Menu

árni + kristín

hjón, foreldrar, prestar

Hjólað í kjól og hvítu

flic.kr/p/27x7w54Við skelltum okkur í hjólaferð um Genf í gær þar sem uppábúnir hjólreiðakarlar og -konur nutu dagsins.Fleiri myndir

Sjö svarthvítar hversdagsmyndir

Ég fékk áskorun um að birta sjö svarthvítar myndir á instagram. Úr urðu sjö innlit í hversdaginn okkar í Genf. (meira…)

Í dag skrifuðu fulltrúar Lútherska heimssambandsins og Heimssambands reformertra kirkna undir Vitnisburð frá Wittenberg í samkirkjulegri guðsþjónustu í Borgarkirkjunni. Með þessu er lagður grundvöllur að frekar samstarfi lútherskra og reformertra kirkna um allan heim. Siðbótarafmælið er samkirkjulegt!

Siðbótarmenn og -kona

Þessir herramenn eru í forgrunni í siðbótarminnisvarðanum stóra í Genf. Þetta eru William Farel, Jean Calvin, Theodore Beza og John Knox. Þeir hafa allir tengsl við borgina. Sitt hvoru megin við siðbótarvegginn eru steinblokkir sem nöfn Lúthers og Zwingli eru hoggin í.

Á Zwingliblokkina er líka letrað nafn einnar siðbótarkonunnar frá Genf. Sú hét Marie Dentière. Hún var guðfræðingur, lék stórt hlutverk í siðbótinni í Genf og prédikaði reglulega.

Tvö áramótaheiti – eða kannski áskoranir – sem vert væri að efna og uppfylla á siðbótararinu 2017.

Lára Björg Björnsdóttir:

Við Íslend­ingar erum best í svo mörgu og eitt af því er að koma af stað og taka þátt í nýjum æðum. Hvernig væri að 2017 yrði árið þar sem nýjasti lífstíll­inn, nýjasta æðið, yrði hjálp­semi, mannúð og náunga­kær­leik­ur? Gerum þetta sem er okkur svo eðl­is­lægt og sjálf­sagt. Gerum þetta sam­an. Öll sem eitt.

Sara Mauskopf:

I’m going to skip self improvement this year. 2017 will be about how I can best use the time I have on this earth to help others.

Gleðilegt nýtt ár!

Frá Útlendingastofnun til Egyptalands

Engill á jólatré

Ég heimsótti Útlendingastofnun í fyrsta sinn í vikunni. Ég var þar með hópi fólks: sjálfboðaliða frá Rauða krossinum, tveimur prestum, múslimskum hjónum og svo voru fulltrúar frá þremur fjölmiðlum sem fylgdust með. Ég skal segja ykkur hvert tilefnið var rétt strax en fyrst langar mig að tala um jólaguðspjallið.

Frá Betlehem

Sagan af Jósef og Maríu sem hefur verið sögð um allan heim í næstum 2000 ár er saga af flóttafólki.

Jólaguðspjallið er saga af hjónum sem þurftu að ferðast langan veg og fundu sig á stað þar sem þeim var uppálagt að láta skrásetja sig – kannski var eins konar Útlendingastofnun síns tíma. En í raun var staðurinn ókunnur og þau höfðu ekki húsaskjól og það voru engir ættingjar eða aðrir sem þau gátu reitt sig á.

Jólaguðspjallið er sagan af því þegar þau voru á svona stað á tíma sem var snúinn fyrir því því þau áttu von á barni og barnið var að koma. Núna.

Jólaguðspjallið er saga af einskonar fjölskylduboði sem varð til þegar gestir heimsóttu þau: Englar, hirðar, vitringar.

Jólaguðspjallið er saga af flótta því þeim var ekki vært þarna. Yfirvöld sem fóru með hagsmuni þeirra og allra annarra og  áttu að gæta þegnanna – þessi yfirvöld voru og vildu barnið feigt.

Það er jólaguðspjallið.

Og svona sögur eru að gerast allt í kringum okkur. Þessa dagana … vikurnar … misserin.

Frá Sýrlandi til Grikklands

Fyrr í mánuðinum las ég um fjölskyldu sem reyndi að flýja frá Sýrlandi til Grikklands. Þau keyptu sér far með smyglurum og þeim var sagt að börnin og fullorðna fólkið þyrftu engin björgunarvesti af því þess að ferðalagið væri svo stutt.

Gróðavon sem rak smyglarana áfram. Og þeir viðhöfðu ekki nauðsynlegar öryggiskröfur. Skipið varð vélarvana úti á sjó og sökk. Einn fjölskyldumeðlimur komst lífs af.  Pabbinn.

Það er nefnilega ekki öruggt að vera flóttamaður í heiminum í dag.

Kennitölur eða hjörtu

Ég heimsótti Útlendingastofnun í vikunni. Í fyrsta sinn. Tilefnið var ekki skrásetning heldur hvatning. Afhending 4700 undirskrifta til stuðnings fjölskyldu frá Sýrlandi. Þau þurftu að flýja heimili sitt með tvær dætur sem voru þá á þriðja og fjórða ári. Þau komust til Grikklands.

Heil á húfi.

Þar bjuggu þau erfiðar aðstæður í rúmt ár. Svo komust þau til Íslands. Hér hafa þau verið í tæpt hálft ár og þeim líður vel. Þau eru að læra íslensku, dæturnar eru á leikskóla, það er vel búið að þeim. Einkunnin sem Íslendingar fengu sem tóku á móti þeim var ágætiseinkunn. Það sama heyrði ég í samtali við fulltrúa Rauða krossins á dögunum sem sagði að meðal almennings væri mikill velvilji í garð flóttafólks og hælisleitenda. Það er ágætiseinkunn þjóðar.

En kerfið er ekki alltaf velviljað. Samkvæmt Dyflinarsamkomulaginu á þetta fólk bara að fara aftur til Grikklands. Þar komu þau inn í Evrópu og Grikkir eiga þá að sjá um þau. Á tölvumáli myndum við kalla þetta „computer says no“ því tölvan fylgir bara sinni forskrift. Hún sér ekki einstaklinga með nafn og sögu og hjörtu sem slá – hún sér bara fjórar kennitölur.

Kannski þurfum við meira hjarta, meiri umhyggju og kærleika inn í reglurnar og lögin kringum mótttöku þeirra sem leita til okkar í neyð sinni. Það er verkefni stjórnmálamanna og það er best að þau gangi í það strax eftir hátíðirnar, gjarnan innblásin af jólasögunni.

Til Egyptalands

Á jólum rifjum við upp söguna af flóttafjölskyldunni sem flúði frá Betlehem til Egyptalands.

Þau flúðu af því að þeim var ekki vært. Þau voru ekki með skilríki. Þau voru ekki sömu trúar og fólkið í landinu sem þau leituðu til. En það var tekið á móti þeim. Þau fundu sig örugg í nýja landinu. Þar til þau gátu snúið aftur.

Þar gátu þau búið sér og barninu sínu þannig líf að þegar hann varð fullorðinn gat hann lifað það að vera kallaður af Guði til að prédika að við ættum að standa saman, hugsa um hvert annað. Og hann sagði um börnin:

„Hver sem tekur við einu slíku barni í mínu nafni tekur við mér og hver sem tekur við mér tekur ekki aðeins við mér heldur og við þeim er sendi mig.“ (Mark. 9.37)

Munum eftir þessu og munum líka að prédikun Jesú er ekki prédikun þess sem hafði búið við forréttindi alla ævi. Hún er ekki prédikun þess sem hafði það alltaf gott og þurfti aldrei að hafa fyrir lífinu.

Hún er prédikun flóttamannsins sem var rifinn upp nýfæddur og flutti í annað land þar sem hann bjó þar til hann gat svo snúið aftur til síns heima.

Hún er prédikun þess sem bjó við ógn ofbeldis, ofríkis og vantrausts en stóð  með boðskapnum sínum og fólkinu.

Og hver er boðskapurinn? Þú skiptir máli. Eins og þú ert. Og það skiptir máli að þú látir aðra finna það að þeir skipta líka máli.

Það er jólaguðspjallið.

Það er hugsunin á bak við þetta allt saman.

Guð elskar.

Heiminn.

Og þig.

Þess vegna sendi hann Jesú.

Þess vegna biður hann þig að lifa með opinn faðminn og opið hjarta.

Þetta erum við beðin að taka með okkur inn í jólin.

Þetta erum við beðin um að bera áfram til annarra.

Sérstaklega þeirra sem eru á flótta og hafa fengið þau skilaboð að þau og þeirra hagsmunir skipti ekki máli.

Sérstaklega til þeirra sem hafa fengið þau skilaboð þau séu ekki í lagi.

Guð gefi þér gleðileg jól.

Flutt í Brautarholtskirkju og Saurbæjarkirkju á aðfangadegi, 24. desember 2015.

Ósíuð aðventa 22: Ljúfsár jól

Kveikt á kertum

Stundum færðu fréttir sem eru góðar og dásamlegar og þú vilt að deila með þeim sem skipta þig mestu máli. Þú gerir það en kannski vantar einhvern. Það getur verið góður vinur, systkini, maki, foreldri, afi og amma – einhver sem skipti sköpum í lífinu þínu og er ekki lengur til staðar. Þá getur verið sárt að vera til í miðri gleðinni.

Jólin eru tíminn þegar tilfinningar sem þessar geta komið yfir okkur af miklum krafti. Þau eru góður tími sem skiptir okkur máli. Þau eru tími fjölskyldunnar og við viljum eiga þau með fólkinu sem er okkur dýrmætt. Þegar einhver þeirra hefur kvatt þá getur þyrmt yfir okkur.

Það er eðlilegt og verður líka hluti af jólunum. Þá er gott að staldra við, rifja upp og leyfa sér að hvíla í aðstæðunum.

Guð gefi þér góð jól – með þeim sem þú elskar og með minningunum um þau sem þú hefur þurft að kveðja.

#ósíuðaðventa

Ósíuð aðventa 21: Himneskt og jarðneskt

Klakabönd

Saga jólanna teflir saman því himneska og jarðneska. Í fegurð sinni og sannleika afhjúpar hún hvað heimurinn okkar getur verið á skjön við það fagra og sanna.

Saga jólanna afhjúpar líka hvað oft er farið illa með fólk og hvað hin fátæku og valdalausu eru í sífellu kúguð og þeim haldið niðri. Hún afhjúpar hvað hervaldið er yfirþyrmandi í samhengi mannsævinnar.

Ætli það sé ekki líka satt það ekki satt enn í dag?

#ósíuðaðventa

Ósíuð aðventa 8: Öðruvísi innkaupalisti

Jólastjarna í glugga

Við höfum tröllatrú á listum og því að gera sér to-do lista fyrir minni og stærri verkefni sem bíða manns. Listagerðin gagnast til að fá yfirsýn yfir það sem þarf að gerast, hjálpar til við að hvorki gleyma né sjást yfir það sem þarf að gerast til að hnika málum í rétta átt.

Að skrifa niður lista með því sem þarf að gera, og merkja svo við eftir því sem verkinu miðar er verkefnastjórnun húsmóðurinnar og óskeikul aðferðarfræði. Innkaupalistinn er svo alveg sérstakt fyrirbæri, á hann ratar það sem okkur finnst vera nauðsynlegt í mat, drykk og upplifun, t.d. fyrir jólinn.

Við erum heldur ekkert mjög gömul þegar við byrjum að skrifa niður lista yfir það sem okkur langar til að fá í jólagjafir, á hann skrifum við óskir um það sem við viljum eignast, hversu raunhæft eða óraunhæft það kann að sýnast.

Það er líka hægt að nota listann á annan hátt og í áttunda dagatalsglugganum langar okkur að velta upp nýrri nálgun á gamla góða verkefna- og innkaupalistann. Hún er þessi:

Skrifaðu niður, ekki það sem þig langar að eignast eða kaupa, heldur það sem þig langar til að verði, t.d. í samskiptum þínum við þau sem standa þér næst.

Skrifaðu niður það sem þig langar til að trúa á, eða vona.

Vertu djarfur/djörf í óskum þínum, sjáðu fyrir þér það sem þig langar að geti gerst, og settu á listann.

Kannski byrjar það að gera heiminn betri á því að gera lista yfir það sem okkur langar til að sjá og gerast?

Ósíuð aðventa 7: Tvö jólabörn

Jólapakki.

Við erum að lesa yndislega bók eftir mann sem heitir Stephen Cottrell. Hann er biskup á Englandi á stað sem heitir Chelmsford. Bókin hefst á þessum orðum:

Það hlýtur að vera hægt að halda jólin öðruvísi en við gerum núna, að halda þau þannig að gleðin og fyrirheitin sem þau standa fyrir hjálpi til við að gera lífið okkar heilt aftur.

Bókin heitir „Ekki gera neitt – jólin eru að koma“ og er á formi eins konar aðventudagatals. Markmiðið er að fá okkur til að hugsa öðruvísi um dagana fyrir jól  en við erum kannski vön. Inntakið er hvatning til að staldra við, hætta að eyða um efni fram, vera heiðarleg um það sem okkur vantar í lífið þitt.

Staðreyndin er sú að aðventan getur verið erfiður tími. Með okkur búa minningar og sorg, væntingar okkar sjálfra og þeirra sem eru hluti af lífi okkar. Við finnum þrýstinginn sem er á okkur öllum um að mæta þessum væntingum. Það er ekki alltaf hjálplegt og styðjandi.

Áskorunin okkar er að snúa þessu svo það sé okkur sjálfum í hag. Snúa því mennskunni í hag, því viðkvæma, brothætta og dýrmæta í hag. Því andspænis öllu dótinu, hávaðanum, kapphlaupunum og neyslunni standa tvö börn: litla barnið í okkur sjálfum og barnið í Betlehem. Sambandið milli þeirra kærleikurinn sjálfur, kærleikur Guðs til mannanna, kærleikur sem þú átt skuldlausan og alveg skilið.

Um þetta snúast jólin.

#ósíuðaðventa

Ósíuð aðventa 6: Tvær milljónir fyrir umhverfið

Með tunglið milli fingranna

Það er fallegt á Íslandi núna og þótt stundum sé þæfingsfærð þá verðum við áþreifanlega vör við lífsgæðin sem fylgja því að búa á hreina og góða landinu okkar. Hér er lítil mengun og mikið pláss og tiltölulega mikil lífsgæði. Hér er lítil fátækt og náttúrufegurð á heimsmælikvarða. Hér er gott að vera. Orkan okkar er líka umhverfisvæn og þess vegna eigum við auðvelt með að mæta kvótunum okkar um losun gróðurhúsalofttegunda.

Samt getum við gert betur. Þessa dagana er einmitt tíminn til að íhuga það.

Nú stendur yfir loftslagsráðstefnan í París. Þar eru þjóðarleiðtogar frá veröldinni allri. Þar eru líka kirkjuleiðtogar sem komu saman ásamt loftslagspílagrímum úr öllum heimshornum. Þau gengu til Parísar til að minna á að við þurfum að breyta lífsháttum okkar.

Kirkjuleiðtogarnir og pílagrímarnir afhentu þjóðarleiðtogunum tæpar tvær milljónir undirskrifta ásamt áskorun um breytingar. Verkefni næstu daga í París er að gera áætlun sem tryggir árangur. Heimurinn má ekki hlýna meira af okkar völdum. Annars er voðinn vís.

Aðventan er tími vonarinnar, líka fyrir sköpunina. Nú er vika vonarinnar.

#ósíuðaðventa

Ósíuð aðventa 3: Alþjóðlegur dagur fatlaðra

Ceremony in honor of United Nations staff killed in Gaza, under the Broken Chair on the Place des Nations, Thursday 7 August, Geneva, Switzerland. Photo by Pierre Albouy

Í dag er Alþjóðlegur dagur fatlaðra sem er haldið upp á þriðja desember. Í tilefni dagsins langar okkur að deila með ykkur pistli Ívu Marínar Adrichem sem skrifar um trú sem byggir upp og trú sem mismunar. Hún leggur út af sögunni um Jesús og blinda manninn:

Þegar talað er um að blindur maður sjái vegna kraftaverks Jesús, tel ég að verið sé að meina orðið sjón í táknrænni merkingu. Í mínum huga gæti Jesús hafa gefið aðra sjón en veraldlega sjón. Ég myndi frekar halda að hann hafi hjálpað fötluðu fólki að finna tilgang með lífi sínu og opnað augu þess fyrir hinu fagra lífi sem hægt væri að lifa.

Mér finnst alveg fráleitt og hreinlega lýsa barnaskap að fólk skuli túlka þessar dæmisögur svona bókstaflega og vísa svo í þær í daglegu lífi. Þau trúarrit sem bókstafstrúarfólk lifir eftir og þröngva upp á samferðarfólk sitt, voru barn síns tíma en hugsunarháttur breytist í tímanna rás og skoðanir samfélagsins með því.

Við tökum að sjálfsögðu undir með Ívu Marínu um að fatlaðir eiga fagurt líf eins og þau einmitt eru og eina alvöru blindan sem þjakar fólk er að sjá ekki gæði margbreytileikans og mikilvægi framlags okkar allra hvernig svo sem við erum. Notum aðventuna til að skerpa sjónina okkar á tilfinningar, skynjun, fegurð, trú og von fyrir alla.

#ósíuðaðventa

Myndin hér að ofan sýnir Brotna stólinn sem er viðarskúlptúr sem stendur við Palais de Nations í Genf. Myndina tók Pierre Albouy fyrir UN Geneva