Biblíublogg 27: Við getum ekki annað

Í dag verður haldið málþing í tilefni af sjötugsafmæli Gunnars Kristjánssonar prófasts á Reynivöllum í Kjós um framlag Gunnars í ræðu og riti á ólíkum sviðum kirkjulífs, menningar og samfélagsumræðu.

Eitt af því sem skoðað verður er prédikunarguðfræði Gunnars en hann er ekki bara mikilhæfur prédikari sjálfur heldur hefur hann skrifað og þýtt prédikunarfræði.

Í samtíma prédikunarfræðum er mikið horft á prédikarann sjálfan og hvernig hann eða hún miðlar trúarreynslunni. Í bókinni Á mælikvarða mannsins sem Gunnar þýddi, kemur fram að eldri áherslur litu á prédikunarþjónustuna sem þjónustu boðberans eða kallarans. Hlutverk boðberans er jú að flytja það sem honum er trúað fyrir, hvorki meira né minna, og láta sig síðan hverfa. Innihaldið skiptir hann engu máli, engu skiptir hvað hann sjálfur hugsar og honum má standa á sama um þýðingu þess sem honum er falið að flytja.

Samkvæmt prédikunarguðfræði sem byggir á mikilvægi einstaklingsins í miðlun fagnaðarerindisins, er því ekki þannig farið. Hliðstæðan við prédikarann eða prestinn er miklu fremur vitnið heldur en boðberinn, sbr. Post. 4.20 um fólkið sem tjáir sig um það sem það hefur sjálft séð og heyrt og getur ekki þagað yfir. „Við getum ekki annað en talað það sem við höfum séð og heyrt.“

Næstsíðasta biblíubloggið okkar rifjar því upp fordæmið sem við finnum í hinum fyrstu kristnu sem fóru með boðskapinn út í heiminn af því þau gátu ekki annað en talað það sem þau höfðu séð og heyrt.