Vatnsflöskur og lófatak

Flóttafólk

Það eru sannarlega andstæður sem mæta okkur í íhugunarefni dagsins eins og þau birtast í biblíutextunum. Textinn í Davíðsálmunum lyftir okkur í hæstu hæðir og staðsetur okkur í himneskri fegurð og fullkomnu ástandi.

Lofa þú Drottin, sála mín,
og allt sem í mér er, hans heilaga nafn;
lofa þú Drottin, sála mín,
og gleym eigi neinum velgjörðum hans.

Allt önnur mynd mætir okkur í guðspjallinu, þar göngum við með Jesú inn í borgina og leiðin liggur fram hjá stað þar sem ótal manneskjur í neyð bíða eftir tækifæri til að verða heilar.

Það er eitthvað ofboðslega yfirþyrmandi og niðurdrepandi við þessar aðstæður, þar sem fólkinu hefur verið hrúgað saman í hjálparleysi sínu. Sumir hafa verið þarna svo árum saman, eins og maðurinn sem Jesú talar við – hann hafði verið þarna í 38 ár. Kannski var hann búinn að gefa upp alla von, á meðan fólk í kringum hann hafði jafnvel hlotið bata og komist úr þessum aðstæðum, hafði hann engan til að hjálpa sér og var þess vegna fastur á sama stað.

Þessi gamla saga í guðspjallinu á sér því miður hliðstæður í samtímanum. Í hugann koma myndir af fólki í flóttamannabúðum sem hefur verið hrúgað saman og býður þar hjálparlaust, jafnvel árum saman. Þótt flóttamannavandinn í heiminum hafi náð athygli okkar sem búum í Evrópu síðustu daga og vikur, þá er saga þeirra sem hrekjast frá heimilum sínum vegna stríðsátaka, hernáms, náttúruhamfara og efnahags, síður en svo ný.

Fólkið sem er núna að streyma frá Sýrlandi yfir til Evrópu og hefur svo rækilega náð að vekja athygli okkar á óbærilegum aðstæðum, er nefnilega ekki dæmigerðir flóttamenn eða stærsti hópurinn sem hefur lagt á flótta. Fólki er iðulega komið fyrir í flóttamannabúðum sem eru reistar nálægt löndunum sem það kemur frá og býður þar, þangað til aðstæður skapast fyrir það til að snúa aftur eða önnur lausn er fundin. Það felur venjulega í sér að í gegnum Flóttamannahjálp Sameinuðu þjóðanna er samið við yfirvöld annarra ríkja um að svo og svo margir flóttamenn fái að flytja til viðkomandi lands. Eins og gefur að skilja tekur þetta ferli langan tíma og það gengur hræðilega hægt að finna lausnir sem henta öllum og geta gefið fólki tækifæri á mannsæmandi og öruggu lífi.

Í umræðunni á Íslandi hefur fólk vitaskuld staldrað við möguleika og tækifæri flóttafólks til að aðlagast og verða virkir þátttakendur í samfélaginu, með réttindi og skyldur eins og aðrir þjóðfélagsþegnar. Það er auðvitað engin ástæða til annars en að ganga út frá því að slíkt muni ganga vel í allra flestum tilvikum, eins og áhrifamiklar sögur þeirra sem hafa áður komið hingað sem flóttamenn, frá Balkanskaga eða Víetnam, og eru núna frábærir nágrannar, vinir og samstarfsmenn, sýna.

Það er líka mikilvægt að hafa í huga þau atriði sem þurfa að vera til staðar til að þau sem hingað koma sem flóttamenn hafi raunverulega möguleika til að aðlagast svo þeim líði sem best og allir vinni! Hérna vil ég að við skoðum aftur söguna um Jesú og fólkið í súlnagöngunum, því hún segir heilmikið um hluti eins og hjálp og sjálfshjálp og hjálp til sjálfshjálpar.

Jafnvel í yfirþyrmandi og niðurdrepandi aðstæðum er von og vonin er fólgin í því að grípa inn í aðstæður, stöðva það sem rífur niður og setja nýja hluti í gang. Jafnvel þegar við höldum að við eigum það ekki í okkur að standa upp og ganga úr aðstæðum sem kreppa okkur og brjóta niður, er það hægt, ef okkur er mætt með kærleika sem er styðjandi en ekki meðvirkur.

Það er reyndar dásamlegt hvað Jesús er alveg laus við að vera meðvirkur þegar hann talar við sjúka manninn í súlnagöngunum – þennan sem hafði verið sjúkur í 38 ár og var búinn að gefa upp alla von, af því að það var alltaf einhver annar sem komst fram fyrir hann í röðinni. Jesús spyr hann spurningu þar sem svarið ætti í raun að vera augljóst – en hefur kannski ekki verið það. Viltu verða heill? spyr Jesús, þennan mann sem hefur legið í 38 ár bjargar- og hjálparlaus. Maðurinn svarar eiginlega til að afsaka sig eða skella skýringunni á aðra:

„Herra, ég hef engan til að láta mig í laugina þegar vatnið hrærist og meðan ég er á leiðinni fer annar ofan í á undan mér.“

Svarið sem Jesús gefur honum er hreint og beint og það breytir öllu í lífi mannsins:

Jesús segir við hann: „Statt upp, tak rekkju þína og gakk!“ Jafnskjótt varð maðurinn heill, tók rekkju sína og gekk.

Það sem við fáum að hugsa um út frá þessari sögu, er hverjar eru þær aðstæður sem við höfum kannski hangið í, í fullri trú á að aðstæðurnar séu einhverjum öðrum að kenna eða að við höfum í raun ekki tækifæri til að laga það sem er að. Það sem við fáum að hugsa um í þessari sögu er, hvað er það sem við þurfum að hugsa, segja og gera, til að geta risið upp og orðið gerendur í eigin lífi og gert hluti sem verða okkur sjálfum til góðs og öðrum til blessunar. Getur verið að Jesús sé að tala við okkur þegar hann spyr: Viltu verða heill – eða viltu verða heil? Stattu þá upp og haltu áfram.

Andstæðurnar í textum dagsins birtast líka í sögum flóttafólksins sem nú streymir í gegnum Evrópu. Í djúp-vonlausum aðstæðum glittir samt í eitthvað nýtt, þegar fólk stendur upp og gengur til móts við nýja möguleika og nýtt líf. Og stundum gerist hið ótrúlega – sem er auðvitað skilgreiningin á því hvað kraftaverk er – að fólk tekur höndum saman í kærleika, örlæti og gestrisni og reisir við þau sem hafa verið barin niður og sundurkramin. Súlnagöng dagsins er kannski að finna á brautarstöðvum Evrópu, þar sem kraftaverkin gerast.

Myndir frá aðalbrautarstöðinni í München í Bæjaralandi síðasta sólarhringinn þar sem íbúar taka á móti Sýrlensku flóttafólki sem kemur með lest frá Ungverjalandi eftir ótrúlegar hrakningar, með lófataki, söng, gjöfum, vatni og mat, taka okkur eins og textar dagsins í þessa löngu ferð frá himni til jarðar, frá því sem virðist óyfirstíganlegt og erfitt til nýrrar vonar og velgjörða Drottins, sem birtist í opnum faðmi og hlýjum hjörtum sem segja velkomin.

Viltu verða heill? spyr Jesús sjúka manninn. Alveg eins og maðurinn í sögunni, fáum við þessa spurningu og við getum svarað henni, já ég vil verða heil. Ég vil leggja mitt af mörkum til að ég sjálf og aðrir á þessari jörðu geti gengið uppréttir með þeirri virðingu og kærleika sem allir menn eiga rétt á. Ég vil taka á móti þér, sem kemur til mín í neyð, og segja velkomin, mæta þér í sameiginlegri mennsku sem upphefur menningu, trú, kyn, reynslu og stétt! Velkomin.

Dýrð sé Guði föður og syni og heilögum anda, svo sem var í upphafi er og verður um aldir alda.

Guðspjall

Guðspjallið er í Jóhannesarguðspjalli 5. kafla 1-15

Þessu næst var ein af hátíðum Gyðinga og Jesús fór upp til Jerúsalem. Við Sauðahliðið í Jerúsalem er laug sem kallast á hebresku Betesda. Þar eru fimm súlnagöng. Í þeim lá fjöldi sjúkra manna, blindra, haltra og lamaðra [sem biðu hræringar vatnsins. En engill Drottins fór öðru hverju niður í laugina og hrærði vatnið. Sá sem fyrstur fór ofan í eftir hræring vatnsins varð heill hvaða sjúkdómur sem þjáði hann.] Þarna var maður nokkur sem hafði verið sjúkur í þrjátíu og átta ár. Jesús sá hann þar sem hann lá og vissi að hann hafði lengi verið sjúkur. Hann segir við manninn: „Viltu verða heill?“
Hinn sjúki svaraði honum: „Herra, ég hef engan til að láta mig í laugina þegar vatnið hrærist og meðan ég er á leiðinni fer annar ofan í á undan mér.“
Jesús segir við hann: „Statt upp, tak rekkju þína og gakk!“ Jafnskjótt varð maðurinn heill, tók rekkju sína og gekk.
En þessi dagur var hvíldardagur og menn sögðu við hinn læknaða: „Í dag er hvíldardagur. Þú mátt ekki bera rekkjuna.“
Hann svaraði þeim: „Sá sem læknaði mig sagði við mig: Tak rekkju þína og gakk!“
Þeir spurðu hann: „Hver er sá maður sem sagði þér: Tak hana og gakk?“
En læknaði maðurinn vissi ekki hver hann var því að Jesús hafði leynst brott enda var þröng á staðnum.
Nokkru síðar hitti Jesús hann í helgidóminum og sagði við hann: „Nú ert þú orðinn heill. Syndga ekki framar svo að eigi hendi þig annað verra.“
Maðurinn fór og sagði ráðamönnum Gyðinga að Jesús væri sá sem læknaði hann.

Myndin sem fylgir færslunni er í eigu Sean Gallup/Getty Images.