Getur þú tínt í aukapoka?

Aukapokinn

„Getur þú tínt í einn aukapoka fyrir þá sem mest þurfa hjálp?“ Svo spyr Hjálparstarf kirkjunnar sem hefur hleypt af stokkunum nýstárlegri söfnun. Aðsóknin í innanlandsaðstoð Hjálparstarfsins hefur aukist mjög mikið á því ári sem er liðið frá efnahagshruninu. Þörfin er mikil. Það skiptir því miklu máli að allir sem geta leggi sitt af mörkum.

Getur þú hjálpað?

Ps. Hægt er að gerast meðlimur í Aukapokahópi á Facebook.

Réttlætið

„Réttlætið er … ástand í samfélaginu þar sem réttur hins smæsta er ekki fyrir borð borinn heldur varinn. Þar sem réttur umkomulausra er varinn er samfélagið á réttri leið og þar þrífst mannúð, menning og menntun, þrenning sem fylgir siðbótinni frá upphafi.“

Svo skrifar dr. Gunnar Kristjánsson í pistlinum Til mögru áranna sem birtist á trú.is á dögunum. Holl áminning!

Blessun dauðans

Frá því þú fæddist
hefur þinn eigin dauði gengið þér við hlið
og þótt hann sýni sig sjaldan
finnur þú hola snertingu hans
þegar óttinn heldur innreið sína í líf þitt
eða þegar það sem þú elskar glatast
eða þú verður fyrir hnjaski hið innra.

Þegar örlögin leiða þig
á þessa fátæklegu staði
og hjarta þitt er áfram örlátt
þar til dyr opnast inn í ljósið
þá ertu smátt og smátt að vingast við eigin dauða
þannig að þegar stundin rennur upp
og þú þarft að snúast á hæli og hverfa á braut
hafir þú ekkert að óttast.

Megi þögul nærvera dauða þíns
kalla þig til lífsins
og vekja þig til vitundar um það að tíminn er af skornum skammti
og til þess að þú verðir frjáls og
lifir köllun þinna eigin örlaga.

Megir þú safnir þér saman
og ákveða hvernig þú ætlar að lifa hér og nú
lífinu sem þú myndir vilja
líta til baka á
frá þínu eigin dánarbeði.

Írski presturinn og heimspekingurinn John O’Donohue skrifaði þessa fallegu blessun og brýningu. Við Kristín Þórunn fluttum hana í prédikuninni okkar í Víðistaðakirkju í gær þar sem við ræddum meðal annars um lífið og dauðann, börnin og barnalánið og barnalánin sem voru í fréttum í síðustu viku og sitthvað fleira.

„Smátt og smátt lærist mér …“

Í dag er allra heilagra messa. Á þessum degi minnast margir látinna ástvina og íhuga sorgina og lífið. Við horfum yfir farinn veg. Mörg okkar halda líka í kirkjugarða til að vitja um leiði, kveikja kannski á kerti og gera stutta bæn. Mig langar í dag að deila með ykkur sem heimsækja þetta blogg stuttu ljóði eftir ástralska ljóðskáldið Marjorie Pizer:

Ég taldi að dauði þinn
væri eyðing og eyðilegging,
sársaukafull sorg sem ég fékk vart afborið.
Smátt og smátt lærist mér
að líf þitt var gjöf og vöxtur
og kærleikur sem lifir með mér.
Örvænting dauðans
réðist að kærleikanum.
En þótt dauðinn sé staðreynd
fær hann ekki eytt því sem þegar hefur verið gefið.
Með tímanum læri ég að líta aftur til lífs þíns
í stað dauða þíns og brottfarar.

„Smátt og smátt lærist mér,” skrifar hún. Með tímanum lærist okkur að horfa á lífið, vera þakklát fyrir það sem þegið var meðan okkur auðnaðist að ganga saman en ekki bitur yfir því sem aldrei fékk að verða. Kannski er það stærsti lærdómur þess sem fetar sig eftir stíg sorgarinnar.

Kannski er það líka áskorun okkar sem þjóðar, nú á þessum tímum, þegar við glímum við úrvinnslu kreppusorgarinnar.

Fimm þúsund börn

Það mætti halda að allt snerist um peninga á Íslandi þegar horft var til forsíðna morgunblaðanna fyrr í vikunni. Þar mátti lesa:

  • Vogunarsjóðir sjá tækifæri í íslensku bönkunum á ný
  • Fimmtungur lána í frystingu
  • Afskrifa líklega milljarða vegna lána Jötuns Holding
  • Hvöss gagnrýni á umframútgjöld og málsmeðferð hjá ríkinu

Aðalfréttin rataði hins vegar ekki á forsíður blaðanna. Og þó mér fannst hún vera forsíðuefni í dagblöðum og á vefmiðlum. Og hvaða frétt var það? Átakið gegn einelti sem hleypt var af stokkunum. Í tengslum við það hafa samtökin Heimili og skóli m.a. bent á að 5000 börn eru lögð í einelti hér á landi.

5000 börn.

Það eru alltof margir.

Og á bak við þessa tölu eru auðvitað fleiri: Aðstandendur og gerendur.

Á vef Heimilis og skóla er hægt að fræðast meira um átakið og þar er hægt að sækja bækling með hollráðum til foreldra. Við ættum að taka okkur saman og vekja athygli á þessu, skapa meðvitund og styðja Heimili og skóla til góðra verka. Miðla á Facebook og vefmiðlum og til þeirra sem eru í tengslanetunum okkar. Og hvetja svo íslenska fjölmiðla til að setja þetta mál í forgang.

Því það á ekki allt að snúast um peninga.

Það á allt að snúast um fólk.

Það er eins gott að við áttum okkur á því.

Ferðapunktar og fíkjuviðarblöð

Jesús sagði við hann: Maður nokkur gjörði mikla kvöldmáltíð og bauð mörgum. Er stundin kom, að veislan skyldi vera, sendi hann þjón sinn að segja þeim, er boðnir voru: Komið, nú er allt tilbúið. En þeir tóku allir að afsaka sig einum munni. Hinn fyrsti sagði við hann: Ég hef keypt akur og verð að fara og líta á hann. Ég bið þig, haf mig afsakaðan. Annar sagði: Ég hef keypt fimm tvenndir akneyta og er á förum að reyna þau. Ég bið þig, haf mig afsakaðan. Og enn annar sagði: Konu hef ég eignast, ekki get ég komið.

Þjónninn kom og tjáði herra sínum þetta. Þá reiddist húsbóndinn og sagði við þjón sinn: Far þú fljótt út á stræti og götur borgarinnar, og leið inn hingað fátæka, örkumla, blinda og halta. Og þjónninn sagði: Herra, það er gjört, sem þú bauðst, og enn er rúm. Þá sagði húsbóndinn við þjóninn: Far þú út um brautir og gerði og þrýstu þeim að koma inn, svo að hús mitt fyllist.Því ég segi yður, að enginn þeirra manna, er boðnir voru, mun smakka kvöldmáltíð mína. Lúk 14.16-24

Inn á milli fótboltaleikjanna sem ráða ríkjum í sjónvarpinu um þessar mundir var sýnd ein ágætis bíómynd í gærkvöldi um skáldkonuna og heimspekinginn Írisi Murdoch. Myndin rakti líf og starf Írisar frá því hún var ung kona að hefja skrif sín þar til hún er komin á efri ár og hugur hennar sem alla tíð var svo frjór og skarpur er farinn að láta undan hrörnun og sjúkdómi. Þungamiðja myndarinnar er samband Írisar við lífsförunaut sinn sem er elskhugi hennar og eiginmaður og stendur við hlið hennar þar til yfir lýkur.

Í myndinni segir hin unga Íris frá bókinni sem hún er að skrifa – þeirri fyrstu af mörgum sem hún ritaði á langri æfi. Þegar hún er spurð um hvað hún er, segir Íris: Hún er um það hvernig á að vera hamingjusamur, hvernig á að vera góð manneskja og hvernig á að elska.

Þetta eru hinar stóru spurningar sem hafa heillað manneskjuna alla tíð og knýja okkur hvert og eitt áfram á lífsgöngunni. Þetta er það sem við öll þurfum að fá að vita og leggjum mikið á okkur til þess að vita hvernig þessir hlutir geta komið til okkar.

En hin gáfaða Íris vissi líka hvað það er sem kemur í veg fyrir að manneskjan öðlist þetta þrennt – að verða hamingjusöm, vera góð manneskja og geta elskað. Það sem stendur í vegi fyrir hinni sístæðu leit okkar að tilgangi lífsins segir Íris í myndinni er þráhyggja, ótti og ástríða sem við viljum ekki viðurkenna eða horfast í augu við.

Það eru þess vegna ekki ytri hlutir sem koma í veg fyrir að við getum elskað, orðið hamingjusöm og verið góðar manneskjur – heldur þvert á móti. Skýringuna á því sem hindrar okkur í þessu er að finna innra með okkur. Og það varpar ljósi á hvað manneskjan er merkileg út frá þessu sjónarhorni – að hún hefur óumræðilega mikla þörf fyrir að vera hamingjusöm, að elska og vera góð – en er ófær til þess vegna þess hvernig hún er. Þetta vitum við öll sem hér erum – og erum alltaf að reyna að vera góð, elska rétt og vera hamingjusöm.

Ég veit nú ekki mikið um hvort Íris Murdoch taldi sig ganga erinda kristinnar guðfræði. En það sem hún segir um manneskjuna og baráttu hennar við að elska rétt hljómar líkt og vangaveltur þeirra sem leita í kristna trú við svörum við spurningum um tilgang lífsins. Sú leit hefur í gegnum tíðina skilað ýmsu merkilegu. Fyrst og fremst hefur guðfræðin dvalið við manneskjuna sjálfa og reynt að skilja hvers vegna hún er eins og hún er og hvers vegna hún er ekki eins og hún ætti að vera.

Á sínum tíma þótti afar skynsamlegt að leita að þessum skýringum í því hvernig heimurinn snerist á hvolf við syndafallið. Mannssálin skiptist í þrá hluta eftir virðingarstiga – skynsemi, vilja og ástríður. Afleiðingar syndafallsins eru þær að hinn æðri hluti sálarinnar stjórnar alls ekki lengur hinum óæðri heldur þvert á móti – það eru ástríðurnar sem ríkja yfir skynseminni en ekki öfugt. Af þessu leiðir öll ógæfa manneskjunnar sem lætur ástríður sínar leiða sig að því sem er ekki þess virði að það sé elskað umfram allt annað.

Það er þarna sem samband manneskjunnar við Guð verður flókið og snúið. Guð er það sem við eigum að elska og þrá umfram allt annað – en það sem við verðum ástfangin af er fyrst og fremst okkar eigið ágæti. Gregóríus mikli setti fram hugmyndir sínar um hvernig manneskjan syndgar á fjóra vegu: Hún ímyndar sér að hún eigi eitthvað í sjálfri sér, hún ímyndar sér að hún hafi fengið eitthvað frá Guði en fyrir eigin verðleika, hún ímyndar sér að hún eigi eitthvað sem hún á alls ekki í reynd og svo telur hún sig öðrum betri.

Þessi afstaða kristallast í hrokanum sem við viðhöfum þegar við erum full af hugmyndum um eigin ágæti og höldum dauðahaldi í það sem okkur finnst við hafa öðlast af því við eigum það svo skilið. Þessi hroki sækir afl sitt í óttann við að vera það sem við raunverulega erum og lætur okkur fela okkur á bakvið það sem hinir ímynduðu verðleikar eiga að hafa fært okkur.

Guðspjall dagsins segir einmitt frá slíkum hrokagikkum sem láta gorgeirinn yfir því sem þeir hafa nýverið komið í verk hindra sig í að þiggja boðið í kvöldmáltíðina sem þeim hafði hlotnast. Þegar veislan er reiðubúin og sent er eftir gestunum, taka þeir allir sem einn að afsaka sig einum munni – einn hefur keypt akur og þarf að fara og líta á hann, annar hefur eignast akneyti sem hann verður að reyna og enn annar er nýkvæntur og vill sinna konunni.

Þarna eru það verk, umsvif og staða sem mennirnir nota til að leiða hjá sér boðið til þess samfélags við Guð sem kvöldmáltíðarhátíðin í sögunni stendur fyrir. Þeir þiggja ekki boðið heldur setja traust sitt á sig sjálfa og sín eigin verk.

En það áhugaverða í sögunni er að boðið stendur áfram og veislan er samt haldin. Þeir sem voru boðnir eru hins vegar ekki hluti af henni lengur. Þeir sem taka þátt í veislunni eru þeir sem höfðu ekkert til að fela sig á bak við þegar þeim barst boðið – engin viðskiptaumsvif, eignir eða fjölskyldustöðu – ekkert hinna hefðbundnu fíkjuviðarblaða sem við notum til að fela okkur fyrir Guði og hvert öðru. Þeir sem fengu að taka þátt í kvöldmáltíðinni í sögunni og upplifa þannig samfélagið við Guð voru hinir fátæku, örkumlu, blindu og höltu. Allir þeir sem ekki létu hugmyndir um eigið ágæti og eigin verðleika standa í vegi fyrir því að upplifa það sem er mest virði að fá að njóta þegar það bauðst þeim.

Finnski guðfræðingurinn Jaakko Heinimäki segir í bók sinni um syndirnar sjö að líf á Guðs vegum sé gott, fullt af hamingju og von. Líf án sambands við Guð er að ytri gerð algjörlega sams konar líf, en það er innst inni hamingjusnautt og án vonar. Mér finnst þess virði að staldra við og íhuga þessi orð um sjálft inntak lífsins sem skilur sig frá ytri gerð þess. Við þurfum ekki að horfa lengi í kringum okkur til að sjá hvað við erum gjörn á að leggja mikið upp úr ytri umgjörð allra hluta. Eitt af aukablöðum Moggans sem rataði í póstkassann hjá mér og heitir Femin orðaði þetta reyndar alveg ágætlega innan um skrif um fyrirsætur, fullnægingar og ferðapunkta: Fólk gerir í auknum mæli kröfu um að starfið sé innihaldsríkt og um leið að einkalífið sé ánægjulegt. Flestir krefjast þess að njóta lífsgæða í formi gefandi einkalífs, starfs við hæfi og stöðugs efnahags.

Við viljum að gæði og ánægja einkenni öll svið lífs okkar. Starfið og einkalífið eru það sem við notum til að mæla velgengni okkar í augum annarra. Slík velgengni er, eins skrítið og það kann að hljóma, samt ekki ávísun á líf sem er fullt hamingju og von. Kröfur um gæði og frammistöðu á öllum sviðum lífsins láta okkur festa enn fleiri fíkjuviðarblöð utan á okkur svo við þurfum ekki að koma fram eins og við erum. En lífið á Guðs vegum er eitthvað allt annað heldur en frammistaða í lífsgæðakapphlaupinu, hvaða nöfnum við nefnum lífsgæðin sem við erum svo kröfuhörð á. Þar er líka um að ræða aðrar fyrirmyndir en á leikvangi lífsgæðanna þar sem við leitum að leiðum og ráðum til að ná sem lengst. Þar eru fyrirmyndir okkar þau sem láta ekki fíkjuviðarblöð sín þvælast fyrir þegar Guð býður til samfélags heldur þiggja boðið í kvöldmáltíðina miklu. Það eru ekki hin umsvifamiklu og lánsömu í viðskiptum og einkalífi – heldur hin fátæku, örkumlu, blindu og höltu.

Dýrð sé Guði, föður syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi er og verður um aldir alda. Amen.

Kristín Þórunn Tómasdóttir er héraðsprestur í Kjalarnessprófastsdæmi. Þessi prédikun var flutt í Þingvallakirkju 2. sunnudag eftir Trinitatis, 20. júní 2004.

Þrautseigja í þrengingum

Í baráttu yðar við syndina hafið þér ekki enn þá staðið í gegn, svo að blóð hafi runnið. Og þér hafið gleymt áminningunni, sem ávarpar yður eins og syni: Sonur minn, lítilsvirð ekki hirtingu Drottins, og lát ekki heldur hugfallast er hann tyftar þig. Því að Drottinn agar þann, sem hann elskar, og hirtir harðlega hvern þann son, er hann að sér tekur.

Þolið aga. Guð fer með yður eins og syni. Hver er sá sonur, sem faðirinn ekki agar?

En séuð þér án aga, sem allir hafa fyrir orðið, þá eruð þér þrælbornir og ekki synir. Enn er það, að vér bjuggum við aga jarðneskra feðra og bárum virðingu fyrir þeim. Skyldum vér þá ekki miklu fremur vera undirgefnir föður andanna og lifa?

Feður vorir öguðu oss um fáa daga, eftir því sem þeim leist, en oss til gagns agar hann oss, svo að vér fáum hlutdeild í heilagleika hans.
Í bili virðist allur agi að vísu ekki vera gleðiefni, heldur hryggðar, en eftir á gefur hann þeim, er við hann hafa tamist, ávöxt friðar og réttlætis. (Heb 12.4-11)

Þessi texti er um viðbrögð okkar við mótlæti og þrautseigju í þrengingum. Á hnitmiðaðan hátt minnir hann okkur á þá augljósu staðreynd að lífið er erfitt og getur farið um okkur ómjúkum höndum. Mennirnir missa, elska, gráta og sakna kvað Jóhann Sigurjónsson í vögguvísu sinni og bað þess að unginn mætti sofa sem lengst til að verða síður fyrir mæðunni sem bíður allra manna. Texti Hebreabréfsins talar til þeirra sem í mótlætinu velta því fyrir sér hvers vegna Guð leyfi allt það illa og erfiða sem við þurfum að ganga í gegnum. Hvernig stendur á því að jafnvel góðar manneskjur sem ganga á Guðs vegum upplifa erfiðleika og hryggð? Hvernig geta þær komið því heim og saman að Guð sem er góður leyfi allt það erfiða og vonda?

Textinn svarar þessum stóru spurningum ekki. En hann stappar stálinu í þau sem gætu verið að missa móðinn og missa trúna á að þau eigi nokkuð gott í vændum. Hann minnir á að þótt eitthvað geti virst óbærilegt í augnablikinu þá eru þau sem setja traust sitt á Guð í öruggri hendi hans. Eins og börn í umsjón ástríkra og ábyrgra foreldra. Þessi áminning er ekki sett fram til að gera lítið úr upplifunum fólks á erfiðleika- og hryggðartímum – þvert á móti þá eru þrengingar lífsins dauðans alvara og afar raunverulegar. Mótlæti er aldrei gleðiefni, heldur hryggðar. Þess vegna er ómögulegt að segja við þau sem þjást og spyrja sig áleitinna spurninga um tilgang þess sem þau eru að ganga í gegnum að þau muni vissulega upplifa eitthvað gott vegna þess hvað þau eiga erfitt núna.

Hins vegar geta þau sem finna sig einangruð og afskipt í þrengingunum verið viss um að þau eru elskuð af Guði sem er trúfastur og gleymir engum. Að upplifa erfiðleika í samskiptum og sambandi við annan þýðir ekki að við séum gefin upp á bátinn. Samband sem er byggt á trausti og ást er sterkara tímabundnum ágjöfum og persónulegu mótlæti.

Og þversögn lífsins er að þrátt fyrir erfiðleika og mótlæti lærum við á því að takast á við lífið í trú á að við erum elskuð. Agi gefur þeim sem við hann hafa tamist ávöxt friðar og réttlætis. Og andlegur agi sem við getum lært að nýta okkur til að vaxa og þroskast í trúnni gefur hlutdeild í heilagleika Guðs. Það er agi sem vert er að sækjast eftir – látum vera með sjálfsaga sem beinist að því að takmarka súkkulaðiinntöku og hámarka kraftgöngur.

Markmið okkar sem kristnar manneskjur á að vera að nærast í samfélaginu við Krist í gegnum orð og sakramenti. Þaðan drögum við okkar sjálfsmynd og þangað sækjum við okkar styrk í mótlæti og þrengingum.

Flutt í árdegismessu í Hallgrímskirkju 8. október 2003.

Góðar móttökur

„Enn sagði hann: Maður nokkur átti tvo sonu. Sá yngri þeirra sagði við föður sinn: Faðir, lát mig fá þann hluta eignanna, sem mér ber. Og hann skipti með þeim eigum sínum. Fáum dögum síðar tók yngri sonurinn allt fé sitt og fór burt í fjarlægt land. Þar sóaði hann eigum sínum í óhófsömum lifnaði. En er hann hafði öllu eytt, varð mikið hungur í því landi, og hann tók að líða skort. Fór hann þá og settist upp hjá manni einum í því landi. Sá sendi hann út á lendur sínar að gæta svína. Þá langaði hann að seðja sig á drafinu, er svínin átu, en enginn gaf honum.

En nú kom hann til sjálfs sín og sagði: Hve margir eru daglaunamenn föður míns og hafa gnægð matar, en ég ferst hér úr hungri! Nú tek ég mig upp, fer til föður míns og segi við hann: Faðir, ég hef syndgað móti himninum og gegn þér. Ég er ekki framar verður að heita sonur þinn. Lát mig vera sem einn af daglaunamönnum þínum.

Og hann tók sig upp og fór til föður síns. En er hann var enn langt í burtu, sá faðir hans hann og kenndi í brjósti um hann, hljóp og féll um háls honum og kyssti hann. En sonurinn sagði við hann: Faðir, ég hef syndgað móti himninum og gegn þér. Ég er ekki framar verður að heita sonur þinn. Þá sagði faðir hans við þjóna sína: Komið fljótt með hina bestu skikkju og færið hann í, dragið hring á hönd hans og skó á fætur honum. Sækið og alikálfinn og slátrið, vér skulum eta og gjöra oss glaðan dag. Því að þessi sonur minn var dauður og er lifnaður aftur. Hann var týndur og er fundinn.“ (Lk 15.11-24)

• • •

Náð sé með yður og friður frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi. Það er svo áhugavert að kynnast nýjum hliðum á fólki. Við upplifum stundum nýjar hliðar á fólki sem við þekkjum mjög vel. Og á okkur sjálfum. Og þá sjáum við fólk í alveg nýju ljósi. Þetta gerist t.d. þegar maður verður foreldri sjálfur, þá fer maður að meta foreldra sína á allt annan hátt en áður og kynnist þeim kannski alveg upp á nýtt.

Lífið snýst svolítið um það að upplifa hluti sem maður þekkir upp á nýtt. Því aðstæður breytast og við breytumst. Í guðspjallinu um soninn sem fór að heiman fáum við að fylgjast með fólki í aðstæðum sem breytast og hvernig það hefur áhrif á líf þeirra sem þar koma við sögu. Sagan byrjar á því að yngri sonurinn á heimilinu vill brjóta upp tilveruna eins og hún hefur verið hingað til. Hann vill út í heim til að meika það. Hvorki hann né faðir hans sem lætur þetta eftir honum, vissu hvernig honum ætti eftir að ganga í þessum nýju aðstæðum.

Svo kemur á daginn að hann höndlar frelsið og sjálfstæðið ekkert mjög vel. Aðstæður hans breytast aftur og hann fer að líta á sig sem óverðugan og ómögulega manneskju. Þegar hann gengur í sig og snýr heim til að hitta föður sinn að nýju, býst hann ekki við öðru en að viðmótið heima fyrir verði í samræmi við það hvernig honum gekk að fóta sig í fjarlæga landinu. En svo er ekki. Ást föðurins til barnsins síns knýr hann til að fagna hinum týnda syni sem nú er fundinn og kominn heim. Kærleikurinn breytir erfiðum aðstæðum þar sem fólk er að kljást við sekt og byrðar, í fögnuð og gleði. Þessu hafði sonurinn týndi ekki búist við. Og þetta hefði hann ekki fengið að reyna nema vegna þess að hann fór og kom aftur.

• • •

Þessi dæmisaga Jesú skírskotar til reynslu okkar bæði af því að vera manneskjur í tengslum við aðrar manneskjur og til trúarlífs hvers og eins okkar. Hún sýnir kærleika í samskiptum sem er það eina sem getur bætt brotin tengsl og læknað sárin sem við völdum hvert öðru. Og hún sýnir okkur kærleika Guðs til barna sinna. Hún varpar ljósi á það hvernig Guð bregst við þegar nýjar aðstæður koma upp og kennir okkar að vænta nýrra hliða á Guði. Stundum erum við aðeins reiðubúin til að leita þess Guðs sem við þegar þekkjum en viljum síður leita þess Guðs sem við þekkjum ekki.

Kannski göngum við um með kvíða yfir því að vera óverðug og ómögulegar manneskjur, og vitum ekki að Guð bíður okkar með kærleika sem breiðir yfir allt, trúir öllu og vonar allt.

Sagan um týnda soninn sem snýr aftur heim brýnir fyrir okkur að leita leiða í samskiptum og samfélagi okkar sem hafa kærleikann að leiðarljósi. Það þurfum við alltaf að vera minnt á. Einmitt núna stöndum við sem elskum kirkjuna okkar og störfum við að útbreiða boðskapinn um Jesú Krist frammi fyrir því hvernig við getum sæst við þau sem boðskapurinn er ætlaður. Hvernig getum við boðið þau velkomin sem hafa farið að heiman og eru hrædd við að snúa við – af því að þau halda að það sé leiðinlegt og þvingandi í kirkjunni? Hvernig getum við látið þeim líða vel þegar þau koma til kirkju, þannig að þau finni sig og upplifi að það sé talað til þeirra?

Því Guð sem þau þekkja ekki, bíður þeirra þar með kærleika sinn sem þau vænta ekki.

Dýrð sé Guði föður, syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi er og verður um aldir alda. Amen.