Innkaupatangó á Klapparstíg

Mandólín á Rósenberg

Sviðið á Rósenberg við Klapparstíg er ekki stórt en í gær mættust þar tvær harmonikkur, tvær fiðlur, eitt klarinett, einn gítar og einn kontrabassi að viðbættum sjö hljóðfæraleikurum. Í einu lagi mátti jafnframt heyra leikið á greiðu. Þarna var hljómsveitin Mandólín mætt til að leika og syngja fyrir unnendur góðrar tónlistar.

Sigríður Ásta Árnadóttir hafði orð fyrir hópnum og tilkynnti tónleikagestum að nú yrði leikinn tangó sem kallaðist á við ástina, tunglið, rauða kjóla, reiða eiginmenn og afbrýðisamar eiginkonur. Tónleikagestir voru hvattir til að taka sporið ef þá lysti. Ungt par sem stóð á stéttinni utan við staðinn tók hljómsveitina á orðinu og steig dans við fagra tóna. Það magnaði bara upplifunina og gerði kvöldið eftirminnilegra.

Lögin komu úr ýmsum áttum, meðal annars var sungið á rúmensku, finnsku, jiddísku og þýsku að ógleymdu okkar ástkæra móðurmáli. Lögin fjölluðu um ást og nánd og fjarlægð og báru með sér nálægan og fjarlægan þokka. Eftirminnilegastur er líklega innkaupatangóinn sem gaf alveg nýja sýn á Nóatúnsverzlanirnar, franskbrauð og innkaupakerrur.

Þetta var eftirminnilegt kvöld og það er full ástæða til að þakka fyrir sig og smella læki á bandið á Facebook svo við sjáum örugglega hvar og hvenær þau spila næst.

In