Menu

árni + kristín

hjón, foreldrar, prestar

Dagur minninga og þakklætis

Sólsetur

Sorgin er hluti af lífinu. Hún er fylgikona ástarinnar því allir sem hafa elskað eiga það á hættu að missa og syrgja. Sorgin getur verið sársaukafull og erfið en við eigum þó aldrei að bæla hana niður eða afneita henni, ekki frekar en við viljum skiljast við minningarnar um þau sem við höfum elskað eða bæla ástina okkar niður.

Það er misjafnt hvernig syrgjendur vinna úr missi eftir andlát ástvinar. Sumir heimsækja gröf hins látna reglulega, aðrir sjaldan eða aldrei. Sumum líður best með að hlutir hins látna séu óhreyfðir í langan tíma, aðrir vilja taka til og fjarlægja þá sem fyrst. Margir tjá sig á Facebook. Sumir tala um hinn látna eða skrifa béf til viðkomandi. Öðrum finnst minningarnar dofna fljótt. Suma dreymir lifandi drauma oft, jafnvel á hverri nóttu, um þann sem þau hafa misst. Þetta eru allt eðlileg viðbrögð.

Þegar við syrgjum erum við að ná tökum á því sem hefur breyst í lífi okkar. Á sama tíma leitum við nýrra leiða til lifa áfram með því tómarúmi sem verður til við missinn. Til að lifa með sorg, söknuði, tómleika og ótta. Til að lifa án hennar eða hans sem hefur kvatt, til lifa án framtíðarinnar sem við töldum örugga. Þetta tekur tíma og rými í lífinu okkar, rétt eins og ástin og minningarnar.

Í árinu eru nokkrir dagar sem eru teknir frá fyrir minningarnar og þakklætið. Einn þeirra er Allra heilagra messa sem við höldum upp á 1. nóvember. Í kirkjum landsins er boðið til fjölbreyttra bænastunda þar sem við minnumst látinna. Kirkjugarðarnir eru líka opnir. Þangað er hægt að fara, eiga sína stund, kveikja á kerti, minnast og þakka. Þú ert velkomin í garð og til kirkju, Guð blessi þig, blessi minningarnar þínar og ástina og helgi sorg þína.

Ragnheiður Jónsdóttir og Árni Svanur Daníelsson.
Sóknarprestar í Mosfellsprestakalli og Reynivallaprestakalli.

Birtist fyrst í Mosfellingi, 22. október 2015.

Að greina og skilja ríki og kirkju

Kirkjujörðin Þingvellir

Við hjónin skrifuðum stutt svar við Bakherbergispistli Kjarnans um aðskilnað ríkis og kirkju. Umræðan um þetta mál er í fullum gangi og það skiptir miklu að ekki sé gengið út frá röngum forsendum. Pistillinn okkar hefst á helsti sem er svohljóðandi:

Stutt svar við Bakherbergispistli Kjarnans um aðskilnað ríkis og kirkju. Á Íslandi er ekki ríkistrú og trúfrelsi er óumdeilt grunngildi í samtímanum. Aðskilnaðurríkis og kirkju getur haft í för með sér að ákvæði um þjóðkirkju í stjórnarskrá sé tekið burt en það hefur ekki bein áhrif á fjárhagsleg samskipti þjóðkirkjunnar og hins opinbera. Öll trú- og lífsskoðunarfélög fá sóknargjöld sem ríkið innheimtir. Sérstök fjárhagsleg tengsl ríkis og kirkju byggja ekki á sambandi þeirra heldur samningi tveggja sjálfstæðra aðila. Ríkið sparar enga peninga með aðskilnaði.

Lesa í Kjarnanum.

Trú, typpi og píkur

Er trúin eins og typpi? Jón Gnarr skrifar um hliðstæðuna milli trúar og typpis í Fréttablaðspistli um helgina. Hann segir hvort tveggja ágætt til persónulegra nota „…en ekki tala mikið um það við ókunnuga eða troða því upp á fólk“. Líkingin er áhugaverð, en ekki endilega af þeirri ástæðu sem Jón telur. Til að hafa gagn af henni þarf að útvíkka hana svo hún nái yfir bæði typpi og píkur. Annars njóta hvorki trúin né typpin sannmælis.

Rétt eins og allir karlar eru með typpi og allar konur með píku er trú og lífsskoðun órjúfanlegur hluti af hverri manneskju. Ekki í þeirri merkingu að hún trúi á Guð sem er handan þessa heims heldur hefur hún lífsskoðun sem tengir hana við meðvitundina um stöðu sína í tilverunni. Öll samfélög hvíla raunar á gildum sem tengjast slíkum lífsskoðunum.

Kynfræðin kenna að kyn hefur raunveruleg áhrif á menninguna sem við sköpum og að tjáning kynverundar er heilbrigðismál og mikilvæg hverri manneskju. Það sama gildir um trú og lífsskoðanir. Af því að að trú og lífsskoðun er samofin einstaklingnum og sjálfsmynd hans er ekki gott að hann þurfi að bæla hana. Slík bæling tjáningarfrelsis er hliðstæð þeirri bælingu kynverundar sem við sjáum í löndum þar sem konum er gert að hylja líkama sinn – ekki aðeins píkur og brjóst – heldur líkamann allan. Það er hvorki heilbrigt né vænlegt að hunsa trú og lífsskoðanir og gera ekki ráð fyrir þeim í hinu opinbera rými, t.d. með því að taka hið trúarlega markvisst út fyrir rammann í skóla- og frístundastarfi.

Þegar allt kemur til alls snýst þetta því ekki um það hvort „Guð sé til“ heldur hvort við viðurkennum trú og lífsskoðun sem heilbrigðan og eðlilegan þátt í lífi einstaklings og samfélags.

Fréttablaðið, 17. febrúar 2014.

Hugvekja um börn í sögu og samtíð, flutt í þættinum Trú, menning og samfélag á Rás 1. Það er hægt að hlusta í Sarpinum.

Aðventukransinn og þau sem vantar

Fyrsta aðventukertið minnir á ástvinina sem eru ekki lengur með okkur. Við nemum staðar, nefnum nafnið þeirra, rifjum upp röddina þeirra, andlitið þeirra og allar minningarnar sem tengjast þeim og jólatímanum. Við tendrum ljós, felum þau Guði og þökkum fyrir það sem lífið þeirra gaf okkur.

Aðventan og minningarnar, pistill á vef Laugarneskirkju.

„Þú færð eitt á hundrað krónur, en fimm fyrir tvö hundruð,“ sagði ungi maðurinn sem var kominn í Laugarneskirkju til að selja myndasögublöð um Ofurmennið og Köngulóarmanninn. Blöðin eru á íslensku og vel með farin en hann var búinn að lesa þau og vildi gjarnan að einhver annar fengi að njóta. Árni keypti af honum þrjú blöð sem munu án efa gleðja áhugamann um ofurhetjur á heimilinu.

Viðskiptavit í safnaðarheimilinu, pistill á Trú.is.

Umgengni er aðgengi heitir stuttur pistill sem ég skrifaði í Reykjavík: Vikublað í dag. Í þágu aðgengileikans birtist hann líka á Trú.is.

Hugrekkið og bænamálið

Haukur Viðar Alfreðsson skrifar bakþanka um skráningu í trúfélög, morgun- og kvöldbænir á Rás 1 í Fréttablaðið í gær. Umræðan um trú og samfélag er mikilvæg og ég vil bregðast við nokkrum atriðum í pistlinum.

1. Haukur líkir skráningu í trúfélög við skráningu í hópa á Facebook. Á þessu er grundvallarmunur: Hver sem er getur skráð Facebook-vini sína í hóp á Facebook. Börn fylgja aftur á móti foreldrum sínum þegar kemur að skráningu í trúfélög að því tilskyldu að foreldrarnir séu sammála. Enginn getur „addað“ barni í trúfélag nema hann fari með forsjá þess. Þeim aðilum er raunar falið af ríkisvaldinu að taka slíkar ákvarðanir fyrir hönd barnsins. Skráning í hópa á Facebook og skráning í trúfélög er ekki það sama.

2. Það er ekki hægt að smætta samtalið um stöðu morgun- og kvöldbænar á Rás 1 niður í einn hóp á Facebook. Fjöldi fólks hefur látið í sér heyra og sýnt í orði og verki að Ríkisútvarpið skiptir þau máli og bænin líka.

3. Haukur líkir biskupi Íslands við æsingakonu sem hafi hellt olíu á eld. Kannski er það bara hans eigin eldur en líkingin er ekki góð. Agnes biskup hefur tjáð sig af hófsemd og yfirvegun um stöðu bænarinnar í almannarýminu.

4. Haukur segir útvarpsstjóra hafa látið undan handrukkaraþrýstingi. Þessu er ég ósammála. Frá því hann tók við starfi sínu hefur Magnús Geir viljað efla samtalið um Ríkisútvarpið og umræðan um þessar dagskrárbreytingar er samtal við hlustendur. Það hefur sýnt sig að fjölda hlustenda Rásar 1 er ekki sama um þessa dagskrárliði. Að hlusta á þann hóp og taka mark á honum ber vott um hugrekki að mínu mati.

Á endanum snýst þetta mál þó hvorki um biskup eða útvarpsstjóra heldur þann stóra hóp sem lætur sig varða Rás 1, þjóðkirkjuna og bænina. Þeim er ekki sama. Okkur á ekki að vera það heldur.

Fréttablaðið, 26. ágúst 2014.

Fastað á stóru orðin

Fastað á stóru orðin

Fasta er töfraorð í samtímanum. Allt árið er fastað til að koma skikki á líkamsþyngd, blóðsykur og mittismál. Sum okkar fasta á hveiti eða sykur, á kjöt, áfengi eða nammi. Markmiðið er að hnika hegðun og venjum sem gera okkur ekki gott.

Fastan á sér trúarlegar rætur. Við lesum um föstur í Gamla og Nýja testamentinu. Jesús fastaði í fjörutíu daga í eyðimörkinni og kirkjan heldur föstu í aðdraganda jóla og páska. Múslímar fasta frá sólarupprás til sólarlags í Ramadanmánuði. Markmið hinnar trúarlegu föstu er að rækta andann og efla trúræknina með því að leggja líkamlegar þarfir eða hvatir til hliðar.

Aðferðafræði föstunnar virkar líka í öðru samhengi og þarf ekki að takmarkast við að halda sig frá mat. Við getum fastað til góðs fyrir samfélagið okkar hér og nú, með því að leggja af hegðun og venjur sem draga okkur öll niður.

Óvægin orð, illt umtal og uppnefni eitra andrúmsloft og menga sameiginleg rými okkar. Samhengi slíkra orða getur verið pólitískt eða persónulegt, þau eru sögð í fúlustu alvöru eða undir formerkjum húmors. Óháð samhenginu er slík umræða íþyngjandi. Hún getur orðið eins og illkynja æxli þegar hún grefur sig inn í þjóðarlíkamann. Hún stendur í vegi fyrir því að við þroskumst sem einstaklingar og samfélag og getum orðið besta útgáfan af okkur sjálfum.

Á þessari föstu skulum við fasta á stóryrtar yfirlýsingar um annað fólk, hvort sem er í persónulegum samskiptum, á ræðustóli, í fjölmiðlum eða á netinu. Markmiðið með föstu er nefnilega að verða betri manneskja í betra samfélagi. Föstum á stóru orðin og sjáum hvort við njótum ekki öll góðs af.

Birtist fyrst í Fréttablaðinu, 6. mars 2014.

Askan á enninu

Aska á enni

Einhver sagði um tónlist J. S. Bach að hún kæmi í lag því sem lífið réði ekki við. Út á þetta gengur trúin fyrir mér. Í gegnum trúna getum við tjáð og nálgast hluti sem eru einhvern veginn of stórir, flóknir og erfiðir fyrir litlu okkur að skilja og fá til að ganga upp.

Öskudagurinn er gott dæmi um þetta. Hann markar upphaf föstunnar, sem er tími samlíðunar og iðrunar. Askan hefur verið notuð af kristnu fólki frá upphafi, til að tjá hluti sem er erfitt að koma í orð og kerfi en móta samt alla tilveru okkar. Í fyrsta lagi táknar hún forgengileikann. Askan minnir á eitthvað sem var, en er ekki lengur. Í annan stað er hún tákn um hreinsun, þar sem hún var notuð sem hreinsiefni í stað sápu. Í þriðja lagi er hún tákn um ákveðna hringrás sem kristin trú boðar, að við erum fædd af jörðu, við verðum að jörðu og við rísum upp af jörðu. (meira…)

Morfís, boð og bönn

Rautt spjald

Mælsku- og rökræðukeppnin Morfís hefur verið áberandi í umræðunni undanfarna daga. Athygli landsmanna hefur verið vakin á ósæmilegri og ofbeldisfullri framgöngu í gegnum árin. Nánar tiltekið að ofbeldi gegn konum sem hafa tekið þátt í keppninni. Nýjasta dæmið er tengt viðureign MA og MÍ fyrr í mánuðinum. Eftir hana steig Eyrún Björg Guðmundsdóttir, ræðukona úr MA, fram og sagði sínar farir ekki sléttar. Hún lýsti ofbeldi liðsmanna ræðumanns MÍ sem var þeim, skólanum og keppninni ekki til sóma.

Hvað er til ráða?

Hér má kannski horfa til fótboltans. (meira…)

Kubbað á hvíta tjaldinu

Legó á hvíta tjaldinu

Nema þér verðið eins og börnin sagði Jesús eitt sinn og hvatti til þess að við tækjum börnin okkur til fyrirmyndar. Í hverri skírnarathöfn lesum við svo um afstöðu hans til barnanna: Hann átaldi lærisveina sína fyrir að hleypa börnunum ekki að sér, tók þau sér í faðm og blessaði þau. Jesús vissi nefnilega hvað býr í börnunum: óendanlegir möguleikar, vonin í sinni tærustu mynd.

*

Ég fór í bíó með yngstu dótturinni í dag. Við sáum barnamyndina um Legókallana. Þetta er að sumu leyti dæmigerð saga um baráttu góðs og ills. Hópur góðra legókalla þarf að kljást við illan harðstjóra sem gín yfir öllu. Hann vill steypa alla í sama mót – vill að þeir fylgi leiðbeiningum og ber niður allt sjálfstæði og frumkvæði. Hann er kassa-legó-meistarinn. Hið endanlega markmið hans er svo að líma allan heiminn saman – svo enginn skemmi það sem hann hefur skapað. (meira…)