Menu

árni + kristín

hjón, foreldrar, prestar

Ekki næs – Dyflinnarkerfið virðir ekki manneskjur

Flóttafólk velkomið - meðmælaganga í London

eftir Kristínu Þórunni Tómasdóttur og Toshiki Toma.

Hver myndi stíga um borð í bát með galla á botninum? Enginn. Eða léti annað fólk fara á sjóinn í honum? Hver myndi telja slíkt í lagi? Varla nokkur maður. Eða hvað?

Því miður virðist þetta samt vera iðkað þegar kemur að málefnum hælisleitenda á Íslandi.

Á föstudaginn sl. fengu tveir íranskir umsækjendur um alþjóðlega vernd, úrskurð um frávísun á grundvelli Dyflinnareglugerðar, en þeir eru búnir að vera hérlendis um eitt ár. Báðir sóttu fyrst um alþjóðlega vernd í Noregi. Annar eyddi þar átta árum, hinn sjö árum áður en þeir komu til Íslands. Í Noregi fengu þeir sömu niðurstöðu og átti að senda þá tilbaka til Írans.

Norsk völdin senda flóttamenn til baka hvert sem er, og það er undrunarefni hvers vegna engin þjóð í Evrópu mótmælir þessu bersýnilega broti á alþjóðlegum flóttamannasamningum.

Mennirnir tveir eru báðir kristnir og ef þeir verða sendir til Noregs og þaðan til Írans, er líf þeirra sannarlega í hættu. Annar þeirra greindi frá viðbrögðum norskra yfirvalda við þessum aðstæðum. Ráðið sem hann fékk var: ,,Ef þú talar ekki um trú þína, þá verður þú í fínu lagi“.

Eins og margir hafa bent á, virðir Dyflinnarkerfið ekki mannslíf og er í raun ónýtt. Ástæðan er það ójafnvægi sem skapast vegna pólitískrar stefnu hvers ríkis sem á aðild að kerfinu og mismunandi fjölda flóttafólks í hverju landi.

Það skýtur skökku við að einmitt núna þegar íslenskt þjóðfélag ræðir af einlægni um málefni flóttafólks í Evrópu og meirihluti þjóðarinnar ásamt löggjafanum tjáir vilja sinn að taka á móti auknum fjölda flóttafólks, skuli íslensk yfirvöld hafna umsækjendum um alþjóðlega vernd án þess að hirða um að skoða aðstæður þeirra.

Hér er ekkert samræmi. Hér veit vinstri höndin ekki hvað sú hægri gerir. Við getum ekki kastað fólki burt um leið og við segjum vilja taka á móti fleirum. Allir fæðast með rétt til virðingar og sérhvert mannslíf er óendanlega dýrmætt.

Við biðjum í einlægni yfirvöld í málefnum útlendinga að horfa á málin út frá þessum raunveruleika. Dyflinnarkerfið er gallaður bátur sem ekki er hægt að senda fólk með á haf út. Slíkt felur ekki í sér virðingu fyrir mannslífum og slíkt er alls ekki næs.

Sem prestar og kristið fólk skorum við því á íslensk stjórnvöld á að hætta að beita Dyflinnarreglugerðinni, og efla þannig mannvirðingu og sanngirni í garð umsækjenda um alþjóðlega vernd.

Birtist fyrst á Vísi.is 19. september.

Tími kærleikans

Jólatré við Laugaveginn á aðventunni 2013.

Við skrifuðum þennan pistil fyrir Kjarnann. Hann birtist í jólablaðinu sem kom út 19. desember, tæpri viku fyrir jól.

Eru jólin tími pakkanna? Það finnst mörgum, bæði ungum og öldnum, ekki síst á þessum tíma þegar liðið er á aðventuna og landsmenn hafa eytt ótal stundum í að hugsa um hvað eigi að gefa þeim sem skipta okkur máli, finna út hvar við gerum bestu kaupin, kaupa og pakka inn og skreyta. Pakkastússið allt er mikilvægur hluti af jólahaldinu.

Milljónir

Kvikmyndin Milljónir eftir verðlaunaleikstjórann Danny Boyle er ein eftirminnilegasta jólamynd síðari ára. Þetta er dæmisaga um tvo bræður sem finna tösku fulla af peningum. Sagan gerist í Englandi, nokkrum dögum áður en skipta á um mynt í landinu. Bræðurnir vilja ekki skila peningunum því þeir óttast að enginn trúi því að þeir hafi fundið þá á víðavangi. Þeir vita líka að peningarnir verða verðlausir eftir nokkra daga.

Hvað er til ráða? Eldri bróðirinn vill eyða þeim í sjálfan sig. Hann vill kaupa sér fallega hluti og spreða peningum til að stækka sjálfur. Yngri bróðirinn vill eyða þeim í fátæka og láta þannig gott af sér leiða.

Milljónir gerist á aðventu og jólum. Hún spyr spurningar sem er kannski ein af lykil­spurningum vestræns samfélags: Hvað eigum við að gera við peningana okkar? Eyða í okkur sjálf eða aðra? Er það ekki spurningin sem brennur á svo mörgum þegar rætt er um fjárlög og þróunaraðstoð, framlög til Landspítala, starfsemi hjálparsamtaka, menntakerfið okkar? Er það ekki spurningin sem býr að baki þegar við erum hvött til að kaupa Gjöf sem gefur af Hjálparstarfi kirkjunnar eða Sanna gjöf af UNICEF? Þegar okkur er boðið að skilja aukapakka eftir undir jólatrénu í Kringlunni?

Dýrmætustu pakkarnir

Í jólaljóðinu „Ég þigg þennan pakka“ eftir Berg Þór Ingólfsson sem kom út á jólaplötunni Eitthvað fallegt á dögunum er sungið um þá pakka sem hjartanu eru kærastir:

Pakkinn sem er
næst hjartanu á mér
dálítið beyglaður
lætur lítið yfir sér
en hann er frá þér
og merki þess ber
með smáum fingrum föndraður
af kærleikanum ger.

Um jólin er gott að staldra við, horfa til baka og íhuga hvaða pakkar það eru sem við höfum gefið eða þegið sem hafa skilið eftir sig dýpstu sporin í hjarta og huga. Það eru ekki endilega dýrustu pakkarnir heldur fremur þeir sem við völdum af kostgæfni og bjuggum til sjálf með eigin huga eða höndum. Dýrmætastir eru jafnvel þeir sem fóru til þess sem við þekktum aldrei, en þurfti mest á kærleiks­gjöfinni að halda og þáði hana fyrir milligöngu hjálparsamtaka.

Jólin eru tími kærleikans. Kærleika til þeirra sem standa okkur næst og kærleika til þeirra sem við höfum aldrei þekkt. Fyrir það standa pakkarnir sem við gefum og tökum við þessi jól.

Gleðileg jól.

Einelti er súrt en virðing er sæt

Mynd: Daníel Müller Þór

Mynd: Daníel Müller Þór

Í fréttum Rúv í gærkvöldi var sagt frá stórum hópi ungmenna sem koma saman undir merkjum kristinnar trúar til að berjast gegn einelti í samfélaginu. Krakkarnir eru um 60 talsins, á aldrinum 15-18 ára frá æskulýðsstarfi lúthersku kirkjunnnar í Þýskalandi og frá þjóðkirkjunni. Þau hafa notað heila viku til að fræðast, ræða saman og vinna gegn einelti. Vinnan fer fram í minni og stærri hópum og áherslan er lögð á að skilgreina og þekkja einelti í umhverfi unglinganna sjálfra. Hópurinn hefur líka fengið heimsóknir frá samtökum sem vinna gegn einelti og fræðst um það sem hefur verið gert í baráttunni við það.

Verkefnið vekur og hvetur

Það er hvetjandi og vekjandi að heyra um metnaðarfull kirkjuverkefni eins og þetta. Hvetjandi vegna þess að hér er á ferðinni lifandi kirkja sem tengist samfélaginu á jákvæðan og skapandi hátt. Vekjandi vegna þess að áminning unglinganna um eineltisbölið beinir athygli okkar að því hvernig þessum málum er fyrirkomið í umhverfi okkar sjálfra.

Mótmælaganga frá Hlemmi

Þýsku og íslensku unglingarnir hafa einnig notað vikuna til að búa til stuttmyndir, plaköt og póstkort sem tengjast umfjöllunarefninu. Hápunktur verkefnisins er síðan mótmælaganga gegn einelti sem verður farin frá Hlemmi kl. 17 í dag, föstudaginn 20. júlí. Allir sem eiga heimangengt eru hvattir til að ganga með í dag.

Verkefnið „Unglingar gegn einelti – Mannréttindaátak gegn mismunun og túlkun“ er fjármagnað með styrk frá framkvæmdastjórn Evrópusambandsins. Það sýnir kirkjuna sem jarðveg og farveg fyrir góða hluti í samfélaginu. Unglingarnir okkar og æskulýðsleiðtogarnir eru þess vegna sönn fyrirmynd okkar allra.

Myndina með pistlinum tók Daníel Müller Þór sem er einn af skipuleggjendum verkefnisins.

Dauði og upprisa á diskóbar

Dauði og upprisa á diskóbarLykillinn að því að skilja menningu og hópa er að setja fingur á það sem vekur með fólki mestan ótta og mesta von. Þetta sagði guðfræðingurinn Paul Tillich, sem var einn þekktasti túlkandi menningar og guðfræði á 20. öld. Í dægurtónlistinni birtist þetta sem þrá eftir því að vera elskuð og ótti við að vera skilin eftir.

Það er sama hvar okkur ber niður, dægurtónlistarfólk um allan heim, frá Elvis og Bítlunum, hefur sett sína villtustu vonir og sárustu angist í búning dægurlaganna og sungið sig inn í hjörtu milljóna. Íslensk dægurlög eru þar engin undantekning, þörfin fyrir ást og óttinn við höfnun eru yrkisefni í mjúku skallapoppi, diskó- og danstónlist og harðasta rappi.

Í tilefni dymbilviku og páska viljum við velta þessari tjáningu ástar og ótta í dægurlögunum fyrir okkur í ljósi yfirstandandi daga. Hér verða skoðuð tvö dægurlög sem fjalla um þrána eftir ást og óttann við höfnun og hafa skírskotun í þemu dymbilviku og páska – dauða og upprisu. (meira…)

Dagur einhverfu er dagur fjölbreytni

Hvað geta þau sem tala ekki, kennt okkur? Hvað sjá þau sem eru hugfangin af smáatriðunum? Hvernig upplifa þau sem hringsnúast lífið? Hvernig miðla þau sem bergmála, til okkar hinna?

Á Degi einhverfunnar beinum við sjónum okkar og athygli að því sem hin einhverfu geta kennt okkur um fjölbreytileika lífsins. Álagið sem er fylgifiskur þess að eiga einhverft barn getur valdið því að við horfum framhjá gjöfunum sem sá einhverfi gefur og ljómanum sem hann varpar í kringum sig. Alltof oft vill umhverfið þvinga alla í sama mót og þau sem passa ekki inn í væntingar um það sem þykir „eðlilegt“ eru jafnvel álitin byrði og ógæfa.

En barninu sem er einhverft fylgir ekki ógæfa heldur gæfa. Það er vissulega öðruvísi, það gengur ekki í takt, það umturnar væntingum um eðlilegan þroska og áreynslulaust uppeldi. Til að geta notið og glaðst yfir slíku barni þurfum við að tengja upp á nýtt og vera opin fyrir hinu óvænta.

Fjölskyldur einhverfra barna á Íslandi standa ekki einar. Það er okkar reynsla að stuðningsnet leikskóla, félagsþjónustu og heilbrigðiskerfis er ómetanlegur samherji einhverfa barnsins og fjölskyldunnar allrar. Þessa þjónustu ber að þakka og meta.

Fyrir kennara, stuðningsfulltrúa og ráðgjafa erum við þakklát. Fyrir samfélag sem metur, hvetur og styður, gefur rými og skapar möguleika, erum við þakklát. Við erum líka þakklát fyrir fræðimenn sem sinna rannsóknum á einhverfu og því sem gagnast einhverfum börnum í námi og leik. Við erum þakklát fyrir áhugasamtök og stuðningsfélög sem halda utan um systkini og aðstandendur.

Þakklátust erum við fyrir drenginn okkar sem minnir okkur á gildi þess sem er öðruvísi og beinir sjónum okkar að leyndardómum lífsins.

Birtist fyrst í Fréttablaðinu, 2. apríl 2012.

Konur geta breytt heiminum

Í dag 8. mars er alþjóðlegur baráttudagur kvenna. Af því tilefni rifjum við upp fræga ræðu eftir Sojourner Truth sem hún flutti á baráttusamkomu kvenna í Akron, Ohio, árið 1851.

Sojourner Truth var prédikari af Guðs náð og áhrifamikill leiðtogi. Hún fæddist í þrældómi og var gefið nafnið Ísabella og var seld frá foreldrum sínum 9 ára gömul. Hún hafði þrælað í mörg ár og eignast nokkur börn sjálf þegar hún hlaut frelsi. Hún lifði reynslumiklu og litríku trúarlífi, tók sér nafnið Sojourner Truth og varð farandprédikari sem eftir var tekið.

 

(meira…)

Fyrsti Fréttablaðspistill ársins fjallar um Þrettándann sem framtíðarhátíð.

Jólasálmar í samtíma

Þennan pistil skrifuðum við fyrir Sunnudagsblað Moggans. Hann birtist í blaðinu sem kom út á jóladegi. Hér fjöllum við um nýja og gamla jólasálma, meðal annars þá sem Bragi Valdimar Skúlason í Baggalúti hefur samið.

(meira…)

Tvenn jólin

Við skrifuðum jólahugleiðingu í Valsblaðið í ár. Þar fjöllum við um jólin sem tíma ljóssins og um jólin eins og þau birtast í menningunni.

Tími ljóss og skugga

Jólin snúast um ljósið sem færir heiminum birtu og yl í svartasta skammdeginu. Við sjáum í guðspjöllunum hvernig Betlehemsstjarnan lýsti upp nóttina og vísaði vitringunum veginn til Jesúbarnsins í jötunni.

Í sænsku verðlaunakvikmyndinni Verkamannabústaðirnir – Svinalängorna, eftir Pernillu August, erum við minnt á hvernig ljósið og skuggarnir geta fylgst að.

Myndin hefst á aðventu, á Lúsíudeginum, þegar dæturnar tvær koma ljósum prýddar í svefnherbergi foreldranna sem þykjast vera sofandi. Lúsíuhátíðin minnir á að aðventan og jólin eru tími ljóssins.

Ljósið skín líka á það ljóta í heiminum ogg varpar skugga. Við erum minnt á það í Svinalängorna. Aðalsöguhetjan Leena rifjar upp bernskujólin sín. Það er ekki falleg mynd. Ekkert jólabað og engir jólapakkar því pabbi eyddi öllum peningunum í vín.

Jólatréð sem féll hálfskreytt um koll þegar foreldrarnir slógust í stað þess að skreyta það. Villt partý, drykkja og hávaði. Yfirgangur og ofbeldi. Pabbi sem öskrar á mömmu og slær hana svo. Á meðan fela börnin sig. Þannig eru bernskujólin hennar Leenu og þeim vill hún helst gleyma.

Tími sannleika og nærveru

Ástin í raun – Love Actually er ein vinsælasta jólamynd síðari ára. Sambönd fólks eru viðfangsefni myndarinnar og bakgrunnur hennar eru jólin.

Eftir því sem sögunum vindur fram kemur grunnafstaða persónanna til jólanna í ljós – og það er augljóst að jólin sjálf hafa áhrif á gang mála.

Jólin í Love Actually snúast um tvennt: að segja það sem manni býr í brjósti – segja sannleikann – og að vera hjá þeim sem maður elskar. Þetta tvennt knýr myndina áfram, vegna þess að það eru jól. Þegar við förum að segja það sem okkur í brjósti býr, horfumst í augu við tilfinningar, brotna erfið og gömul samskiptamynstur upp og nýir hlutir fá rými í lífinu.

Að viðurkenna hvernig manni líður og segja frá því getur valdið manni sjálfum og öðrum erfiðleikum, eins og sumar persónurnar reyna. En jólin eru tími sannleikans og það er þess virði að mæta hindrunum til að uppfylla köllun jólastundarinnar.

Tími öryggis og hlýju

Í jólaguðspjallinu mætum við þrá okkar fyrir öryggi, skjól og hlýju. Í fjárhúsinu sem Jesúbarnið kom í heiminn brýst ljósið fram úr myrkviðum næturinnar.Jatan er tákn um næringu og umhyggju sem við þurfum til að lifa af og síðast en ekki síst er nýfædda barnið tákn um líf og upphaf, hreinleika og ást.

Þessar frummyndir af ljósinu og jötunni hitta okkur í hjartastað og taka form í minningum okkar og reynslu. Það hvernig við höldum jólin tjáir þetta að einhverju leyti. Þörfin fyrir öryggi og næringu kemur fram í áherslunni á þægindi og góðgerðir sem einkennir hátíðahaldið. Köllunin til að sýna kærleika og veita umhyggju sýnir sig í því að við viljum gefa gjafir og gera öðrum gott.

Verum ljósfólk

Kristin trú er trú lífsins alls, trú heildarinnar. Hún nær bæði til dimmunnar í lífinu og til birtunnar. Áskorunin okkar er að dvelja aldrei í myrkrinu eða við það, heldur stíga þaðan yfir í ljósið. Kveikja ljós þar sem myrkur er. Á þann minna jólin okkur. Þau minna okkur á að horfast í augu við myrkrið og kveikja ljós. Þau minna á ljósþörfina í okkar lífi og annarra. Þau kalla okkur til að vera ljósfólk, sem kveikir ljós í eigin lífi og annarra.

Guð gefi þér gleðileg jól.

Að skilja ríki og kirkju

Alþingishúsið

Það er liðin tíð á Íslandi að stjórnmál, vísindi og listir lúti kenningarvaldi eða sjónarmiðum kirkjunnar. Aðgreining hins opinbera frá trúarsetningum er óumdeilanlegt fyrirkomulag um vestrænan heim og einkenni nútímans. Það þýðir hins vegar ekki að ríkisvaldið sé ósnortið af veruleika trúar og trúfélaga eða tengsl kirkju og ríkis séu ekki til staðar í einhverri mynd á hverjum tíma.
Krafan um „algjöran aðskilnað“ ríkis og kirkju missir að okkar mati marks því hún horfir fram hjá veigamiklum atriðum sem er nauðsynlegt að hafa í huga til að skilja ríki og kirkju.

Í fyrsta lagi snúast tengsl ríkis og kirkju um stöðu trúarbragða í menningunni og hvernig hið opinbera tengist þeim í samfélaginu. Undir þetta fellur hvernig trú, trúfélög og trúarbrögð móta einstaklinginn í nútímanum, viðhorf hans, lífstúlkun og mannskilning. Trú er persónulegs eðlis en samt ekki einkamál hvers og eins. Samspil einstaklings og samfélags er gagnvirkt að þessu leyti og á sér stað í hinu opinbera rými.

Í öðru lagi lúta tengsl ríkis og kirkju að því hvernig hið opinbera hefur bein afskipti af starfsemi trúfélaga í gegnum lagasetningar og reglugerðir. Hér ber að horfa til þjónustu sem ríkið innir af hendi í þágu allra trúfélaga, vegna þess að framlag þeirra til samfélags og velferðar eru metin. Ríkið þjónustar trúfélög m.a. með innheimtu sóknargjalda, sem eru einmitt ekki bein framlög hins opinbera.

Í þriðja lagi þarf að huga að sérstakri stöðu þjóðkirkjunnar sem stærsta trúfélags í landinu með auknar skyldur og ábyrgð þess vegna. Um það hefur Hæstiréttur fjallað og komist að því að núverandi tengsl ríkis og trúfélagsins þjóðkirkjunnar brjóti ekki gegn jafnræðisreglu ríkisins eða séu óeðlileg út frá mannréttindasjónarmiðum.

Annars skiljum við ekki ríki og kirkju.

Birtist í Fréttablaðinu, 16. júní 2010.