Síðskeggjaður hipster vill fasta á ranglæti

Virðing er ekki nóg.

Þetta er merkilegur dagur.
Einn af dögunum þegar við ættum eiginlega ekki að prédika.
Bara láta textana tala.
Mig langar samt að segja þrjú orð:

  • Þú.
  • Þjóðin.
  • Þau.

Svo skal ég útskýra.

Unga fólkið í kirkjunni á slagorð: Við erum hendur Guðs til góðra verka.
Og fingur.
Og munnar.
Og fætur.

Hvað þýðir þetta?

Hvað sagði Jesaja?

Sú fasta sem mér líkar
er að leysa fjötra rangsleitninnar,
láta rakna bönd oksins,
gefa frjálsa hina hrjáðu
og sundurbrjóta sérhvert ok,
það er, að þú miðlir hinum hungruðu af brauði þínu,
hýsir bágstadda, hælislausa menn
og ef þú sérð klæðlausan mann, að þú klæðir hann
og firrist ekki þann sem er hold þitt og blóð.

Svo kemur framhaldið:

Nema auðvitað að hann sé útlendingur.
Eða flóttamaður.
Eða hælisleitandi.
Eða úr annarri borg.
Eða öðru hverfi.

Þá skaltu bara sýna honum dyrnar.
Skella í lás.

Var það ekki annars?

Nei.

Jesaja skrifaði:

Ef þú hættir allri undirokun þín á meðal,
hættir hæðnisbendingum og rógi,
réttir hungruðum það sem þig langar sjálfan í
og seður þann sem bágt á,
þá rennur ljós þitt upp í myrkrinu
og niðdimman kringum þig verður sem hábjartur dagur.

Og hann var alveg með þetta, síðskeggjaði hipstera-spámaðurinn í Mið-Austurlöndum.

Fólkið í strætó

Ég átti stutt samtal á netinu við einn kunningja í vikunni. Hann tekur strætó á morgnana og hefur gaman af að fylgjast með fólki og þennan morguninn sá hann nokkuð sem kom á óvart.
Fólkið í strætó var ekki með andlitin ofaní snjallsímunum sínum eins og þau eru alla jafna.

Hvers vegna?
Hvað hafði gerst?

Ikea-bæklingurinn var kominn.

Fólkið í strætó tók bæklinginn með sér og blaðaði í honum. Skoðaði myndir, stærðir, verð. Kannski til að fá hugmyndir eða innblástur, kannski til að láta sig dreyma.
Um hvað?
Betra líf með nýjum sófa?
Nýtt skipulag í eldhúsinu?
Mýkra rúm og litríkari rúmföt?
Ég veit það ekki.

En ég held að Ikea-bæklingurinn standi kannski fyrir það sama og matreiðslubækurnar og blöð eins og Hús og híbýli: Hugmyndina um eitthvað gott, betra líf sem við getum átt hlutdeild og kannski öðlast. Myndir og texti miðla því og kannski festir hugur og löngun sig við einhvern hlut sem gæti orðið okkar og þá verður allt.
Miklu.
Betra.

Og það er bara allt í lagi að langa.
Það er gott að láta sig dreyma.
Og svo söfnum við og látum draumana jafnvel rætast.

Draumarnir þeirra

Fólkið í flóttamannabúðunum í Calais lætur sig líka dreyma.
Fólkið í Sýrlandi lætur sig dreyma.
Fólkið sem fer á litlum flekum yfir Miðjarðarhafið lætur sig dreyma.
Um að lifa af.
Um betra líf.
Um eitthvað annað.
Þau eiga sér von og það er hún sem rekur þau áfram.
Það er jú enginn sem gerir það að gamni sínu að flýja land til að búa í flóttamannabúðum.

En hvað kemur það okkur við?

Ja, við erum hendur Guðs, til góðra verka.

Hvött og eiginlega kölluð til að gefa hinum hungruðu af brauði okkar, hýsa bágstadda, hælislausa menn og ef við sjáum klæðlausan mann, að við klæðum hann – eins og spámaðurinn skrifaði.

Það sama sagði Jesús þegar hann hvatti lærisveina sína.

En Útlendingastofnun?

Hvað er presturinn nú að spá?
Vill hann bara opna landið?
Veit hann betur en Útlendingastofnun?

Mér dettur ekki í hug að halda því fram að ég sé sérfræðingur í málefnum flóttafólks.
En ég veit til hvers við erum send.
Hvaða viðhorf Jesús hafði og hvaða viðhorfi hann kallaði eftir hjá fylgjendum sínum.
Til þeirra sem eru öðruvísi.
Til þeirra sem búa við skort.
Til þeirra sem þurfa.

Þetta má orða með öðrum hætti.
Farið ekki í manngreinarálit.
Sinnið fólki jafnt.
Gefið öllum tækifæri.
Ekki bara Íslendingum á Íslandi heldur öllu fólki sem þið getið haft áhrif á til góðs.

Það er ákall dags kærleiksþjónstunnar – og líka hinna 364-5 daganna á árinu.

Mig langaði að deila því með ykkur.