Menu

árni + kristín

hjón, foreldrar, prestar

Eitt hundrað sjötíu og sex orð um sparnað og svita

Það er inni að hjóla í Reykjavík.

Sífellt fleiri kjósa hæga lífsstílinn og hjóla til og frá vinnu allan ársins hring. Reiðhjólið er líka ein einfaldasta og skjótvirkasta aðferðin til að auka ráðstöfunartekjur heimilisins verulega. Það getur jú munað allt að 100 þúsund krónum á mánuði að vera á bíl eða hjóli þegar allt er talið með.

Ljós á reiðhjóli

Í skammdeginu þurfa að vera góð ljós á hjólinu.

Sumir klæða sig í hjólagalla, gjarnan úr spandexi, fara í sérstaka hjólaskó, og stíga svo upp á létt og hraðskreitt götuhjól sem má nota til að komast hratt og örugglega milli staða.

Aðrir vilja vera í skrifstofugallanum og velja sér þyngra borgarhjól með færri gírum. Á slíku hjóli situr hjólreiðamaðurinn uppréttur, tekur á sig mikinn vind og kemst hægar yfir, en fær um leið tíma til að upplifa og íhuga meðan á ferðinni stendur.

Allir njóta þess að upplifa borgina okkar frá öðru sjónarhorni og renna sína leið framhjá umferðarteppunum milli átta og níu og fjögur og fimm. Koma kannski svolítið sveittari heim en alveg örugglega glaðari.

Gleðidagur 39: Farðu hægt

Globe Roll 8 reiðhjól

Einn af uppáhalds veitingastöðunum okkar heitir Vapiano. Við kynntumst honum í Frankfurt í Þýskalandi og höfum líka borðað á samskonar stað í Berlín, Stokkhólmi og Lundúnum. Á einum af þessum stöðum spurðum við einn þjóninn út í hugsunina á bak við nafnið. Hann sagði eitthvað á þessa leið:

Við bjóðum upp á ítalskan mat. Vapiano er ítalska og merkir: Farðu hægt.

Okkur varð hugsað til þessa í gær þegar við hjóluðum frá Reykjavík til Hafnarfjarðar og aftur heim. Þetta var í fyrsta sinn sem við hjóluðum þessa leið. Okkur taldist til að við hefðum farið um það bil þrjátíu kílómetra og verið tæpan klukkutíma hvora leið. Tilefnið var skemmtilegt því Biskupsstofa, þar sem Árni vinnur, var að halda upp á lok átaksins Hjólað í vinnuna. Það var gert með grillveislu í Hafnarfirði.

Á leiðinni úr firðinum hittum við nokkra vini okkar og áttum skemmtilegt spjall. Við kynntumst líka strandlengjunni, sáum fugla og fólk. Þegar heim var komið hugsuðum við um það hvað við upplifðum margt sem við hefðum misst af ef ferðin hefði verið farin í bíl á sextíu kílómetra meðalhraða en ekki hjóli á fjórtán.

Á þrítugasta og níunda gleðidegi viljum við því þakka fyrir hjólastígana sem tengja hverfi, bæjarfélög og fólk, og hvetja alla lesendur bloggsins til að gefa sér tíma til fara hægt í gegnum lífið – í dag og alla aðra daga.

Gleðidagarnir eru fimmtíu og standa frá páskum til hvítasunnu. Einu sinni á dag deilum einhverju uppbyggilegu og þakkarverðu með lesendum bloggsins okkar.

Kolaglóð og krýsólít: Reiðhjólabæn

Bobbin Daytripper reiðhjól

Vorið er tíminn þegar við tökum hjólin okkar fram og njótum hreyfingar og útiveru í sátt og samlyndi við umhverfið. Götur, torg og skólalóðir fyllast líka af ungu hjólreiðafólki með marglita hjálma og skrautlega lása.

Ég tók saman stutta helgistund þar sem við nefnum hluti sem eru mikilvægir öllu hjólafólki. Fyrst kemur ritningarlestur – sem er soldið flippaður, enda frá þeim magnaða spámanni og presti Esekíel, sem lifði á 6. öld fyrir Krist. Mér finnst hann passa vel í reiðhjólabæn þar sem hann fjallar um hjól og það er mikið líf í tuskunum. Svo kemur bæn sem er sett upp eins og almenn kirkjubæn í venjulegri messu, þar sem einn les og hinir svara. Að lokum fylgir blessun og smurning – því bæði fók og hjól þurfa réttu olíuna til að ganga vel.  (meira…)