Ósíuð aðventa 6: Tvær milljónir fyrir umhverfið

Með tunglið milli fingranna

Það er fallegt á Íslandi núna og þótt stundum sé þæfingsfærð þá verðum við áþreifanlega vör við lífsgæðin sem fylgja því að búa á hreina og góða landinu okkar. Hér er lítil mengun og mikið pláss og tiltölulega mikil lífsgæði. Hér er lítil fátækt og náttúrufegurð á heimsmælikvarða. Hér er gott að vera. Orkan okkar er líka umhverfisvæn og þess vegna eigum við auðvelt með að mæta kvótunum okkar um losun gróðurhúsalofttegunda.

Samt getum við gert betur. Þessa dagana er einmitt tíminn til að íhuga það.

Nú stendur yfir loftslagsráðstefnan í París. Þar eru þjóðarleiðtogar frá veröldinni allri. Þar eru líka kirkjuleiðtogar sem komu saman ásamt loftslagspílagrímum úr öllum heimshornum. Þau gengu til Parísar til að minna á að við þurfum að breyta lífsháttum okkar.

Kirkjuleiðtogarnir og pílagrímarnir afhentu þjóðarleiðtogunum tæpar tvær milljónir undirskrifta ásamt áskorun um breytingar. Verkefni næstu daga í París er að gera áætlun sem tryggir árangur. Heimurinn má ekki hlýna meira af okkar völdum. Annars er voðinn vís.

Aðventan er tími vonarinnar, líka fyrir sköpunina. Nú er vika vonarinnar.

#ósíuðaðventa