Menu

árni + kristín

hjón, foreldrar, prestar

Gleðidagur 50: Von dregur úr fátækt

Páskaliljur

Í Economist sem kom út um miðjan mánuðinn segir frá rannsóknum Esther Duflo. Hún er hagfræðingur og starfar við MIT í Bandaríkjunum. Esther flutti erindi þriðja maí síðastliðinn þar sem hún færði rök fyrir því að sum átaksverkefni gegn fátækt hefðu meiri áhrif en ella vegna þess að þau leiddu til þess að þátttakendur í þeim öðluðust von um að þeirra gæti beðið meira en lífsbaráttan ein.

Hún sagði m.a. frá verkefnum á Indlandi sem miðuðu ekki aðeins að þú að veita fjárhagslega aðstoð heldur gerðu fólk myndugt og veittu því reisn með því að láta þeim í té kú, geitur eða kjúklinga sem þau gátu notað til að framleiða afurðir sem mátti svo selja. Á bak við verkefnin stóð smálánafyrirtækið BRAC.

Það sýndi sig að fólkið sem fékk þessa umframhjálp náði auknum árangri. Hvers vegna? Ein tilgátan er sú að það sé vegna þess að þau öðluðust von um að breytingar á kjörum þeirra og aðstöðu væru mögulegar. Vonin varð svo drifkraftur frekari breytinga.

Þetta voru góð skilaboð á fimmtugasta og síðasta gleðideginum því gleðidagarnir hafa öðru fremur snúist um vonina.

Við látum þetta vera síðustu orðin í gleðidagabloggi ársins 2012, þökkum ykkur samfylgdina og óskum lesendum öllum gleðilegrar hvítasunnuhátíðar.

Gleðidagur 49: Mmmm matur

Monsieur Vuong

Hvítasunnan er fjölmenningarhátíð. Þegar kirkjan varð til mættust ólíkir menningarheimar og fjöldi tungumála. Eitt af því sem hlýtur að hafa verið til staðar þennan örlagaríka dag var margskonar matur. Rétt eins og i stórborgum samtímans.

Myndin með þessari bloggfærslu var tekin í uppáhaldsstórborginni
Berlín í fyrra. Þegar við erum þar reynum við einmitt að upplifa þetta og borðum t.d. á ítölskum, víetnömskum, japönskum, bandarískum og rússneskum veitingastöðum. Og auðvitað þýskum ;)

Á fertugasta og níunda gleðidegi sem er aðfangadagur hvítasunnu gleðjumst við yfir fjölmenningunni sem hefur skilað okkur undursamlegum mat.

Gleðidagur 48: Sopinn er góður

Macchiato @ Kaffismiðjan

Við hófum þennan föstudag á Kaffismiðjunni þar sem við fáum besta kaffið. Þar fáum við líka kaffifræðslu sem er vel þegin. Í upphafi árs vorum við í hópi þeirra sem eru lattelepjandi. Þessa dagana njótum við svonefndrar tvíhleypu. Það er einfaldur espresso og cappucino sem er borinn fram á silfurbakka. Þegar við spurðum hvert væri næsta skref eftir það fengum við svar sem kom á óvart:

Uppáhellt kaffi. Mjólkurlaust.

Vönduð uppáhelling miðlar bragðkeim kaffibaunanna og dregur fram blæbrigði sem týnast í öðrum útfærslum.

Gott kaffi eru lífsgæði og það er er gott að njóta þekkingar fagfólksins á Kaffismiðjunni og kaffileiðsagnar þeirra. Fyrir það þökkum við á fertugasta og áttunda gleðidegi.

Gleðidagur 47: Stattu upp

Strákarnir í Bláum Ópal komust ekki áfram til Baku en lagið þeirra var í uppáhaldi á heimilinu í forkeppninni. Textinn er svolítið sniðugur (að undanskildri hráþýddu yrðingunni um að standa upp fyrir sjálfum sér) því þetta er falleg hvatning og pepp. Það eru góð skilaboð til íslensks samfélags í dag.

Fyrir nokkrum árum heyrðum við viðtal við Bjarna Karlsson sem er sóknarprestur í Laugarneskirkju. Ein spurningin sem hann fékk var hvað fælist í því að ala barn upp í kristinni trú. Hann sagði að þar væri tvennt sem skipti meginmáli og orðaði þetta nokkurn veginn svona: Þegar barn stendur á þröskuldi fullorðinsáranna þarf að búa með því sú tilfinning að það sé óendanlega mikils virði og að það geti aldrei, sama hvað gerist, lokast inni í slæmum aðstæðum.

Stattu upp minnir okkur á þetta og það er ágætis áminning á fertugasta og sjöunda gleðidegi.

Gleðidagur 46: Bómullarbrúðkaup

cotton reels

Við eigum tveggja ára brúðkaupsafmæli í dag sem samkvæmt hefðinni heitir bómullarbrúðkaup. Brúðkaupsafmælisdagarnir eru sérstakir tyllidagar í árinu og við gerum okkur dagamun með ýmsum hætti. Það er reyndar sérlega gaman að eiga brúðkaupsafmæli á gleðidögum því þá daga er tvöfalt fagnaðarefni.

Á fertugasta og sjötta gleðidegi erum við þakklát fyrir hvort annað, börnin okkar og fjölskyldur, fyrir dagana og lífið sem við eigum saman – fyrir ástina.

Mynd: Leo Reynolds

Gleðidagur 45: #12stig

Við fylgdumst með Eurovision í kvöld og vorum stolt af okkar fólki í Baku. Það var líka gaman að fylgjast með og taka þátt í samtalinu á Twitter þar sem fjöldi Íslendinga tísti um Eurovision. Fjörið verður líklega enn meira á laugardaginn þegar keppt verður til úrslita.

Takk Gréta Salóme og Jónsi fyrir ykkar framlag til fertugasta og fimmta gleðidags.

Untitled

Myndin segir meira en þúsund orð á fertugasta og fjórða gleðidegi.

Gleðidagur 43: Gefðu góð kaup

Basarinn

Í dag var haldin vorhátíð í Langholtskirkju. Ómissandi hluti af vorhátíðinni er basar kvenfélagsins. Þar má bæði láta gott af sér leiða og gera góð kaup. Á einu borði var mikið barnadót og einn strákurinn á heimilinu gerði kostakaup í flottu mótorhjóli. Þarna var líka að finna flottar kommóður og útskorinn skenk, svo eitthvað sé nefnt.

Fólkið í sókninni gefur það sem er selt á basarnum. Einhverjir nýta tækifærið til að koma áfram því sem ekki er lengur þörf fyrir, taka til í geymslunni. Peningarnir sem safnast á basarnum eru notaðir til að efla starfið í sókninni og styrkja þau sem þurfa. Þetta er fyrirmyndariðja og hún er þakkarefni okkar á fertugasta og þriðja gleðidegi.

Gleðidagur 42: Skeggið er karlmannsprýði

Skegg

Við skemmtum okkur yfir vefnum Better with a beard í dag. Þar er því haldið fram að allir karlmenn líti betur út með skegg. Myndirnar tala sínu máli. Þessi er af Matt LeBlanc sem lék Joey í Friends og hefur skemmt fjölskyldumeðlimum á öllum aldri.

Á fertugasta og öðrum gleðidegi fögnum við vel snyrtu skeggi sem er svo sannarlega prýði þess sem það ber.

Gleðidagur 41: Fimmtíukall fyrir umhverfið

Kaffismiðjan

Þessi skilaboð til kaffiunnenda mátti lesa á kaffivélinni góðu á Kaffismiðju Íslands:

Þá er komið að því:
Við ætlum að vera umhverfisvænni.
Frá og með mánudeginum
14. maí kosta pappamálin
50 kr.-

Skilaboðunum fylgdi líka ný vörutegund á Kaffismiðjunni: Fjölnota kaffimál af ýmsum toga. Þau eru umhverfisvæn og frekar flott.

Þetta finnst okkur til fyrirmyndar hjá þeim Sonju og Immu. Um leið og við þökkum fyrir kaffisopann í morgun viljum við hrósa þeim stöllum fyrir framtakið. Á fertugasta og fyrsta gleðidegi þökkum við fyrir stór og smá átaksverkefni í þágu umhverfisins.

Gleðidagur 40: Uppstigningardagur á táknmáli

SignWiki er nýtt vefsvæði sem veitir aðgang að íslenskri táknmálsorðabók, kennsluefni, æfingum og fræðsluefni. Þetta er verkefni á vegum Samskiptamiðstöðvar heyrnarlausra og heyrnarskertra en er eins og aðrir wikivefir opinn notendum sem geta lagt til efni og tákn og breytt og bætt það sem aðrir hafa gert.

Á fertugasta gleðidegi deilum við með ykkur tákninu fyrir uppstigningardag og fögnum auknu aðgengi að íslensku táknmáli í gegnum nýja tækni.

Gleðidagur 39: Brönugrasið

The orchid

Á þrítugasta og níunda gleðidegi viljum við deila með ykkur mynd af uppáhaldsorkídeu. Blómin gleðja.