Árni Svanur

Bókstafstrúmælingar

Ég átti stutt spjall við blaðamann á mbl.is í dag:

Þjóðkirkj­an túlk­ar Bibl­í­una og játn­ing­arn­ar ekki bók­staf­lega held­ur skoðar þessa texta alltaf í sögu­legu sam­hengi. Ein­hvers kon­ar próf sem bygg­ist á bók­stafstrú á Bibl­í­una eða játn­ing­ar kirkj­unn­ar get­ur þannig aldrei end­ur­speglað þjóðkirkj­una. Það seg­ir hins veg­ar heil­mikið um hvernig Van­trú­ar­menn lesa Bibl­í­una og sjá þjóðkirkj­una. Ég held þess vegna að þetta sé fyrst og fremst próf í Van­trú­ar­kristni en ekki þjóðkirkjukristni.“

Ekki snúa út úr

Helgi Hrafn Gunnarsson, þingmaður Pírata:

Þjóðkirkju skal aldrei í lög leiða held­ur skal rík­is­valdið styðja og vernda trúfrelsi á Íslandi

Hér er Helgi Hrafn að bregðast við niðurstöðu þjóðaratkvæðagreiðslu um tillögur Stjórnlagaráðs að nýrri stjórnarskrá. 51,1% aðspurða vildu hafa ákvæði um þjóðkirkju í stjórnarskrá, 38,3% vildu ekki hafa slíkt ákvæði.

Mér finnst þetta útspil þingmannsins úr takti við ímynd Pírata. Ég hef ekki haft þá sýn á þann flokk að þau vilji beita pólitískum klækjabrögðum til að beygja niðurstöðu þjóðaratkvæðagreiðslu að sínum stefnumálum.

Annars finnst mér stjórnarskráin okkar eiga meiri virðingu skilda en að þingmenn leggi til að í henni séu ákvæði sem má í besta falli túlka sem útúrsnúning.

Hitt er svo annað mál að við þurfum að halda áfram samtalinu um trúna í samfélagi og almannarými. Ég er alveg sammála því við þurfum skýr ákvæði um trúfrelsi og ég myndi gjarnan vilja sjá kveðið upp úr um það í stjórnarskrá að Ísland sé trúarlega opið samfélag.

Aulinn, björninn, Jesús og þú

Hvað eiga Grú í Aulinn ég, Paddington í samnefndri kvikmynd, Jesús í Markúsarguðspjalli og við sem erum kristin sameiginlegt? Eitt svar er að finna í prédikun dagsins í Bústaðakirkju:

Manstu eftir aulanum? Hann vildi vera bestur og mestur í allri veröldinni? Af því hann var þrjótur þá vildi hann vera sá mesti meðal þrjóta. Mesti vondi-kallinn. Hann ákvað því að stela tunglinu. Til að ná markmiðinu þurfti hann á börnum að halda svo hann tók að sér þrjár munaðarlausar stelpur. En þetta gekk ekki alveg upp því þegar þær komu inn í lífið hans tóku þau yfir og hann breyttist. Það kom í ljós að inn við beinið var þrjóturinn bara allt í lagi.

Lesið og hlustið á Trú.is.

Fram í kærleiks krafti

Davíð Þór Jónsson, héraðsprestur á Austurlandi:

Að mínu mati er einfaldlega jafnóviðunandi nú á dögum að líkja trúnni og starfi kirkjunnar við hernaðarbrölt og að líkja því við önnur víðtæk og skipulögð mannréttindabrot.

Sammála. Nýi textinn hans við lagið Áfram Kristsmenn krossmenn er góður og dæmi um það hvernig má bregðast á uppbyggilegan hátt við svona líkingum.

Treystu þessu

Morgunbæn á Rás 1, sunnudaginn 25. janúar:

Góðan dag kæri hlustandi.

Ég vona að þú hafir hvílst vel í nótt og að svefninn hafi verið endurnærandi og góður.

Það er svo mikilvægt að tilheyra. Að finna sig sem hluta af hópi. Að finna að borin sé fyrir mér virðing. Að finna að mér verði sýnd umhyggja. Á þessum sunnudagsmorgni langar mig að lesa fyrir þig einn af lestrum dagsins í kirkjunni. Hann er að finna hjá Hósea spámanni og fjallar um það að tilheyra og finna sig öruggan. Continue reading

Karlremban, feðraveldið og Gamla testamentið

Bragi Páll Sigurðarson, verðandi faðir:

Þannig maður spyr sig, hvernig get ég, fyrrverandi karlremba og skíthæll, núverandi örvæntingafullur verðandi faðir, reynt að undirbúa dóttur mína fyrir þennan heim? Heim launamismunar. […] Heim þar sem stelpum er sagt að vera hljóðar og þægar á meðan strákum er hrósað fyrir að vera hugrakkir og röggsamir. Þar sem stelpum er sagt að þær eigi að sýna ábyrgð á meðan strákar eru jú, og verða alltaf, strákar.

Þórir Kr. Þórðarson heitinn, sem var prófessor í Gamlatestamentisfræðum við Háskóla Íslands, kenndi mér á fyrsta ári mínu í guðfræðinámi. Hann setti okkur stúdentunum fyrir að lesa megnið af Gamla testamentinu strax í upphafi annarinnar. Þegar einn af nemendunum dæsti yfir þessu sagði Þórir Kr. kíminn:

Að lesa Gamla testamentið er eins og að éta fíl. Maður tekur einn bita í einu.

Ég held að baráttan fyrir stelpurnar okkar sé eins. Við setjum upp feminísku gleraugun og byrjum svo bara, tökum eitt skref í einu og sjáum hverju það skilar okkur.

Lífið getur verið erfitt

Morgunbæn á Rás 1, laugardaginn 24. janúar:

Góðan dag kæri hlustandi.

Ég vona að þú hafir hvílst vel í nótt og að svefninn hafi verið endurnærandi og góður.

Jesús er iðulega á göngu í guðspjöllunum. Hann er á leiðinni. Fer frá einum stað til annars. Hvað segir það okkur um líf hinna kristnu? Kannski að lífið sé ferðalag þar sem við erum stöðugt að reyna eitthvað. Jesús lifði heldur ekki auðveldu lífi. Um það vitna guðspjöllin. Til dæmis segir í Lúkasarguðspjalli: Continue reading