Ósíuð aðventa 12: Út með óttann

Slökkt á kertum eftir kyrrðarstund

Rauður þráður í boðskap guðspjallanna er hvatningin um að vera ekki hrædd. Aftur og aftur lesum við af vörum Jesú og englanna: Óttastu eigi, verið óhrædd.

Óttinn er frumtilfinning sem líkja má við faraldur í lífi manneskjunnar. Það er nóg í lífinu til að vera hræddur við: eigin afkomu og heilsu, líf og velferð þeirra sem okkur er annt um, slysin sem ekki gera boð á undan sér, og dauðann sem bíður okkar allra.

Óttinn er líka stjórntæki og er óspart beitt sem slíku. Í sögunni og heimspólitíkinni sjáum við hvernig spilað hefur verið á ótta fólks og myndir af óvinum hafa verið særðar fram. í Þýskalandi nasista voru gyðingar óvinurinn sem fólk átti að hræðast, við sjálf ólumst upp við að vera skelfingu lostin yfir möguleikanum á kjarnorkustríði við kommúnista, börnin okkar alast upp við ótta við hryðjuverk og islamista.

Óttinn virðist líka vera gjaldmiðill í innlendri pólitík. Við erum látin vera hrædd við að okkar minnstu bræður og systur gjaldi þess ef hingað komi fólk frá Sýrlandi eða Albaníu, í leit að betra lífi. Að lífeyrisþegar og íslensk börn gjaldi þess ef langveik börn og hælisleitendur fái hér vernd. Við erum líka svolítið hrædd um að ef við notum ekki alla virkjunarkosti landsins, munu lífgæðin okkar skerðast og allt verða vont.

Óttinn er kröftugt stjórntæki og notaður óspart af þeim sem hafa hag af því að við séum hrædd og að við stjórnumst af óttanum. Og við föllum alltaf fyrir því, þess vegna látum við ógert að spyrna við fótum þótt við vitum betur.

Þess vegna hefur hvatning Jesú um að vera ekki hrædd aldrei verið mikilvægari en á þessari aðventu. Við þurfum að hætta að vera hrædd og stjórnast af óttanum, því það kemur í veg fyrir að við breytum rétt gagnvart okkur sjálfum, náunga okkar og náttúrunni. Og eins og Angela Merkel, sem Times magazine valdi mann ársins 2015 segir, þá er óttinn glataður förunautur sem gefur aldrei góð ráð.

#ósíuðaðventa