Menu

árni + kristín

hjón, foreldrar, prestar

Gleðidagur 50: Undir birkitré

Hjónaefnin

Brúðurin kemur brúðgumanum til hjálpar stuttu fyrir hjónavígsluna.

Á hvítasunnudegi fyrir þremur árum gengum við í hjónaband. Sólin skein og lýsti upp daginn sem var alveg hreint dásamlegur, svona eins og slíkir dagar eiga að vera. Við nutum þess að undirbúa daginn saman. Frábæru fjölskyldurnar okkar lögðu líka sitt af mörkum til að allt yrði sem eftirminnilegast.

Það tókst.

Á brúðkaupsdegi koma fjölskyldur saman og til verður eitthvað nýtt og undursamlegt. Við sem mættumst fyrir altarinu til að tjá ástina okkar til hvors annars og til lífsins fengum líka tækifæri til að horfa yfir gestahópinn sem samanstóð af ættingjum og vinum og góðum kunningjum og finna hvað við erum heppin að hafa svona gott fólk í lífinu okkar.

Á fimmtugasta gleðidegi erum við full af undrun og þakklæti yfir lífinu okkar saman og yfir hvort öðru og börnunum okkar. Við gleðjumst saman og með öllum þeim sem eiga einhvern  sem þau elska út af lífinu og elskar þau.

Gleðidagur 49: Menntun fyrir lífið

Krakkarnir föndra

Í vikunni fengum við að heyra að litli einhverfi kúturinn okkar hefur fengið skólavist í Klettaskóla næsta vetur. Það voru góðar fréttir fyrir hann og fjölskylduna alla.

Þegar við heimsóttum skólann fyrr í vetur leist okkur vel á það hvernig börnunum er mætt. Þau eru eins og gefur að skilja býsna ólík og þarna fá þau færi á að læra á sínum forsendum og eru þjálfuð í að takast á við lífið sem býður þeirra að skólagöngu lokinni.

Slagorð Klettaskóla er Menntun fyrir lífið og það finnst okkur gott markmið fyrir skóla. Á fertugasta og níunda gleðidegi, sem er frídagur í skólum landsins, viljum við þakka fyrir kennarana í öllum skólum sem mæta börnum eins og þau eru og mennta þau vel fyrir lífið. Það er svo sannarlega þakkarefni.

 

Gleðidagur 48: Ein ást

Í dag er alþjóðlegur baráttudagur gegn hómófóbíu og transfóbíu. Í tilefni dagsins viljum við deila með ykkur uppáhaldslaginu Same love eftir Macklemore og Ryan Lewis. Macklemore og Mary Lambert syngja fallegan ástaróð með beittum skilaboðum gegn fordómum gegn samkynhneigðum í vestrænu samfélagi. Hér nefna þau djúpstæðu fordómana, ljótu orðin og fallegu ástina. Myndbandið bætir svo við heilli sögu. Lambert syngur í viðlaginu:

And I can’t change
Even if I tried
Even if I wanted to
And I can’t change
Even if I tried
Even if I wanted to
My love, my love, my love
She keeps me warm

Ótti er ekki í elskunni. Munum það á fertugasta og áttunda gleðidegi þegar við fögnum með vinum okkar sem njóta mannréttinda og grátum með öllum þeim sem reyna fordóma og mannréttindabrot á eigin skinni.

Gleðidagur 47: Börnin

Börnin okkar

Tómas Viktor, Jakob Agni, Unnur, Heiðbjört Anna, Guðrún María og Elísabet

Aðra hverja helgi erum öll börnin okkar hjá okkur. Þá er hátíð í bæ og mikið líf í húsinu. Í október á síðasta ári fórum við með skarann okkar til ljósmyndara sem tók þessa góðu mynd af þessum undursamlega fallegu börnum. Það er mikilvægt að eiga fallegar myndir af börnunum sínum því góð ljósmynd er lykill að minningafjöld.

Á fertugasta og sjöunda gleðidegi erum við glöð og þakklát fyrir börnin okkar öllsömul sem sem hvert og eitt bæta svo miklu við lífið og gera það dýpra, betra og magnaðra.

Gleðidagur 46: Þetta er vatn

Lífið getur verið rútínukennt og fullt af endurtekningum. Þá getur verið gott að staldra við og spyrjast fyrir um það sem er í umhverfinu okkar – svona svipað og ef gullfiskurinn spyrði út í vatnið sem hann syndir í.

David Foster Wallace er uppáhaldshöfundur. Í dag viljum við deila með ykkur þessu myndbandi sem var búið til í kringum hluta af ræðu sem hann flutti útskrifarnemum við bandarískan háskóla. Hann er innblásturinn okkar á fertugasta og sjötta gleðidegi.

Gleðidagur 45: Stjörnstríð eða -friður?

Úr Star Trek: Into Darkness

Spock, John Harrison og Kirk í kvikmyndinni Star Trek: Into Darkness

Í vetur horfðum við á sjónvarpsþættina Big Bang Theory með stelpunum okkar. Það reyndist hin besta skemmtun og veitti skemmtilega innsýn vísindi og nördaskap. Eitt af því sem reglulega er fjallað um í þessum þáttum eru sjónvarpsþættirnir og kvikmyndirnar um Star Trek.

Nýjasta Star Trek kvikmyndin var frumsýnd á dögunum og hún sver sig í ættina þegar kemur að því að fjalla um áhugaverð siðferðisleg álitamál. Hún er líka býsna vel gerð. Tvö temu standa upp úr eftir áhorfið: spennan milli stríðs og friðar og spurningin um það hvort réttlætanlegt er að víkja til hliðar reglum og fyrirmælum til að bjarga lífum.

Án þess að fara nokkuð út í efni myndarinnar er hægt að ljóstra því upp að í Star Trek útgáfunni af heiminum er tekin nokkuð skýr afstaða með friði og með fólki, gegn stríði og ranglátum reglum. Það er góð afstaða. Star Trek er semsagt ekki veröld stjörnustríðs heldur stjörnufriðar.

Á fertugasta og fimmta gleðidegi viljum við þakka fyrir boðbera friðar, hverjir sem þeir eru og hvaðan sem þeir koma.

Gleðidagur 44: Sjö mínútur fyrir líkamann?

Tómas Viktor

Það er gott að hreyfa sig á hverjum degi. Best er að flétta hreyfinguna inn í okkar daglega lífsstíl, til dæmis með því að ganga frekar en að keyra stuttar vegalengdir, hjóla í vinnuna, fara stiga frekar en að taka lyftu. Þið hafið lesið þetta allt.

Á heilsubloggi á vef New York Times er kynnt sjö mínútna æfingarútina sem kemur hjartanu af stað. Þú þarft ekkert nema svolítið pláss og einn stól. Hverja æfingu gerir þú í 30 sekúndur og á milli æfinga hvílir þú í 10 sekúndur.

 1. Sprellikarlar
 2. Sitja upp við vegg með hnén í 90 gráðu horni
 3. Armbeygjur
 4. Uppsetur
 5. Uppstig á stól
 6. Hnébeygjur
 7. Dýfur a stól
 8. Planki
 9. Hlaupa á staðnum með háum hnélyftum
 10. Framstig
 11. Armbeygja með snúningi
 12. Hliðarplanki

Æfingarnar 12 ættu að taka rúmlega sjö mínútur. Þær má endurtaka tvisvar eða þrisvar. Ítarlegri lýsingu á æfingunum má lesa í fræðigreininni sem bloggfærslan er byggð á.

Á fertugasta og fjórða gleðidegi skulum við hreyfa okkur!

Myndin með bloggfærslunni er af Tómasi Viktori að stökkva út í sundlaug. Sund er einmitt frábær líkamsrækt.

Ég kenndi Efraím að ganga,
bar þá á örmum mér
en þeir skildu ekki að það var ég sem annaðist þá.
Ég dró þá að mér með böndum eins og menn nota,
með taugum kærleikans.
Ég reyndist þeim eins og sú
sem lyftir brjóstmylkingi að vanga sér.
Ég beygði mig niður að honum,
gaf honum að eta.

Hósea 11.3-4 fjallar um Guð sem móður. Njótið mæðradagsins.

Vísitasía í Bessastaðakirkju

Í Hitchhikers Guide to the Galaxy segir frá samnefndri handbók sem er gagnlegur fylgifiskur allra ferðalanga um alheiminn. Þessi handbók geymir gagnlegar upplýsingar sem geta jafnvel bjargað lífi ferðalangsins og munu örugglega gera ferðina skemmtilegri.

Í samtímanum er ferðahandbókin á formi snjallsíma sem ferðalangurinn virkjar með sim-korti til að hafa aðgang að margskonar upplýsingum sem henta ferðalöngum og geta gert ferðalögin eftirminnilegri og betri. Dave Caolo hefur tekið saman nokkur hagnýt ráð fyrir ferðalanga sem nota iPhone. Þau eiga að sjálfsögðu líka við þá sem nota snjallsíma af öðrum gerðum.

Svo má líka nota snjallsímana til að lesa bækur, eins og þær sem Douglas Adams samdi um alheimsferðalanginn Arthur Dent og vini hans.

Á fertugasta og öðrum gleðidegi þökkum við fyrir sumarið sem er í vændum og skemmtileg ferðalög.

Myndin er af snjallsíma í Bessastaðakirkju.

The Barn

Á uppstigningardegi hófst mikið Downtown Abbey maraþon á heimilinu. Það er gaman að kynnast heimilisfólki, ættingjum, vinum og kunningjum í þeim þáttum. Í tilefni þess langar okkur að deila með ykkur mynd af uppáhaldsmat sem er reglulega á borðum í Englandi: Skonsum. Þessar eru reyndar frá kaffihúsinu The Barn í Berlín, en þær eru enskar í anda!

Gleðidagur 40: Hjólað í vinnuna og vinnunni

Í gær hófst heilsu- og hreyfingarátakið Hjólað í vinnuna. Árni smurði keðju og pumpaði í dekkin á gamla sænska herhjólinu sínu og tók það formlega í notkun sem aðalfarkost sumarsins. Hjólakeppnin stendur til 28. maí en að sjálfsögðu verður hjólað í allt sumar.

Á fertugasta gleðidegi hjólum við og deilum með ykkur laginu Glow með Retro Stefson. Þar má sjá bræðurna í bandinu tvímenna á reiðhjóli um Reykjavíkurborg.

I have conquered Asia, what will be my next conquest

Tíkin Tobba er nýjasti fjölskyldumeðlimurinn. Hún er á fyrsta ári og enn að læra á lífið. Hún er full af leikgleði og finnst gaman að upplifa lífið, sérstaklega með börnunum. Það er gaman að uppgötva heiminn í fylgd með besta vini mannsins, sérstaklega þegar maður er lítill.

Á þrítugasta og níunda gleðidegi þökkum við fyrir gæludýrin sem eru krydd í tilveru ótal margra fjölskyldna á Íslandi.