Menu

árni + kristín

hjón, foreldrar, prestar

Gleðidagur 50: Hvítasunnan og fjölmenningin

Fjölmenningin

Í dag er hvítasunnudagur og 50 daga gleðiblogssátakinu lýkur. Þess vegna viljum við rifja upp hvað gleðidagarnir eru og hvers vegna við bloggum á hverjum degi.

Tíminn frá páskum og fram að hvítasunnu er oft kallaður gleðitími og á hverjum degi þessa 50 daga höfum við einsett okkur að blogga um eitthvað sem er jákvætt og uppbyggilegt, og reynum þar að lyfta upp fólki og atburðum sem bæta samfélagið.  Umfjöllunarefnin hafa verið afar fjölbreytileg, frá því að hrósa Pollapönkurunum fyrir fallegan og mikilvægan boðskap til hvatningar til að reglulegrar hreyfingar og yfir í gómsætra uppskrifta að fiski og límonaði.

Kirkjuárið er byggt upp í kring um atburði í lífi Jesú. Við höldum upp á fæðingu hans á jólunum, við minnumst föstunnar, dymbilviku, síðustu kvöldmáltíðarinnar, föstudagsins langa þegar hann var krossfestur og fögnum á páskunum þegar hann reis upp frá dauðum. Tíminn eftir páska og upprisan er tími þar sem sigur lífsins yfir dauðanum er umfjöllunarefni kirkjunnar, allt fram að hvítasunnu. Hefð er fyrir því að tala um þessa daga sem 50 gleðidaga. Gott er að muna að allt hefur sinn tíma, sorgin hefur sinn tíma en líka gleðin. Við höfum 40 daga í lönguföstu og lesum Passíusálmana en síðan taka við 50 gleðidagar.

Hvítasunnan markar upphaf kirkjunnar

Hvítasunnan sem við höldum upp á í dag er þriðja stórhátíð kirkjunnar, á eftir páskum og jólum. Í daglegu lífi fellur hvítasunnan í skuggann. Það eru engar jólagjafir eða páskaegg. Fyrir mörgum er hvítasunnan bara löng helgi þar sem gott er að fara í sumarbústað. Hvítasunnan er hins vegar mjög merkilegur viðburður og gaman að lesa um hann í Nýja testamentinu.

Við tölum gjarnan um að á hvítasunnunni hafi upphaf kirkjunnar átt sér stað. Þarna er Jesú ekki lengur með lærisveinum sínum heldur farinn til himna. Á hvítasunnunni var saman kominn hópur fólks í Jerúsalem, sem hafði mótast af boðskap Jesú og vildi halda honum á lofti. Þetta er saga sem kallast skemmtilega á við samtímann og lýsir því sem gerist í fjölmenningarsamfélagi.

Þau eru stödd í Jerúsalem þegar heilagur andi kemur yfir þau og lærisveinarnir fara að tala tungum. Þarna er fólk frá ýmsum þjóðum en allt skilur það hvað þeir segja og hugsa með sér að þeir séu að tala sitt tungumál. Aðrir túlkuðu þennan viðburð þannig að fólkið hefi einfaldlega verið drukkið og sé að bulla tóma vitleysu. En í kjölfar þessa varð kirkjan til og þeir sem hlýddu á lærisveinana voru skírðir.

Fjölmenningarsamfélagið er eitt af stóru málunum í dag og okkur finnst hvítasunnufrásögnin, þar sem lögð er áhersla á að kristin trú máir út þröskulda, múra, tungumál og stétt, eiga mikið erindi. Hvítasunnan er í raun fjölmenningarhátíð kirkjunnar. Fagnaðarboðskapurinn er ætlaður öllum og það er okkar hlutverk að búa til rými þar sem allir eru velkomnir.

Á fimmtugasta gleðidegi viljum við þakka fyrir fjölmenninguna og líka fyrir ykkur öll, kæru lesendur, sem gáfuð ykkur tíma til að fylgjast með. Guð blessi ykkur í leik og starfi.

Gleðidagarnir eru fimmtíu og standa frá páskum til hvítasunnu. Einu sinni á dag deilum einhverju uppbyggilegu og þakkarverðu með lesendum bloggsins okkar.

Gleðidagur 49: Kaupmaðurinn á horninu

Kaupmaðurinn á horninu

Um daginn keyrðum við með eldri vinum okkar eftir Langholtsveginum þar sem við búum og talið barst að öllum þeim verslunum og sjoppum sem einu sinni voru út um allt í hverfinu. Hér var búð, hér var sjoppa, hér var kaupmaður – en nú er þetta eiginlega allt horfið.

Nema ein lítil verslun sem við búum svo vel að hafa beint á móti okkur. Hún er aldrei kölluð neitt annað en Ólabúð – því þar stendur Óli kaupmaður vaktina. Það hefur oft komið sér vel að hafa hann þarna á horninu. Ekki amalegt að geta beðið börnin að hlaupa út og kaupa pylsubrauð eða mjólkurlítra, þegar þessa hluti vantar á ögurstundu. Það er líka orðinn fastur liður að kaupa laugardagsnammið hjá Óla. Það eru mjög stoltir sælgætisgrísir sem fá að fara með hundraðkall í lófanum yfir Langholtsveginn og velja sér bland í poka – alveg sjálf!

Hverfisbúðin er ómetanleg í flóru hverfisins og styrkir okkur í að vera sjálfbær og umhverfisvæn. Á næst-síðasta gleðidegi segum við: Lengi lifi kaupmaðurinn á horninu!

Gleðidagarnir eru fimmtíu og standa frá páskum til hvítasunnu. Einu sinni á dag deilum einhverju uppbyggilegu og þakkarverðu með lesendum bloggsins okkar.

Gleðidagur 48: Póstkort frá Sardiníu

Póstkort frá Sardiníu

Vonin er eitt af því sem við tölum um þegar börn eru skírð. Nánar tiltekið um þann hluta uppeldisins að ala börnin okkar upp á vonarríkan hátt þannig að þau horfi eða geti alltaf horft vongóð til framtíðar og finni sig aldrei á þeim stað að þykja öll sund lokuð. Þetta er rauður þráður í kvikmyndinni Vonarstræti sem við sáum í gær. Þetta er frábær kvikmynd sem við hvetjum alla lesendur bloggsins til að sjá í bíó.

Vonin í myndinni birtist meðal annars á formi póstkorts frá eyjunni Sardiníu sem er lýst sem besta stað í heimi. Þangað dreymir rithöfundinn Móra um að komast og drauminum deilir hann með Eik vinkonu sinni. Ætli við þurfum ekki öll að eiga okkar Sardiníu, en það er ekki nóg að dreyma bara, við þurfum líka að komast þangað. Gjarnan með fólkinu sem við elskum.

Á fertugasta og áttunda gleðidegi erum við vonarrík um leið og við þökkum fyrir snilligáfu leikara eins og Þorsteins Bachmann og Heru Hilmarsdóttur og kvikmyndagerðarfólks eins og Baldvins Z sem færa okkur snilldarverk eins og Vonarstræti.

Gleðidagarnir eru fimmtíu og standa frá páskum til hvítasunnu. Einu sinni á dag deilum einhverju uppbyggilegu og þakkarverðu með lesendum bloggsins okkar.

Disney myndin um prinsessurnar Elsu og Önnu er í miklu uppáhaldi á heimilinu. Dæturnar okkar eru snillingar í að finna lögin úr Frosin á YouTube í margvíslegum útgáfum. Þessi útgáfa af Let it Go er í sérklassa. Hér syngur Brian Hull lagið með röddum ótal margra söguhetja úr Disneymyndum.

Á fertugasta og sjöunda gleðidegi viljum við þakka fyrir alla áhugalistamennina, eins og Brian Hull, sem taka þekkt verk og gera þau að sínum og leyfa okkur hinum að njóta.

Gleðidagarnir eru fimmtíu og standa frá páskum til hvítasunnu. Einu sinni á dag deilum einhverju uppbyggilegu og þakkarverðu með lesendum bloggsins okkar.

Gleðidagur 46: Sumarblómin blómstra

Sumarblómunum plantað

Eitt af skemmtilegu snemmsumarverkunum er að fegra nærumhverfið okkar með  sumarblómum. Sumarblóm koma í óteljandi gerðum og myndum og henta öllum íbúðargerðum.  Sumarblómin henta jafnt í stórum görðum í kringum einbýlishús og á svalir í fjölbýlishúsum. Við látum nægja að stinga niður nokkrum blómum í þartilgerð ker sem standa við útidyrnar okkar. Þegar blómin opna sig í sólskininu, gleðja þau með litafegurð og angan, og fríska sannarlega upp á grátt húsið og gráa stéttina.

Í sumar völdum við hvítt nálarauga og sólboða, sem blómstrar stórum fjólubláum blómum. Á fertugasta og sjötta gleðidegi þökkum við fyrir sumarblómin sem gleðja með ilm og fegurð á meðan þau lifa sumarlangt.

Gleðidagarnir eru fimmtíu og standa frá páskum til hvítasunnu. Einu sinni á dag deilum einhverju uppbyggilegu og þakkarverðu með lesendum bloggsins okkar.

Gleðidagur 45: Límonaði

Sumardrykkir

Lóan er vorboði. Það eru líka litríkir drykkir eins og þeir sem myndin hér að ofan sýnir. Rótarinn og Eplasólin, Mússí og Smússí bera með sér fyrirheiti um svala á heitum vor- og sumardögum. Enn betra er svo að blanda sitt eigið límonaði. Það má til dæmis gera með því að blanda saman þremur sítrónum, 100-150 gr. af sykri (eftir smekk) og einum lítra af vatni. Þvoðu sítrónurnar og settu þær ásamt sykri og hálfum lítra af vatni í blandara. Sigtaðu svo í skál eða könnu og pressaðu safann í gegnum sigtið. Blandaðu því sem eftir er af vatninu og berðu fram vel kælt, gjarnan með ísmolum.

Gleðidagarnir eru fimmtíu og standa frá páskum til hvítasunnu. Einu sinni á dag deilum einhverju uppbyggilegu og þakkarverðu með lesendum bloggsins okkar.

Gleðidagur 44: Hvetja frekar en að skamma

Það er kúnst að hvetja aðra til að breyta hegðun sinni til betri vegar án þess að detta í það að skamma með fingur á lofti. Myndböndin #ruslíReykjavík þar sem borgarstjórinn okkar veltir vöngum yfir ruslinu í borginni eru gott dæmi um jákvæða hvatningu.

Hann er í hlutverki sögumanns sem er hugsi yfir draslinu á götunum. Í lok fyrsta myndbandsins má heyra hann hugsa með sér:

Ég veit ekki hvaða aðili er að henda drasli á götur Reykjavíkur en mig langar að komast að því og mig langar að fara til viðkomandi og segja við manneskjuna:

Ert þú að henda drasli?
Já.
Værirðu til í að hætta því?

Hér er höfðað til samvisku og myndugleika borgaranna og við hvött til að líta í eigin barm. Þannig getum við einmitt komið á breytingum sem eru til góðs.

Á fertugasta og fjórða gleðidegi viljum við þakka Jóni borgarstjóra fyrir árin hans fjögur í embætti borgarstjóra. Hann hefur verið ábyrgur, frumlegur og skapandi leiðtogi sem hvetur til góðra verka.

Gleðidagarnir eru fimmtíu og standa frá páskum til hvítasunnu. Einu sinni á dag deilum einhverju uppbyggilegu og þakkarverðu með lesendum bloggsins okkar.

Gleðidagur 43: Plokkfiskur

Plokkfiskurinn hans Úlfars

Í dag er Sjómannadagurinn. Um leið og við óskum öllum sjómönnum og fólkinu þeirra til hamingju með daginn viljum við deila með ykkur uppskrift að hátíðlegum hversdagsmat sem við eldum iðulega á heimilinu. Þetta er plokkfiskurinn hans Úlfars á Þremur frökkum.

Í uppskriftina þarf:

  • 900g þorskflök, ýsa eða lúða
  • 200g kartöflur
  • Smjörbolla til að þykkja
  • 1 meðalstór laukur
  • Hálfur lítri af mjólk
  • 1 tsk. karrí
  • Salt eftir smekk
  • 2 msk. pipar
  • 2 msk. kalt smjör

Kartöflurnar eru soðnar, afhýddar og skornar í bita. Þorskurinn er roð- og beinhreinsaður, skorinn í bita og soðinn. Suðan látin komin upp og svo slökkt undir hellunni. Vatni hellt af. Saxið lauk og setjið í pott ásamt mjólk, karrí og salti. Hitið að suðu og þykkið með smjörbollu. Svo er fiski og kartöflum er bætt út í. Kryddað með pipar og hitað aðeins. Því næst er blandan sett í eldfast mót, bernaise-sósa sett yfir og rifinn ostur ofan á. Bakað í ofni við 180-200 gráður þar til osturinn er orðinn fagurgylltur.

Berið fram með rúgbrauði og þykku íslensku smjöri. Njótið með skemmtilegu fólki.

Verði ykkur að góðu.

Gleðidagarnir eru fimmtíu og standa frá páskum til hvítasunnu. Einu sinni á dag deilum einhverju uppbyggilegu og þakkarverðu með lesendum bloggsins okkar.

Gleðidagur 42: Fyrir tvo

Í einni af bókum Douglas Adams um alheims puttaferðalangana fæst svarið við hinn endanlegu spurningu um lífið, alheiminn og alltsaman. Það er 42. Um daginn lásum við skemmtilega bloggfærslu hjá David Weinberger sem túlkaði þetta sem svo að tilgangur tilverunnar væri sá að lifa lífinu með öðrum. Lífið er fyrir tvo:

Hitchhiker's Guide to the Galaxy

Hitchhiker’s Guide to the Galaxy er fyrsta bókin í þrí-, fjór- eða fimmleik Douglas Adams

The Answer to the Ultimate Question of Life, the Universe, and Everything is four two … which is to say, that it’s for two. It’s all about the love!

Þetta eru ágæt skilaboð á fertugasta og öðrum gleðidegi sem er jafnframt kjördagur. Þegar við göngum í kjörklefann er líka gott að hafa það í huga að við búum í samfélagi, sem er fyrir tvo og þrjá og fleiri. Við lifum lífinu saman og þannig viljum við hafa það.

Gleðidagarnir eru fimmtíu og standa frá páskum til hvítasunnu. Einu sinni á dag deilum einhverju uppbyggilegu og þakkarverðu með lesendum bloggsins okkar.

Gleðidagur 41: Einhverfa í myndum

Fjölskyldan okkar

Debbie Rasiel er ljósmyndari. Á síðasta ári ferðaðist hún um heiminn til að mynda börn með einhverfu. Hún kom meðal annars til Íslands og tók myndir af nokkrum íslenskum krökkum. Eitt þeirra er hann Tómas Viktor okkar. Í lok mánaðarins verður opnuð ljósmyndasýning með myndunum hennar. Nokkrar þeirra má líka skoða á vefnum. Hún tók líka fjölskyldumyndina hér að ofan.

Á fertugasta og fyrsta gleðidegi fögnum við fjölbreytninni og þökkum kynnin við Debbie ljósmyndara sem gefur sig að þeim sem eru öðruvísi en líka eins.

Gleðidagarnir eru fimmtíu og standa frá páskum til hvítasunnu. Einu sinni á dag deilum einhverju uppbyggilegu og þakkarverðu með lesendum bloggsins okkar.

Gleðidagur 40: Maya

Maya Angelou

Í gær bárust þau tíðindi að bandaríska skáldkonan Maya Angelou væri látin. Hún var fyrirmynd margra, hugsjónamanneskja sem lét verkin tala og mögnuð listakona. Hún barðist fyrir jafnrétti, umburðarlyndi og friði með lífi sínu og list. Maya orti meðal annars ljóðið Phenomenal Women sem við viljum deila með ykkur á fertugasta gleðidegi sem jafnframt er uppstigningardagur:

Pretty women wonder where my secret lies.
I’m not cute or built to suit a fashion model’s size
But when I start to tell them,
They think I’m telling lies.
I say,
It’s in the reach of my arms,
The span of my hips,
The stride of my step,
The curl of my lips.
I’m a woman
Phenomenally.
Phenomenal woman,
That’s me.

I walk into a room
Just as cool as you please,
And to a man,
The fellows stand or
Fall down on their knees.
Then they swarm around me,
A hive of honey bees.
I say,
It’s the fire in my eyes,
And the flash of my teeth,
The swing in my waist,
And the joy in my feet.
I’m a woman
Phenomenally.

Phenomenal woman,
That’s me.

Men themselves have wondered
What they see in me.
They try so much
But they can’t touch
My inner mystery.
When I try to show them,
They say they still can’t see.
I say,
It’s in the arch of my back,
The sun of my smile,
The ride of my breasts,
The grace of my style.
I’m a woman
Phenomenally.
Phenomenal woman,
That’s me.

Now you understand
Just why my head’s not bowed.
I don’t shout or jump about
Or have to talk real loud.
When you see me passing,
It ought to make you proud.
I say,
It’s in the click of my heels,
The bend of my hair,
the palm of my hand,
The need for my care.
’Cause I’m a woman
Phenomenally.
Phenomenal woman,
That’s me.

Myndina með færslunni fundum við á netinu, Bob Richman tók hana árið 2010 og okkur fannst hún kallast á við boðskap skáldkonunnar, sem var skörp og snjöll.

Gleðidagarnir eru fimmtíu og standa frá páskum til hvítasunnu. Einu sinni á dag deilum einhverju uppbyggilegu og þakkarverðu með lesendum bloggsins okkar.

Gleðidagur 39: Farðu hægt

Globe Roll 8 reiðhjól

Einn af uppáhalds veitingastöðunum okkar heitir Vapiano. Við kynntumst honum í Frankfurt í Þýskalandi og höfum líka borðað á samskonar stað í Berlín, Stokkhólmi og Lundúnum. Á einum af þessum stöðum spurðum við einn þjóninn út í hugsunina á bak við nafnið. Hann sagði eitthvað á þessa leið:

Við bjóðum upp á ítalskan mat. Vapiano er ítalska og merkir: Farðu hægt.

Okkur varð hugsað til þessa í gær þegar við hjóluðum frá Reykjavík til Hafnarfjarðar og aftur heim. Þetta var í fyrsta sinn sem við hjóluðum þessa leið. Okkur taldist til að við hefðum farið um það bil þrjátíu kílómetra og verið tæpan klukkutíma hvora leið. Tilefnið var skemmtilegt því Biskupsstofa, þar sem Árni vinnur, var að halda upp á lok átaksins Hjólað í vinnuna. Það var gert með grillveislu í Hafnarfirði.

Á leiðinni úr firðinum hittum við nokkra vini okkar og áttum skemmtilegt spjall. Við kynntumst líka strandlengjunni, sáum fugla og fólk. Þegar heim var komið hugsuðum við um það hvað við upplifðum margt sem við hefðum misst af ef ferðin hefði verið farin í bíl á sextíu kílómetra meðalhraða en ekki hjóli á fjórtán.

Á þrítugasta og níunda gleðidegi viljum við því þakka fyrir hjólastígana sem tengja hverfi, bæjarfélög og fólk, og hvetja alla lesendur bloggsins til að gefa sér tíma til fara hægt í gegnum lífið – í dag og alla aðra daga.

Gleðidagarnir eru fimmtíu og standa frá páskum til hvítasunnu. Einu sinni á dag deilum einhverju uppbyggilegu og þakkarverðu með lesendum bloggsins okkar.