Þú ert of mikilvægur til að fara ekki í fæðingarorlof

Í Fréttablaðinu og á Vísi í dag er sagt frá því að færri feður fari í fæðingarorlof en undanfarin ár. Samkvæmt fréttinni hefur hlutfallið lækkað úr 90% í 77% frá 2009 til 2014. Þetta eru slæmar fréttir. Mig langar því að birta hér á blogginu stutt bréf til nýbakaðra feðra sem eru að velta fyrir sér hvort þeir eigi að fara í fæðingarorlof eða ekki.

Heiðbjört Anna leikur sér meðan.
Þetta er Heiðbjört Anna sem naut þess að vera með pabba og mömmu í fæðingarorlofi.

Kæri faðir.

Ég hef þrisvar sinnum verið í fæðingarorlofi. Þetta hefur alltaf verið góður tími. Ég veit að hann hefur skipt mig miklu máli og er viss um að dæturnar hafa notið hans líka. Ég er líka sannfærður um að þetta hefur haft heilmikil áhrif á samband okkar.

Staðreynd málsins er sú að tíminn okkar með börnunum okkar skiptir máli. Árin líða hratt og fyrr en varir eru þau orðin hálffullorðin og við höfum misst af mótunarárunum. Ég á því aðeins eitt ráð til þín sem ert að velta fyrir þér hvort þú eigi að taka fæðingarorlof:

Ekki hugsa þig um tvisvar. Farðu í fæðingarorlof og njóttu þess með börnunum þínum og fjölskyldunni.

Að eiga þrjá eða fleiri mánuði með barninu sínu eru nefnilega forréttindi. Vinnan getur beðið og verkefnin líka. Barnið getur hinsvegar ekki beðið.

Þú ert of mikilvægur til að fara ekki í fæðingarorlof

Er Biblían of löng?

Það er líklega sjaldnast sem við lesum alla Biblíuna í einu, alla jafna er henni skipt upp í smærri einingar. Í messunni á sunnudögum lesum við til að mynda þrjá lestra, einn úr Gamla testamentinu, tvo úr því nýja. Svo eru til margs konar lestraskrár sem má fylgja.

En hvað gerum við ef við viljum draga kjarnann í Biblíunni saman? Það er þekkt að Marteinn Lúther sagði að við ættum að lesa hana með það í huga hvað efldi Krist. Hvernig á að skilja það er reyndar annað mál. Það er líka hægt að fara allt aðrar leið. Ein slík tilraun var birt á reddit í síðustu viku og þar segir meðal annars:

Guð: Ok, þið tvö, það er eitt sem þið megið ekki gera. Annars er þetta bara spurning um að skemmta sér vel.
Adam og Eva: Allt í lagi.
Satan: Má ég stinga upp á einu?
Adam og Eva: Allt í lagi.
Guð: Hvað gerðist!?!
Adam og Eva: Sko, það var þarna eitt sem við gerðum.
Guð: Krakkar!

Ég snaraði þessu á íslensku í gær, svo að fleiri fái notið. Hvernig mynduð þið annars draga kjarnann í Biblíunni saman?

Er Biblían of löng?

Fimm fílar í Berlín

Five Elephant í Berlín
Á Five Elephant fæst afbragðs gott kaffi og frábær ostakaka.

Five Elephant er eitt af góðu kaffihúsunum í Berlín. Þau rista sitt eigið kaffi og hella upp á dýrindis espressodrykki og bjóða líka upp á nútímalegan gamaldags uppáhelling. Þar fæst líka besta ostakaka í heimi, skv. Torfa vini okkar á Reykjavík Rosters.

Five Elephant er í Kreuzberg sem er eitt af uppáahaldshverfunum í borginni, það er iðandi lífi og fullt af listilega skreyttum húsum sem gerir göngutúra um hverfið enn betri en ella.

Fimm fílar í Berlín

Karlar þurfa að leggja sitt af mörkum

til að konum finnist þær vera öruggar í borginni okkar. Það er eitt af markmiðum átaksins Örugg borg. Ólafur Stephensen skrifar í Kjarnann í dag:

Við karlarnir eigum einfaldlega að vera sammála um að það er aldrei í lagi að beita ofbeldi, áreita konur eða sýna þeim ógnandi framkomu. Allir ljósastaurar heimsins taka ekki í burtu óttann og öryggisleysið sem margar konur upplifa. Að búa til öruggara borgarumhverfi að þessu leyti er á endanum undir okkur körlunum komið.

Við þurfum að leggja okkar af mörkum.

Ps. Nei, ég er ekkert að plögga Kjarnann sérstaklega, fann bara gott efni þar, tvo daga í röð.

Karlar þurfa að leggja sitt af mörkum

Mánudagsmeðmæli: Pabbi, mamma, börn og bíll

Mánudagsmeðmælin fá Kjarninn og Guðmundur Pálsson fyrir hlaðvarpsþáttinn Pabbi þarf að keyra sem er bráðskemmtilegur. Guðmundur er auðvitað alvanur útvarpsmaður og góður pistlahöfundur og hér gefur hann skemmtilega innsýn í líf fjölskyldunnar sem kvaddi hversdagsbaslið og hélt á vit ævintýranna í Evrópu.

Hlaðvarpið er á uppleið á Íslandi. Alvarpið ruddi því leið. Nú kemur Kjarninn sterkur inn og fleiri eiga vonandi eftir að bætast í hópinn. Mér finnst alveg frábært að geta hlustað á stutta og skemmtilega íslenska þætti á leiðinni í vinnuna. Takk fyrir mig.

Mánudagsmeðmæli: Pabbi, mamma, börn og bíll