmisögur til að ná til áheyrenda sinna, miðla trúarboðskapnum og kveikja spurningar. Sögurnar eru þess eðlis að þær kalla á viðbrögð um leið og þær hvetja þann sem les eða hlustar til að hugsa um sig í samhengi sögunnar. Þannig er einn lykill að því að upplifa og meðtaka dæmisögurnar spurningar eins og: Hver er ég í þessari sögu? Hver er ég ekki?

Prófaðu að lesa nokkrar dæmisögur með þetta í huga og sjáðu hvaða áhrif það hefur á upplifunina.