Menu

árni + kristín

hjón, foreldrar, prestar

Leyfðu okkur að vera hendur þínar

Í dag er dagur kærleiksþjónustunnar í þjóðkirkjunni. Í dag lyftum við upp þjónustunni við náungann sem er kjarnaatriði í kristinni trú og lífi og birtir okkur trúna í verki. Í sögunni af miskunnsama Samverjanum erum við minnt á okkur á að við spyrjum ekki um trú eða stétt eða stöðu þess sem er í neyð heldur nálgumst hann sem náunga sem þarfnast handa okkar í þjónustu. Í Matt 25.35-36 lesum við svo um inntak kærleiksþjónustunnar:

Því hungraður var ég og þér gáfuð mér að eta, þyrstur var ég og þér gáfuð mér að drekka, gestur var ég og þér hýstuð mig, nakinn og þér klædduð mig, sjúkur og þér vitjuðuð mín, í fangelsi var ég og þér komuð til mín.

Í dag viljum við deila þremur bænum með ykkur og gera það að okkar.

I. Þakklæti

Drottinn Guð, við þökkum þér fæðuna og minnumst þeirra sem hungur sverfur að.
Við þökkum þér líf og heilsu og minnumst þeirra sem eru sjúk og deyjandi.
Við þökkum þér vini og fjölskyldu og minnumst þeirra sem eru einmana.
Við þökkum þér frelsið og minnumst þeirra sem eru í fangelsi, og í fjötrum fíknar og skulda.

Leyfðu okkur að tjá þakklætið til þín í þjónustu við aðra.

II. Vitnisburður

Góði Guð. Hjálpaðu okkur að sjá son þinn, Jesú Krist, í hverjum bróður og systur sem við mætum.
Líka þeim sem eru ólík okkur, hafa aðra trú, annað tungumál, annan bakgrunn og annan efnahag.
Öll eru þau í þinni mynd og óendanlega dýrmæt í þínum augum, eins og við sjálf.

Leyfðu okkur að bera trú okkar á þig vitni með þjónustunni við aðra.

III. Hendur

Lifandi Guð. Lát okkur minnast að allt sem við gerum einum okkar minnstu bræðra og systra, gerum við þér.
Þegar við heimsækjum, heimsækjum við þig, þegar við gefum að borða, gefum við þér að borða,
þegar við gefum, gefum við þér, þegar við elskum, elskum við þig.

Leyfðu okkur að vera hendur þínar á jörðu í þjónustunni við aðra.

Guð.
Á skírnardegi vorum við nefnd með nafni
og þú skrifaðir nafnið okkar í lífsins bók
og ristir nafnið okkar í lófa þinn
eins og við gerðum á unglingsárum
þegar við vorum skotin í einhverjum
og skrifuðum nafnið þeirra í lófann.
Þau nöfn dofnuðu og hurfu þegar lófinn var þveginn,
en nöfnin okkar okkar dofna ekki,
þau er að eilífu í lófanum þínum.
Takk fyrir að þú þekkir okkur og þekkir nöfnið okkar.
Takk fyrir að þú ert okkar Guð.
Amen.

Morgunbæn á Rás 1, 16. apríl 2013. Innblásið af vini mínum Kristjáni Vali sem er uppáhaldsskáld.

Guð.
Þú skapaðir okkur með hjarta og huga og munn.
Til að elska, hugsa og tala.
Orðin okkar geta dregið fólk niður og sært.
Og þau geta lyft í hæðir, huggað og hlýjað.
Viltu gera hjartað okkar hlýtt í dag,
hugsann umhyggjusaman
og munninn farveg fyrir falleg orð.
Þannig að þau sem við mætum í dag fari frá okkur
léttari í spori og glaðari í hjarta.
Vitandi að þau séu metin, virt og elskuð.
Amen.

Morgunbæn á Rás 1, 15. apríl

Guð.
Það er svo gott að upplifa sólina á morgnana.
Sjá hana gægjast upp yfir fjöllin og lýsa upp landið.
Horfa mót henni og píra augun og finna ylinn á andlitinu.
Þiggja næringuna sem er í geislum hennar.
Fyrir það viljum við þakka í dag
og biðja þig að gera okkur að sólargeisla
í lífi fólksins í kringum okkur.
Bæði þeirra sem við þekkjum
og hinna sem við þekkjum ekki.
Amen.

Morgunbæn á Rás 1, 13. apríl.

Guð.
Þú sagðir okkur að vera eins og börnin
til að skilja þig og nálgast þig.
Viltu gefa okkur leikgleði barnanna, lífsgleði barnanna og trúargleði barnanna –
sem eru svo opin gagnvart lífinu og gagnvart þér.
Viltu hjálpa okkur að standa vörð um börnin sem minna mega sín og um barnið í okkur sjálfum.
Amen.

Morgunbæn á Rás 1, 12. apríl.

Guð.
Á hverjum degi upplifum við augnablik
sem gefa tilefni til að gleðjast og vera hamingjusöm.
Stundum sjáum við þau ekki
því við göngum svo hratt gegnum lífið
eða erum upptekin af því slæma.
Viltu gefa okkur ró í huga og hjarta
til að lifa hægt og upplifa augnablikin
þar sem gleðin er fullkomin.
Amen.

Morgunbæn á Rás 1, 11. apríl.

Guð.
Viltu ganga með okkur til Emmaus, eins og með lærusveinunum forðum daga.
Til okkar Emmaus.
Viltu gefa okkur brennandi hjarta
þegar við lesum um þig.

Brennandi munn
þegar við tölum um þig.

Brennandi hendur þegar okkar hendur
sem verða þínar hendur,
til góðra verka í heiminum sem við lifum í.
Amen.

Morgunbæn á Rás 1, 10. apríl.

Guð.
Hjartabrosin eru.
eins og aflstöðvar
kærleikans í lífinu.

Viltu gefa okkur bros á hjarta.
Til að lýsa upp lífið okkar í dag.

Guð.
Viltu gefa okkur bros á varir.
Til að deila með öðrum.
Og gera þannig daginn þeirra betri en hann væri ella.

Guð.
Viltu brosa til okkar í dag.
Svo að við megum brosa til annarra
og séum þannig farvegur fyrir kærleikann þinn.
Amen.

Morgunbæn á Rás 1, 9. apríl 2013

Guð.
Gæðum jarðar er misskipt.
Sumir hafa mikið, aðrir lítið.

Viltu gera okkur meðvituð og þakklát
fyrir það sem við höfum.
Viltu gera okkur meðvituð og örlát
gagnvart þeim sem búa við skort.

Viltu kenna okkur að gefa öðrum
af því sem okkur hefur verið gefið.

Því það er náungakærleikur.
Amen.

Morgunbæn á Rás 1, 8. apríl 2013

Guð.
Í dag og aðra daga
viljum við ganga með þér
í trausti til þess sem þú gefur okkur í öllum aðstæðum lífsins
sem er fullvissan um lífið
og loforðið um lífið.

Viltu láta loforðið þitt
um sigurinn yfir dauðanum
taka sér bólfestu í okkur
og móta bæði líkamann okkar og sálina
þannig að við verðum boðberar lífsins
og þar með boðberar þínir.
Amen.

Morgunbæn á Rás 1, 6. apríl 2013

Guð.
Stundum skiljum við ekki orðin þín.
En þegar við horfum á Jesú,
sjáum hvernig hann mætti fólki af umhyggju og í kærleika,
þá þurfum við ekki að skilja allt.

Því við skynjum hvernig þú mætir okkur
og vitum hvernig við eigum að mæta öðrum.

Af umhyggju og í kærleika.

Viltu gefa okkur að mæta öðru fólki í dag
eins og þú mætir okkur í Jesú.
Amen.

Morgunbæn á Rás 1, 5. apríl 2013.

Guð.
Vorið heldur innreið sína.
Lífið kviknar.
Það birtir á landinu okkar
og í hjörtunum okkar.
Það eru páskarnir.
Tími birtu, tími lífs og tími vonar.
Fyrir það viljum við þakka.
Og yfir því viljum við gleðjast.
Amen.

Morgunbæn á Rás 1, 4. apríl 2013.